A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Barþraut í kvöld kl. 21:00

| 29. júní 2011
Hamingjudagar færa þér fjölbreytta viðburði!
Hamingjudagar færa þér fjölbreytta viðburði!
Það eru sannkallaðir hamingjustraumar sem leika um íbúa í Strandabggð þessa stundina. Fyrir stuttu síðan birti til á Hólmavík og menn litu heiðbláan og bjartan himinn í fyrsta skipti í allnokkurn tíma. Veðurspáin fyrir helgina er góð og bendir margt til þess að einna mestu hlýindin á landinu verði einmitt á Hamingjudögum á Hólmavík.

Í gær fór fram frábært námskeið í hláturjóga sem var vel sótt af 13 hláturmildum konum á öllum aldri. Í kvöld verður hátíðinni haldið áfram, en þá fer fram Pub Quiz í Pakkhúsinu á Café Riis. Atburðurinn hefst kl. 21:00, en stjórnandi og spyrill er hin góðkunna Halla Steinólfsdóttir, bóndi í Ytri-Fagradal. Strandamenn eru hvattir til að mæta á atburðinn, ekkert kostar inn en til mikils er að vinna!
 

Fáðu þér Hamingjulagið í ár!

| 28. júní 2011
Allý og Elín mættar í söngklefann - ljósm. Arnþór Ingi Jónsson
Allý og Elín mættar í söngklefann - ljósm. Arnþór Ingi Jónsson
« 1 af 4 »
Nú er diskurinn með Hamingjulaginu 2011, Vornótt á Ströndum, loksins kominn út og í sölu. Lagið vann fimm önnur lög í lagasamkeppni sem var haldin á Hólmavík þann 20. maí, en höfundur lags og texta er Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík. Lagið var tekið upp í frábærum gæðum af Sigurþóri Kristjánssyni í Stúdíó Gott hljóð í Borgarnesi en meðlimir í hljómsveitinni Festival spiluðu lagið. Útsetning lagsins er að miklu leyti sú sama og í keppninni, en þar var lagið útsett af Bjarna Ómari Haraldssyni á Hólmavík. Flytjendur eru yngismeyjarnar Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir og Elín Ingimundardóttir.

Diskurinn kostar kr. 1.200.- og verður til sölu víða um Hólmavík, m.a. í Kaupfélaginu og á handverksmarkaði Strandakúnstar í Þróunarsetrinu. Einnig er hægt að panta diska í s. 894-1941 eða í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

Hægt er að heyra örstutt sýnishorn af laginu með því að smella hér.
 

Fjölbreyttar listsýningar á Hamingjudögum

| 28. júní 2011
Undir áhrifum náttúrunnar - Erna Björk Antonsdóttir
Undir áhrifum náttúrunnar - Erna Björk Antonsdóttir
« 1 af 3 »
Þrjár glæsilegar listsýningar koma til með að prýða Hamingjudaga í ár. Það er skipuleggjendum hátíðarinnar mikill heiður að stuðla að því að listamenn geti komið til Hólmavíkur og sýnt listaverk, málverk og ljósmyndir sem auðga anda, bæta geð og hlýja hjörtum. Listamennirnir eru Erna Björk Antonsdóttir, Tinna Hrund Kristinsdóttir Schram, Elfar Guðni Þórðarson og Valgerður Þóra Elfarsdóttir. Hér fyrir neðan gefur að líta ítarlega umfjöllun um þessa listamenn og sýningar þeirra. Verið velkomin á Hamingjudaga!
 ...
Meira

Íslandsmet í hópplanki verður sett á Hamingjudögum

| 28. júní 2011
Sveitarstjóri Strandabyggðar er toppplankari - ljósm. JG
Sveitarstjóri Strandabyggðar er toppplankari - ljósm. JG
« 1 af 2 »
Menn gera sér ýmislegt til gamans. Eitt af því sem  hefur farið sigurför um Ísland og heiminn að undanförnu er plankið svokallaða. Plankið snýst í stuttu máli um að menn leggjast á magann, helst á óvenjulegum stað eða aðstæðum, með andlit á grúfu, hendur meðfram síðum með lappir og tær beinar. Plankið er síðan skýrt einhverju nafni og því deilt á internetinu. Fyrirbærið er sannkallaður og óvenjulegur gleðigjafi og skemmtilegt áhugamál svo lengi sem menn fara sér ekki að voða.  

Á föstudegi á Hamingjudögum á Hólmavík er stefnt að því að setja formlegt Íslandsmet í hópplanki með því að fá sem flesta gesti á kvöldvöku á Klifstúni til að planka í einu. Menn eru hvattir til að æfa sig úti í garði fram að hópplankinu. Þeir sem þjást af frjókornaofnæmi ættu þó að fara varlega í að planka í grasinu og rétt er að minna menn á að planka ekki á hættulegum stöðum.  

Meðfylgjandi þessari frétt er mynd sem sýnir hárrétt plank; rétta og fallega líkamsstöðu, óvenjulegan stað og aðstæður og sannkallaða plankgleði og hamingju. Plankarinn er enginn annar en Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar. Vettvangur sveitarstjóraplanksins er Galdrasýning á Ströndum. Ingibjörg mun einmitt halda setningarræðu Hamingjudaga á kvöldvökunni á föstudagskvöldið næsta.  

Sjáið dagskrá Hamingjudaga með því að smella hér.
 

Dagskrá Hamingjudaga liggur ljós fyrir!

| 27. júní 2011
Hamingjudagar nálgast óðfluga - ljósm. Kristín Einarsdóttir
Hamingjudagar nálgast óðfluga - ljósm. Kristín Einarsdóttir
Dagskrá Hamingjudaga liggur nú fyrir á vef hátíðarinnar www.hamingjudagar.is, en auk þess var dagskrárbæklingur sendur út með landpóstinum í dag og ætti því að vera komin í hvert hús á Ströndum og nágrannasveitarfélögum á morgun, þriðjudag. Dagskráin er afskaplega viðamikil og hentar fyrir alla fjölskylduna, en meðal þess fjölmarga sem er í boði má nefna tónleika með Pollapönki og Svavari Knúti, hamingjusmiðju Ásdísar Olsen, listverkasýningar ýmissa listamanna, trommuhring Karls Ágústs Úlfssonar, frumsýningu á einleiknum Skjaldbakan, dansleik með Geirmundi Valtýssyni, námskeið í hláturjóga, Hnallþóruhlaðborð og Hamingjuhlaupið sem nú er hlaupið í þriðja skipti.

Hægt er að skoða dagskrá hátíðarinnar með því að smella hér.

Fólk er hvatt til að skoða dagskrána vel og vandlega og mæta á Hamingjudaga með gleði og hamingju í farteskinu! Til hamingju!
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón