Námskeið í mennta- og menningartengdri ferðaþjónustu
Sólveig Dagmar Þórisdóttir, menningarmiðlari, grafískur hönnuður og ökuleiðsögumaður, er nýr gestur í Skelinni, lista- og fræðimannadvöl Þjóðfræðistofu. Hún býður ferðaþjónustuaðilum á Ströndum og nærsveitum upp á námskeiðið ,,Mennta- og menningartengd ferðaþjónusta á Ströndum og Vestfjörðum" í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu.
Sólveig mun leiða hugmyndavinnu á námskeiðinu með aðaláherslu á vetrartímann. Á meðan dvöl hennar stendur, 8. - 19. febrúar, mun hún einnig veita einstaklingsráðgjöf til ferðaþjónstuaðila og hægt verður að panta hjá henni viðtalstíma í Skelinni í síma 8630360.
Námskeiðið fer fram fimmtudaginn 17. febrúar, kl. 20 í Grunnskólanum á Hólmavík, Skólabraut 20-22. Námskeiðið er gestum að kostnaðarlausu.
Sveitarfélagið Strandabyggð styrkir Skelina, lista- og fræðimannadvöl Þjóðfræðistofu.
Síðasti dagur á morgun til að sækja um byggðakvóta
Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir Strandabyggð samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 999/2010 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2010/2011. Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í Strandabyggð sbr. auglýsingu nr. 68/2011 í Stjórnartíðindum.
Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna á heimasíðu hennar. Umsóknarfrestur er sem fyrr segir til og með 15. febrúar 2011.
Fundað um framtíð Héraðsnefndar Strandasýslu
Stjórn Héraðsnefndar mun ásamt sveitarstjórnum sveitarfélaganna fjögurra á Ströndum og sveitarstjóra Strandabyggðar funda með stjórn og safnstjóra Byggðasafnsins á Reykjum 2. mars n.k. Til umfjöllunar verður staða og framtíðarsýn safnsins. Fundurinn er liður í stefnumótunarvinnu fyrir Héraðsnefnd Strandasýslu en þessar vikurnar er stjórnin að skoða hvort starfsemi Héraðsnefndar verði efld til muna eða hvort verkefnin verða færð til sveitarfélaganna og Héraðsnefnd lögð niður í núverandi mynd.
Í stjórn Héraðsnefndar Strandasýslu eru nú Jenný Jensdóttir framkvæmdastjóri nefndarinnar og oddviti Kaldrananeshrepps, Jón Gísli Jónsson oddviti Strandabyggðar, Jón Jónsson varaoddviti Strandabyggðar, Oddný Þórðardóttir oddviti Árneshrepps og Sigurður Kjartansson oddviti Bæjarhrepps. Næsti fundur Héraðsnefndar verður haldinn 7. mars n.k.
Áskorun til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Við Steingrímsfjörð starfa ríflega 20 útgerðir, tvö fyrirtæki í vinnslu á bolfiski og Fiskmarkaður. Um er að ræða útgerðir og fyrirtæki sem hafa á sínum snærum 1 - 10 launþega. Á landsmælikvarða má telja þetta tiltölulega lítil umsvif en sú staðreynd að ekki er hægt að róa vegna skorts á ýsukvóta er samfélögunum við Steingrímsfjörð þungbær.
Í bréfi frá hagsmunaaðilum kemur fram að mikil ýsugengd hafi verið í Húnaflóa undanfarin ár, nokkuð sem ekki þekktist á viðmiðunarárum kvótans.