A A A

Valmynd

Fréttir

Sundhani siglir á Hamingjudögum

| 19. júní 2012
Sundhani á siglingu - ljósm. Jón Jónsson
Sundhani á siglingu - ljósm. Jón Jónsson

Eins og í fyrra verður hægt að kíkja í siglingu og sjóstöng á Hamingjudögum. Sundhani ST-2, undir styrkri stjórn Ásbjörns Magnússonar, mun sigla með hátíðargesti Hamingjudaga frá bryggjunni á Hólmavík laugardaginn 30. júní kl. 13:00, 15:00 eða 17:00 ef næg þátttaka fæst.

Eins og hálfs tíma sigling kostar kr. 3.000.- fyrir fullorðinn, kr. 1.500.- fyrir 7-12 ára og ókeypis er fyrir 6 ára og yngri. Panta verður í ferðirnar fyrir kl. 11:00 laugardaginn 30. júní. Lágmarksfjöldi í hverja ferð eru sex farþegar (ferð fellur niður ef lágmarksfjöldi næst ekki). Pöntunarsímar eru 451-3237 eða 896-0337. Kondútaðsigla!

 

Vilt þú koma fram á Hamingjutónum?

| 17. júní 2012
Pollapönk á sviðinu í fyrra - ljósm. HG
Pollapönk á sviðinu í fyrra - ljósm. HG
Eins og venjulega eru öll framlög heimamanna til skemmtidagskrár Hamingjudaga sérstaklega vel þegin. Ýmis tækifæri eru til að koma fram, en sérstaklega ber þó að nefna Hamingjutóna sem fara fram laugardagskvöldið 30. júní. 

Þeir sem vilja vera með atriði eru hvattir til að láta vita af því sem allra fyrst í síma 8-941-941 eða í tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

Auglýst eftir tilnefningum til Menningarverðlauna

| 15. júní 2012
Tómstunda-, íþrótta- og menningarmálanefnd Strandabyggðar auglýsir eftir tilnefningum til Menningarverðlauna Strandabyggðar, en þau verða veitt á Hamingjudögum. Þetta er í þriðja skiptið sem verðlaunin og verðlaunagripurinn Lóan verða veitt, en áður hafa Grunnskólinn á Hólmavík og Þjóðfræðistofa á Ströndum hlotið þau.

 

Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklings, félags, stofnunar, fyrirtækis eða hóps fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar í sveitarfélaginu á liðnu ári.

Tilnefningum má skila á skrifstofu Strandabyggðar eða á netfangið skrifstofa@strandabyggd.is til miðnættis föstudaginn 22. júní. Tómstunda-, íþrótta- og menningarmálanefnd skipar dómnefnd sem velur úr innsendum tillögum. 

 

KK með tónleika á Klifstúni

| 14. júní 2012
KK tilbúinn með gítarinn!
KK tilbúinn með gítarinn!
Við erum afar stolt af því að upplýsa að hinn frábæri trúbador Kristján Kristjánsson - KK - mun spila og syngja fyrir alla gesti Hamingjudaga á Klifstúni (túnið fyrir neðan kirkjuna á Hólmavík) föstudagskvöldið 29. júní. Enginn aðgangseyrir er að viðburðinum, en KK mun flytja sín bestu lög í bland við brekkusöngsslagara sem allir viðstaddir geta sungið með í. 

KK mun byrja að spila um korter í tíu á föstudagskvöldinu - þá geta allir gestir sem mæta á hina ótrúlegu töfrasýningu með Ingó Geirdal fyrr um kvöldið rölt í rólegheitum niður í bæ til að ná stemmningunni. Til hamingju!

GoKart alla helgina á Hamingjudögum

| 14. júní 2012
Það leiðist engum í GoKart!
Það leiðist engum í GoKart!
Búið er að semja við GoKart brautina um að koma á Hamingjudaga! GoKart brautin er öllu jöfnu staðsett í Garðabæ og heldur þar úti afbragðs akstursbraut, en nú verður sett upp braut innanbæjar á Hólmavík og allir gestir Hamingjudaga munu því geta tekið í körtu frá föstudagskvöldi til sunnudags. Það er ótrúlega gaman - skemmtileg afþreying fyrir fólk á öllum aldri!

Fræðast má nánar um GoKart brautina á vefnum www.gokart.is.

Fleiri góðir styrktaraðilar Hamingjudaga

| 12. júní 2012
Enn bætist í hinn góða hóp stofnana, félaga og fyrirtækja sem styðja við bakið á Hamingjudögum á Hólmavík. Nýjustu styrktaraðilarnir eru Verkalýðsfélag Vestfirðinga sem styður hátíðina um kr. 50.000.- og Fiskmarkaðurinn á Hólmavík sem leggur til húsnæði sitt við höfnina á Hólmavík eins og undanfarin ár. Þessum aðilum er innilega þakkað fyrir stuðninginn - hann er mikilvægur og mun gera hátíðina betri!

Styrktaraðila Hamingjudaga árið 2012 má sjá með því að smella hér.

Tímatafla Hamingjuhlaupsins tilbúin

| 31. maí 2012
Nú er mál að taka fram hlaupaskóna og athuga með gallann að ógleymdri sólarvörninni og góða skapinu. Tímataflan fyrir Hamingjuhlaupið 2012 sem fer fram þann 30. júní er nefnilega tilbúin. Hlaupið hefst stundvíslega kl. 12:50 við Minja- og handverkshúsið Kört við Árnes í Trékyllisvík, öðrum þræði til heiðurs sveitarstjóra Strandabyggðar, Ingibjörgu Valgeirsdóttur, og lýkur um kl. 20:20 við hátíðarsvæðið á Hólmavík. Hlaupið í heild sinni er um 53 km og tekur rúmar 7 klukkustundir.

Hægt er að nálgast PDF-útgáfu af skjalinu til útprentunar með því að smella hér.



Þeir sem treysta sér frekar í styttri vegalengdir geta vitaskuld byrjað á fyrirfram ákveðnum áningarstöðum í hlaupinu - eða annars staðar ef því er að skipta - það er í góðu lagi að byrja að hlaupa 100 metra frá rásmarkinu. Hamingjuhlaupið snýst um að hver og einn hleypur samkvæmt eigin getu í þeim tilgangi að auka hamingjustuðul sinn. Að vanda er það Stefán Gíslason Gíslasonar á Gröf í Bitrufirði sem stendur fyrir hlaupinu, en þetta er fjórða árið í röð sem formlegt Hamingjuhlaup fer fram. 

Fyrirspurnum varðandi hlaupið má beina til Stefáns í netfangið stefan[hjá]environice.is. 

Vilt þú vera með sölubás á Hamingjudögum?

| 29. maí 2012
Jón Víðis baukar við blöðrugerð á Hamingjudögum 2011 - ljósm. strandir.is
Jón Víðis baukar við blöðrugerð á Hamingjudögum 2011 - ljósm. strandir.is
Eins og undanfarin ár býðst áhugasömum aðilum að selja varning á sölubásum á Hamingjudögum laugardaginn 30. júní frá kl. 13:00-17:00. Hverjum bás fylgir eitt borð og aðgangur að aukaborði og rafmagni ef með þarf. Sölubásarnir verða staðsettir í Fiskmarkaðnum við höfnina, en ef menn vilja frekar sitja úti í góða veðrinu er það að sjálfsögðu velkomið. 


Nú þegar hafa fimm aðilar skráð sig með sölubás, en einungis einn úr heimahéraði. Söluaðilar á Ströndum eru eindregið hvattir til að láta vita af sér tímanlega til að missa ekki af lestinni. Tekið er við skráningum á sölubása til mánudagsins 18. júní. Vinsamlegast látið vita sem allra fyrst í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða í s. 8-941-941.

Mögnuð töfrasýning með Ingó á föstudagskvöldinu

| 25. maí 2012
Ingó verður með sýningu á Hamingjudögum
Ingó verður með sýningu á Hamingjudögum
Einn af hápunktum Hamingjudaga 2012 verður í Félagsheimilinu á Hólmavík föstudagskvöldið 29. júní. Þar mun Ingó Geirdal töframaður vera með magnaða töfrasýningu fyrir alla fjölskylduna. Skemmtunin hefst kl. 20:00. Ingó er einn allra magnaðasti töframaður heims og hefur sýnt sín ótrúlegu töfrabrögð á fjölda skemmtana og í sjónvarpsþáttum í Evrópu og Asíu, auk þess að skemmta á skemmtiferðaskipum og í einkaboðum m.a. hjá Depeche Mode og Alice Cooper.


Á sýningunni, sem tekur um eina og hálfa klukkustund, mun Ingó bjóða upp á mögnuð töfrabrögð, hugsanalestur og sjónhverfingar á heimsmælikvarða, í töfrasýningu sem rokkar.

Þessu má enginn missa af. Miðaverð er aðeins kr. 1.500.- fyrir 6 ára og eldri en ókeypis er fyrir yngri áhorfendur.

Hér má sjá örlítið sýnishorn af þessum ótrúlega töframanni. 

Arion banki styður við Hamingjudaga

| 24. maí 2012
Þær gleðifregnir hafa borist að Arion banki hefur ákveðið að styðja við Hamingjudaga í formi fjárstyrks að upphæð kr. 50.000.- Hann bætist þar með í hóp annarra öflugra fyrirtækja sem styðja við hátíðina og gera okkur kleift að hafa hana öfluga og flotta með skemmtilega dagskrá fyrir alla aldurshópa! Kærar þakkir fyrir það!

Styrktaraðila Hamingjudaga árið 2012 má sjá með því að smella hér.
Eldri færslur

Facebook

Hamingjumyndir

Örstutt áning neðan við Hnitbjörg í Steingrímsfirði. Tæpir 4 km eftir.

(Ljósm. og © Stefán Gíslason).
Vefumsjón