A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík opin 9:00 - 18:00

| 12. júní 2011
Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík. Myndir IV.
Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík. Myndir IV.
« 1 af 6 »

Upplýsingamiðstöð Strandabyggðar á Hólmavík, Holmavik Tourist Information, er opin alla daga milli kl. 9:00 - 18:00. Upplýsingamiðstöðin er til húsa í Galdrasafninu en undanfarnar vikur hefur framkvæmdastjóri safnsins og umsjónarmaður Upplýsingamiðstöðvarinnar, Sigurður Atlason, gert gagngerar breytingar á hluta húsnæðisins. Útkoman er stórskemmtileg. Þegar fréttaritari var á staðnum komu tvær ungar stúlkur í gættina og sögðu hæ! Sigurður Atlason þekkti strax á framburðinum á þessu stutta orði að þarna væru komnir gestir frá Kanada sem reyndist satt vera og voru gestirnir alsælir með móttökurnar.

 


Í Upplýsingamiðstöðinni eru veittar upplýsingar um alla ferðaþjónustu og staðhætti á Ströndum og líf og tilveru íbúanna, auk þess sem veittar eru upplýsingar um Vestfirði og Ísland allt. Ferðaþjónustuaðilar á Ströndum eru hvattir til að setja sig í samband við Upplýsingamiðstöðina og koma upplýsingaefni um þjónustu sína á framfæri. Ferðamönnum fjölgar hratt með degi hverjum. Sveitarfélagið Strandabyggð óskar ferðaþjónum, ferðalöngum og íbúum öllum gleðilegs ferðasumars!

Opnunin á neðstu hæðinni - nafnaleit

| 11. júní 2011

Leit stendur nú yfir á nafni á neðstu hæðinni í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Neðsta hæðin var opnuð föstudaginn 10. júní með handverksmarkaði Strandakúnstar og fallegri sýningu á vegum Þjóðfræðistofu um Höllu skáldkonu eftir Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur. Við opnunina bauð Þjóðfræðistofa gestum og gangandi upp á léttar veitingar og vorboðinn ljúfi, handverksmarkaður Strandakúnstar, var líflegur að vanda. Opið verður fyrir gesti og gangandi á neðstu hæðinni í sumar milli kl. 14:00 - 17:00 alla virka daga. Rýmri opnunartími verður auglýstur sérstaklega í kringum Hamingjudaga.


Á neðstu hæðinni, sem er í stöðugri þróun og vinnslu, eru nú húsgögn og munir úr ýmsum áttum. Gamlir munir úr gamla kaupfélaginu fá þar nýtt hlutverk auk þess sem þar eru húsgögn í eigu Leikfélags Hólmavíkur sem eigendur Orlofsdvalar á Felli í Kollafirði gáfu leikfélaginu fyrr í vikunni vegna flutninga. Þá hefur sveitarfélagið Strandabyggð sett upp barnahorn á neðstu hæðinni auk þess sem gestir og gangandi geta gripið í spil, flett í gömlum bókum eða sest við taflborðið. Allir þeir sem luma á hugmyndum um nafn á neðstu hæðina mega láta starfsfólk Strandabyggðar vita eða senda tölvupóst á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is

Nemendur leikskólans Lækjarbrekku opna sýningu

| 11. júní 2011
Frá opnun sýningarinnar. Myndir IV.
Frá opnun sýningarinnar. Myndir IV.
« 1 af 14 »
Litlar Strandastelpur og litlir Strandastrákar úr leikskólanum Lækjarbrekku hafa opnað glæsilega sýningu í Íþróttamiðstöð Strandabyggðar. Fjöldi fólks mætti á opnunina en sýningin er afrakstur listastarfsemi nemenda leikskólans í vetur.

Innan um listaverkin má finna fjölda skemmtilegra gullkorna sem fallið hafa af vörum nemendanna sem starfsfólkið hefur varðveitt. Sýningin mun standa uppi í Íþróttamiðstöðinni næstu vikur. Sveitarfélagið Strandabyggð sendir nemendum og starfsfólki leikskólans Lækjarbrekku innilegar hamingjuóskir.

Neðsta hæðin í Þróunarsetrinu opnar í dag

| 10. júní 2011
Vorboðinn ljúfi - handverksmarkaður Strandakúnstar. Mynd IV.
Vorboðinn ljúfi - handverksmarkaður Strandakúnstar. Mynd IV.

Í dag, föstudaginn 10. júní kl. 14:00, opnar neðsta hæðin í Þróunarsetrinu að Höfðagötu 3 með handverksmarkaði Strandakúnstar og sýningu á vegum Þjóðfræðistofu eftir Guðfinnu Hreiðarsdóttur um Höllu skáldkonu. Húsnæðið á neðstu hæðinni er í þróun og vinnslu en þar er áætlað að vera með rými fyrir móttöku sveitarfélagsins Strandabyggðar, fræðslu- og fundaraðstöðu, aðstöðu fyrir sýningar og viðburði svo eitthvað sé nefnt.

Handverksmarkaður Strandakúnstar
Opið verður alla daga í handverksmarkaði Strandakúnstar í sumar frá klukkan 14:00-17:00 og verða frávik frá því auglýst nánar síðar. Seljendum er bent á að hafa samband við Ásdísi í síma 694-3306 eða Ingibjörgu í 663-0497. Á markaðinum verður að venju margvíslegt handverk og prjónles sem laghentir Strandamenn hafa framleitt.

Sýning um Höllu skáldkonu
Í dag klukkan 15:00 opnar Þjóðfræðistofan á Hólmavík sýningu Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur sagnfræðings um Höllu skáldkonu frá Laugarbóli (1866-1937). Sýningin sem ber heitið "Svanurinn minn syngur" er hluti af meistaraprófsverkefni Guðfinnu í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Þjóðfræðistofa fékk sýninguna frá Reykhólum en hún var fyrst sett upp í Safnahúsinu á Ísafirði haustið 2008 og á sama tíma var gefin út bók með úrvali ljóða skáldkonunnar og æviágripi hennar. Þessi stórskemmtilega sýningin hefur víða verið sett upp og tekur Þjóðfræðistofa fagnandi við henni nú.

Halla Eyjólfsdóttir var húsfreyja á stórbýlinu Laugabóli við Ísafjarðardjúp frá lokum 19. aldar og fram á fyrri hluta 20. aldar. Hún var ekki einungis fjórtán barna móðir heldur lenti öll bústjórn að miklu leyti á henni þar sem eiginmaður hennar, Þórður Jónsson, var formaður á eigin skipi og því lítið heima við. Guðfinna segir í bók sinni um Höllu: „Þótt hlutskipti Höllu yrði að stjórna stóru búi mestan hluta ævinnar, þá var skáldskapurinn hennar hjartans mál. Hún gat hins vegar aðeins sinnt honum í hjáverkum og í ljóðum hennar urðu fuglar himinsins og himinhnettirnir táknmyndir hins frjálsa anda með lausn frá amstri hversdagslífsins.

Sýningin er á neðstu hæð Þróunarsetursins, heitt verður á könnunni og eru allir velkomnir.

Minnum á íbúafund vegna Hamingjudaga í kvöld!

| 09. júní 2011
Almennur íbúafundur vegna Hamingjudaga verður haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 9. júní kl. 20:30.

Á fundinum verður farið yfir ítarleg drög að dagskrá Hamingjudaga, en hún er óðum að fæðast þessa dagana. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar mun fara yfir einstaka dagskrárliði á fundinum og þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á hátíðinni nú í ár. Einnig verður m.a. skýrt frá því hvaða aðilar munu sjá um að vera skreytingastjórar fyrir hvert hverfi fyrir sig.

Í framhaldi af fundinum sjálfum gefst síðan tækifæri fyrir íbúa í hverju hverfi fyrir sig til að setjast niður með sínum skreytinga-stjórum og kortleggja hvernig fara eigi með sigur af hólmi í skreytingakeppninni, en eins og á síðasta ári verða veitt verðlaun fyrir best skreytta húsið / lóðina, best skreytta hverfið, besta slagorðið og flottustu fígúruna.

Að sjálfsögðu verður heitt á könnunni á fundinum, góð stemmning mun svífa yfir vötnum og lögin um hamingjuna verða á grammófóninum. Þetta er eini almenni íbúafundurinn sem verður haldinn í tengslum við Hamingjudaga - ekki missa af honum!
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón