Kassabílarallý í brakandi sól og blíđu
Hamingjudagar óska öllum sem kepptu innilega til hamingju!
Sveitarstjórnarfundur 1185 var haldinn á Klifstúni í kvöld. Fundurinn var hátíðarfundur í tilefni af Hamingjudögum og voru þrjú mál á dagskrá: Hamingjusamþykkt Strandabyggðar, götuheiti á Hólmavík og heiðursborgarar í Strandabyggð. Er það mál manna að þetta hafi verið fjölmennasti sveitarstjórnarfundur sem haldinn hefur verið í manna minnum í Strandabyggð en sveitarstjórnarfundir eru opnir öllum sem á þá vilja hlýða.
Hamingjusamþykkt var samþykkt einróma fyrir sveitarfélagið Strandabyggð, götuheitinu Norðurtún var breytt í Jakobínutún til heiðurs Jakobínu Thorarensen og götuheitinu Fiskislóð breytt í Skjaldbökuslóð sem er tilvitnun í hinn merka skjaldbökufund árið 1963. Ólafía Jónsdóttir og Sverrir Guðbrandsson fengu útnefninguna heiðursborgarar Strandabyggðar og eru vel að því komin.
Ásdís Olsen leiddi gesti ljúflega inn í núvitund fyrir utan Félagsheimilið á Hólmavík á fimmtudagskvöldið. Veðurblíða var með eindæmum og götugrill í hverfum Hólmavíkur settu svip á bæinn þetta sama kvöld. Ásdís leggur í störfum sínum áherslu á jákvæða sálfræði og mikilvægi þess að við séum meðvituð um að staldra við í áreiti hversdagsins og upplifa líðandi stundu. Þátttaka í vinnustofu Ásdísar á Hamingjudögum var ágæt og þeir sem mættu fengu mikið út úr smiðjunum og þeim aðferðum sem þar voru kynntar. Við þökkum Ásdísi innilega fyrir hennar góða framlag til hátíðarinnar árið 2011!
Hamingjutónar hljómuðu um Heilbrigðisstofnunina á Hólmavík sl. fimmtudag þegar tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sló þar á fallega strengi fyrir heimilisfólk. Svavar Knútur fékk hlýjar móttökur og var þetta ógleymanleg stund fyrir þá sem voru viðstaddir. Tónlistarmaðurinn kom færandi hendi og færði heimilisfólkinu að gjöf geisladisk sinn sem ber nafnið Amma. Sama kvöld hélt hann vel sótta tónleika fyrir gesti í Hólmavíkurkirkju þar sem allar ömmur fengu frítt inn, en um 60 manns mættu á atburðinn. Við þökkum Svavari innilega fyrir hans framlag til Hamingjudaga og óskum honum velfarnaðar og hamingju!