7. bekkur í skólabúðum í Reykjaskóla
Skólabúðirnar i Reykjaskóla hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár en þangað koma 7. bekkingar víðsvegar að af landinu. Nemendur Grunnskólans á Hólmavík hafa safnað fyrir skólabúðunum með kökubasar, félagsvist og flöskusöfnun svo eitthvað sé nefnt. Sveitarfélagið Strandabyggð óskar þeim ánægjulegrar ferðar.
Kaldalónstónar á Ströndum í dag
Menningarhátíðin Kaldalónstónar verður haldin í Hólmavíkurkirkju og Félagsheimilinu á Hólmavík í dag til minningar um Sigvalda Kaldalóns lækni og tónskáld. Snjáfjallasetur, Þjóðfræðistofa, Kór Hólmavíkurkirkju og listamenn í Borgarfirði standa fyrir hátíðinni sem hefst kl. 14:00.
Dagný Sigurðardóttir, Snorri Hjálmarsson, Viðar Guðmundsson, Sveinn Arnar Sæmundsson og Kór Hólmavíkurkirkju sjá um tónlistarflutning. Sigurður Atlason og Katla Kjartansdóttir flytja fróðleik um skáldið auk þess sem sýningin Kaldalóns verður opnuð í Félagsheimilinu á Hólmavík eftir að dagskrá lýkur í Hólmavíkurkirkju. Þar verða einnig boðið upp á kaffiveitingar. Miðaverð er kr. 2.000 (ekki er tekið við greiðslukortum). Menningarráð Vestfjarða styrkir Kaldalónstóna.
Lionsklúbbur Hólmavíkur 50 ára - Tónskólinn á Hólmavík fær gjöf frá Lionsklúbbi Ísafjarðar
Fulltrúar frá öðrum Lionsklúbbum komu víða að og fögnuðu afmælinu með heimamönnum. Lionsklúbbur Ísafjarðar vildi við þetta tilefni færa Tónskóla Hólmavíkur gjafabréf að upphæð kr. 100.000 til styrktar því öflugu tónlistarlífi sem Tónskólinn stendur fyrir á Ströndum. Fulltrúar frá Tónskólanum, Gunnur Arndís Halldórsdóttir, Sara Jóhannsdóttir og Stella Guðrún Jóhannsdóttir fluttu falleg tónlistaratriði á afmælishátíðinni.
Sveitarfélagið Strandabyggð sendir Lionsklúbbi Hólmavíkur hamingjuóskir með hálfrar aldar afmælið og þakkar fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins.
Dalamenn heimsækja Strandamenn
Sveitarstjórnarfólk úr Dalabyggð kom í heimsókn í Strandabyggð í dag og átti góðan fund með sveitarstjórnarfólki hér. Tilgangurinn var fyrst og fremst að kynnast, fara yfir stöðu og sóknarfæri sveitarfélaganna og skoða möguleika á samstarfi. Nýr vegur yfir Arnkötludal hefur gert samstarf Strandamanna við Dalabyggð og Reykhólahrepp mögulegt á heilsársvísu og fjölmörg tækifæri felast í þessari mikilvægu samgöngubót. Má í því samhengi nefna nýlega stofnun sameiginlegrar félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps og ráðningu sameiginlegs félagsmálastjóra á svæðinu.
Á fundinum var rætt um flest það sem snýr að sveitarfélögunum; íbúaþróun, atvinnumál, menntamál, húsnæðismál, ferðaþjónustu, gatnagerð, snjómokstur, löggæslu, refaveiðar og sorphirðu svo eitthvað sé nefnt. Tilefni heimsóknarinnar er sprottið úr íbúaþingi í Dalabyggð þar sem fram kom eindreginn vilji íbúa um að efla samstarf við Strandamenn. Sveitarstjórnarfólk í Strandabyggð fagnar þeim tækifærum sem í því felst og hlakkar til áframhaldandi hugmyndavinnu.
Á myndinni frá vinstri: Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar, Ingveldur Guðmundsdóttir formaður byggðarráðs Dalabyggðar, Sveinn Pálsson sveitarstjóri Dalabyggðar, Katla Kjartansdóttir, sveitarstjórn Strandabyggðar, Jón Jónsson varaoddviti Strandabyggðar, Jón Gísli Jónsson oddviti Strandabyggðar og Halla Steinólfsdóttir oddviti Dalabyggðar.