A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fiðrildagildrur á vegum Náttúrustofu Vestfjarða við Hólmavík

| 06. maí 2011
Nemendur við vitjun á fiðrildagildrum
Nemendur við vitjun á fiðrildagildrum

Eftir páska hafa nemendur við Grunnskólann á Hólmavík farið með og hjálpað til við vitjun á fiðrildagildrum í Stakkamýri og við Þverárvirkjun. Vitjað er um gildrurnar á hverjum föstudegi frá miðjum apríl til byrjun nóvember. Nemendur munu aðstoða við vitjun gildranna fram að lokum skólans og möguleiki er að halda áfram á nýju skólaári í haust. Nemendurnir fá fræðslu um þau skordýr sem sjást í gildrunum og sérstaklega um lífsferil fiðrilda. Einnig fá þau fræðslu um gróðurlendið sem gildrurnar eru í.


Föstudaginn 6. maí 2011 fór hópur úr 7. bekk ásamt kennara sínum Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur til að vitja um gildruna. Í Stakkamýri veiddist eitt fiðrildi og nokkrar flugur en í gildrunni við Þverárvirkjun voru 31 fiðrildi og 36 flugur af mismunandi tegundum. Hópurinn var mjög áhugasamur og fannst gaman að fá að skoða fiðrildi og krækilyngsblóm með stækkunargleri.

Framkvæmdastjóri og starfsmenn Atvest með opinn viðtalstíma á Hólmavík

| 04. maí 2011
 

Fimmtudaginn 5. maí n.k mun framkvæmdarstjóri og starfsmenn Atvest vera á skrifstofu Atvest á Hólmavík í Þróunarsetrinu að Höfðagötu 3 milli kl. 9:00 - 12:00. Við viljum hvetja fyrirtæki og einstaklinga sem vantar handleiðslu og ráðgjöf að hafa samband við Atvest í síma 450 3053 eða senda tölvupóst á netfangið asgerdur@atvest.is .  Atvest bókar tíma á skrifstofu eða starfsmenn fara í heimsókn til viðkomandi.  Einnig er hægt að koma við á skrifstofunni í opinn viðtalstíma.

Samningur gerður við HSS um starf framkvæmdastjóra

| 04. maí 2011
Vignir, Arnar og Ingibjörg staðfesta samninginn - ljósm. Jón Jónsson
Vignir, Arnar og Ingibjörg staðfesta samninginn - ljósm. Jón Jónsson
« 1 af 2 »
Sannkallaður tímamótasamningur var gerður milli Strandabyggðar og Héraðssambands Strandamanna á dögunum. Samningurinn er til eins árs og snýst um að tómstundafulltrúi Strandabyggðar, Arnar Snæberg Jónsson, tekur að sér framkvæmdastjórn sambandsins til 1. apríl 2012. Arnar er tómstunda- og félagsmálafræðingur frá Háskóla Íslands, en hann mun sinna starfinu í 10% stöðu á ársgrundvelli ásamt öðrum störfum tómstundafulltrúa. Mörg undanfarin ár hafa framkvæmdastjórar Héraðssambandsins starfað í þrjá mánuði yfir sumarið, oftast í 50% starfi, en nýja samkomulagið gerir sambandinu kleift að efla starfið allt árið. Sérstaklega er litið til þess að efla upplýsingagjöf, kynningu, samskipti og aðstoð við aðildarfélög HSS, UMFÍ og ÍSÍ auk þess sem framkvæmdastjórinn sinnir skipulagningu fyrir mót og kynningu á úrslitum eftir þau.  
...
Meira

Það er stutt á Strandirnar! Íbúafundur um dreifbýlismál

| 02. maí 2011
Myndir frá íbúafundi - IV
Myndir frá íbúafundi - IV
« 1 af 7 »

Það er stutt á Strandirnar! Þetta voru lokaorð íbúa á opnum fundi um dreifbýlismál sem haldinn var í Sauðfjársetrinu á Sævangi (sjá fyrri umfjöllun á vef 30. apríl og 1. maí 2011). Íbúar vilja leggja áherslu á öflugri markaðssetningu á Ströndum út á við en einnig að efla ímynd samfélagsins inn á við með jákvæðum og hvetjandi viðhorfum sem stuðla m.a. að nýsköpun og áframhaldandi uppbyggingu. Rætt var um gæði og möguleika öflugrar sauðfjárræktar á Ströndum, bæði hvað varðar bragðgott villilamb sem og  heilbrigð líflömb, auk þess sem horft var til möguleika á frekari nýtingu auðlinda á svæðina. Þetta var meðal þess sem kom fram  þegar fundarmenn svöruðu 3. og síðustu spurningu íbúafundarins sem var ,,Hvað geta íbúar gert til að stuðla að áframhaldandi þróun og uppbyggingu í dreifbýli Strandabyggðar?" 

Niðurstöður fundarins má sjá í heild sinni í meðfylgjandi skjali.

Hláturjóga á vegum Hamingjudaga í sumar

| 02. maí 2011
Ásta Valdimarsdóttir hláturjógakennari
Ásta Valdimarsdóttir hláturjógakennari
Á Hamingjudögum 2011 verður sérstök áhersla lögð á að íbúar á Ströndum og nágrenni fái tækifæri til að finna og rækta innri hamingju. Hátíðin í ár verður því með örlítið breyttu sniði þar sem stefnt er að því að bjóða upp á ýmis námskeið sem tengjast sérstaklega viðfangsefni hátíðarinnar - hamingjunni einu og sönnu. 

Eitt af þeim námskeiðum sem boðið verður upp á er frábært námskeið undir stjórn Ástu Valdimarsdóttur hláturjógakennara. Ásta Valdimarsdóttir lærði hláturjóga í Noregi 2001 og hefur síðan haldið marga fyrirlestra og námskeið um fyrirbærið á Íslandi og í Noregi. Námskeiðið fer fram þriðjudaginn 28. júní, hefst kl. 19:00 og tekur þrjá tíma. Tilgangurinn með því er að efla og styrkja líkama, huga og sál. Hláturjóga er blanda af hláturæfingum og jógaöndun....
Meira
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón