A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Tillögur vegna úthlutunar byggðakvóta fiskveiðiárið 2010/2011

| 13. janúar 2011
Sveitarfélagið Strandabyggð leggur til eftirfarandi breytingu á 4. grein reglugerðar 999/2010, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa fiskveiðiárið 2010/2011:


- Helmingi úthlutaðs byggðakvóta verði skipt jafnt á milli fiskiskipa

- Helmingi úthlutaðs byggðakvóta verði skipt eftir lönduðum afla síðasta fiskveiðiárs, 2009/2010

 

Í bréfi ráðuneytis dags. 22. desember 2010 kemur fram að ráðuneytið leggur ríka áherslu á að byggðakvóta sé landað til vinnslu innan viðkomandi byggðarlags/sveitarfélags. Sveitarstjóri og oddvitar hafa fundað með Magnúsi Bragasyni fiskverkanda á Hólmavík sem lýsir yfir eindregnum vilja til að taka á móti aflanum til vinnslu. Sveitarstjórn fagnar eflingu fiskvinnslu í Strandabyggð.

 

Í bréfi ráðuneytisins kemur einnig fram að í reglum ráðuneytisins hefur verið fellt niður 15 tonna hámark á fiskiskip og að gerð er krafa um að ekki hafi verið flutt meira aflamark í þorskígildum talið á fiskveiðiárinu 2010/2011 frá viðkomandi fiskiskipum en flutt hefur verið til þeirra þegar afhending aflamarks á sér stað.

 

Fiskistofa annast úhlutun byggðakvótans til fiskiskipa á grundvelli þeirra reglna sem um það gilda.


Nýr félagsmálastjóri á Ströndum og Reykhólahreppi

| 13. janúar 2011
Hildur Jakobína Gísladóttir hefur verið ráðin félagsmálastjóri á Ströndum og Reykhólahreppi. Hildur er með sálfræðimenntun frá Háskólanum í Utrecht í Hollandi og Háskóla Íslands auk þess sem hún hefur Mastersgráðu í viðskiptastjórnun (MBA próf)  frá Háskólanum í Reykjavík. Þá hefur hún lokið diplomanámi í stjórnendamarkþjálfun eða Coaching frá Háskólanum í Reykjavík.

 

Hildur Jakobína hefur undanfarin ár gegnt starfi forstöðumanns Fjölskyldudeildar Félagsþjónustunnar í Kópavogi en áður starfaði hún m.a. sem ráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hildur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum m.a. á vegum Kópavogsbæjar. Hildur Jakobína er einnig stofnandi og ráðgjafi samtakanna ,,Litlir englar" sem eru samtök  fyrir fólk sem misst hefur börn sín í móðurkviði eða rétt eftir fæðingu og þeirra sem binda þurfa endi á meðgöngu vegna alvarlegs litningargalla.

Hildur mun hefja störf á næstunni og er hún boðin velkomin til starfa.

Skrifstofa Strandabyggðar flytur

| 13. janúar 2011
Á sveitarstjórnarfundi i gær, miðvikudaginn 12. janúar 2011, var samþykkt tillaga um flutning á skrifstofu Strandabyggðar í húsnæði Þróunarsetursins á Hólmavík að Höfðagötu 3, en það hús er í eigu sveitarfélagsins. Þegar leitað var eftir hugmyndum frá íbúum í haust um hagræðingu og sparnað í sveitarfélaginu komu fram tillögur um að flytja skrifstofuna frá Hafnarbraut 19 og nýta húsnæðið þar fyrir íbúð eins og áður var gert. Með þeim hætti gæti sveitarfélagið komið til móts við brýna húsnæðisþörf á Hólmavík og fengið jafnframt inn leigutekjur. Þá hefur slæmt aðgengi fatlaðra að skrifstofu Sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19 mætt harðri gagnrýni. Skrifstofa Strandabyggðar verður staðsett á annarri hæð Þróunarsetursins og er aðgengi fatlaðra þar einnig ófullnægjandi. Sveitarstjórn sér möguleika á að bæta aðgengi í þvi húsnæði og verður það gert eins fljótt og auðið er.

Stefnt er að því að flutningarnir fari fram fyrir 1. febrúar n.k. og að húsnæðið að Hafnarbraut 19 verði tilbúið til útleigu á þeim tíma. Vonast er til að flutningarnir valdi sem minnstri röskun á þjónustu skrifstofunnar en viðbúið er að hún verði einhver.

 

Auglýst eftir íbúðarhúsnæði

| 12. janúar 2011

Nýráðið starfsfólk hjá sveitarfélaginu Strandabyggð leitar eftir íbúðarhúsnæði á Hólmavík. Um tvær fjölskyldur er að ræða sem flytja til Hólmavíkur á næstu vikum og mánuðum. Tímabundið húsnæði til leigu kemur einnig til greina. Allar ábendingar má senda í netfangið holmavik@holmavik.is  eða hafa samband við skrifstofu Strandabyggðar í síma 451-3510.

Erindakerfi tekið í notkun í Strandabyggð

| 11. janúar 2011
Sveitarfélagið Strandabyggð tekur nú í janúar í notkun erindakerfið One Systems. Með kerfinu er á markvissan hátt unnt að halda utan um öll þau fjölmörgu erindi sem berast til sveitarfélagsins, afgreiðslu þeirra og vinnslu.  Kerfið auðveldar og sparar tíma við undirbúning og eftirvinnslu funda og heldur utan um þjónustu og verkbókhald í nýrri félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps. Þá hjálpar kerfið sveitarfélaginu að uppfylla ýtrustu kröfur um upplýsinga- og gagnaöryggi. Með innleiðingu á kerfinu er horft til reynslu fjölmargra sveitarfélaga sem nota One Systems, m.a. nágrannasveitarfélaganna Súðavíkurhrepps og Reykhólahrepps.

Í byrjun árs voru helstu tölvukerfi sveitarfélagsins Strandabyggðar færð frá skrifstofu sveitarfélagsins til hýsingar hjá fyrirtækinu Tölvumiðlun. Með þessum hætti er unnt að tryggja öryggi mikilvægra gagna og spara endurnýjun á dýrum tölvubúnaði á skrifstofu Strandabyggðar. Þá auðveldar hýsingin aðgengi starfsmanna sveitarfélagsins að ákveðnum kerfum sem felur í sér vinnusparnað. Með færslu á hýsingu opnast einnig möguleikar á frekari breytingum og hagræðingu í tölvumálum sveitarfélagsins í framtíðinni.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón