A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Gott samfélag gulli betra - opinn fræðslufundur um einelti

| 16. október 2010

Þriðjudaginn 19. október mun Guðjón Ólafsson, sérkennslufræðingur og fræðslustjóri Austur-Húnvetninga, fjalla um einelti og mikilvægi uppbyggilegra samskipta á opnum fræðslufundi í Félagsheimilinu á Hólmavík. Strandabyggð stendur fyrir fundinum sem hefst klukkan 18:00. Frábært tækifæri til að byggja upp enn betra og blómlegra samfélag - mætum öll!

Óskað eftir tillögum frá íbúum um tjaldsvæðið á Hólmavík

| 22. september 2010

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur ákveðið að leita eftir ábendingum og tillögum frá íbúum um hvernig bæta megi aðstöðu við tjaldsvæðið á Hólmavík. Svæðið sem er á skjólsælum stað, rétt við sundlaugina og félagsheimilið á Hólmavík, er afar vinsælt og sló aðsókn að því öll met síðastliðið sumar. Fjöldi gesta hafði þá viðdvöl og var svæðið fullsetið allmarga daga og voru tjöld, vagnar og húsbílar einnig á íþróttavelli innan við svæðið og á grasbala neðan við félagsheimilið. Íbúar eru hvattir til að senda hugmyndir um úrbætur, aðstöðu og afþreyingu, jafnt stórar og smáar, á netfangið holmavik@holmavik.is, merktar "Tjaldsvæði" í síðasta lagi föstudaginn 8. október eða skila þeim á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 19, 510 Hólmavík. Frumlegar hugmyndir sem skapað gætu tjaldsvæðinu samkeppnisforskot umfram önnur slík eru sérlega vel þegnar.

Aflabrögð báta 2009-2010

Sigurður Þorvaldsson | 14. september 2010
Í nýafstöðnu kvótaári 2009-2010 voru aflabrögð báta sem réru með landbeitta línu frá Hólmavík eftirfarandi:

Hlökk ST 66                        landaði 473.351 kg í 111 veiðiferðum.
Guðmundur Jóns ST 17       landaði 149.586 kg í 37 veiðiferðum.
Hafbjörg ST 77                   landaði  77.625 kg í 29 veiðiferðum.
Hilmir ST 1                         landaði  69.049 kg í 24 veiðiferðum.
Kópnes ST 64                     landaði 66.393 kg í 25 veiðiferðum.
Straumur ST 65                 landaði 62.842 kg í 44 veiðiferðum.

og að auki réru eftirfarandi bátar með handfæri:

Hafbjörg ST 77                   landaði 22.354 kg í  8 veiðiferðum.
Hilmir ST 1                         landaði 13.506 kg í 21 veiðiferð.
Kópnes ST 64                     landaði 10.717 kg í 11 veiðiferðum.
Ólafur Jóhanns ST 45        landaði   5.423 kg í 15 veiðiferðum.
Ólafur ST 52                      landaði  15.198 kg í 24 veiðiferðum.
Rut ST 50                          landaði    8.192 kg í 24 veiðiferðum.

Sigurður Þorvaldsson

Starf í boði: Staða fulltrúa á skrifstofu Strandabyggðar

| 02. september 2010

Laus er til umsóknar staða fulltrúa á skrifstofu Strandabyggðar. Um er að ræða 50% starf og möguleiki er á sveigjanlegum vinnutíma. Starfið snýst að mestu um almenn skrifstofustörf, bréfaskriftir og textagerð. Starfsmaður ber einnig ábyrgð á fjárhagsupplýsingum eða fjármunum, sér um greiðslu og innheimtu reikninga, sinnir bókhaldi og launafærslum.


Hæfniskröfur:

Hæfni í mannlegum samskiptum

Rík þjónustulund, kurteisi og glaðlegt viðmót

Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæð vinnubrögð

Almenn tölvukunnátta

Reynsla af bókhalds- og skrifstofustörfum æskileg

 
Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf sem fyrst og er umsóknarfrestur til og með 13. september nk. Umsækjendum er bent á að vanda umsóknir. Þar þurfa að koma fram allar grunnupplýsingar um umsækjanda, starfsferill, menntun og meðmælendur.


Umsóknum skal skilað til:
Skrifstofu Strandabyggðar
Hafnarbraut 19
510 Hólmavík


Frekari upplýsingar um starfið veitir Salbjörg Engilbertsdóttir, sími: 451 3510 og netfang: holmavik@holmavik.is.

 

Ert þú með ábendingu um umferðaröryggi á Hólmavík?

| 02. september 2010
Á Kópnesbraut - mynd: Sögusmiðjan
Á Kópnesbraut - mynd: Sögusmiðjan

Nú er framundan vinna hjá Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefnd Strandabyggðar við að endurskoða umferðarsamþykkt fyrir Hólmavík. Í henni er kveðið á um ýmis mál sem snúa að umferð og umferðaröryggi, svo sem hvar gangbrautir eiga að vera staðsettar. Einnig er þar rætt um hraðahindranir og hámarkshraða, hvar biðskylda eða stöðvunarskylda sé, hvar megi leggja stórum bílum og fleira í þessum dúr. Vegna þessarar vinnu óskar sveitarstjórn Strandabyggðar eftir ábendingum, tillögum og hugmyndum, frá íbúum um öll þessi mál og skal senda tillögur á holmavik@holmavik.is eða skila þeim á skrifstofu Strandabyggar að Hafnarbraut 19, 510 Hólmavík í síðasta lagi 15. september næstkomandi.

Gjarnan mega fylgja hugleiðingar og vangaveltur fólks um hálkuvarnir og snjómokstur, því einnig er fyrirhugað að samþykkja vinnureglur um þau mál fyrir veturinn.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón