A A A

Valmynd

Fréttir

Söfnun fyrir ærslabelg

| 27. júní 2018
Áskorun hefur borist sveitarstjórn og tómstundafulltrúa að fjármagna í ærslabelg fyrir sveitarfélagið Strandabyggð. Þessari áskorun verður svarað með ósk til íbúa að aðstoða við fjármögnun á slíkum belg. Á Hamingjudögum ætlum við að ryðja af stað söfnun fyrir ærslabelg. Söfnunin verður í formi rjómatertukasts. Á Galdratúninu kl.15:45 mun sveitarstjórn leyfa gestum að kasta í sig rjómatertu ef greitt er fyrir rjómatertuna og kastið. Það verður uppboð á hverri tertu og kasti fyrir sig og lágmarks gjald er 1.000 kr. Allir geta tekið þátt í rjómatertukastinu og hjálpað okkur að safna með því að skrá sig hér. Höfum gaman saman, hlæjum og fíflumst og í leiðinni söfnum fyrir ærslabelg.

Hnallþórukeppni

| 27. júní 2018

Hnallþóruhlaðborðið er hápunkturinn og einn af stærstu viðburðum Hamingjudaga ár hvert.
Íbúar Strandabyggðar bjóða gestum hátíðarinnar upp á glæsilegar hnallþórur á Galdratúninu.
Við hvetjum alla þá sem mögulega hafa tök á að baka köku að gera það og mæta með hana á hlaðborðið til að tryggja að allir fái eitthvað að smakka! Án ykkar frábæra framtaks yrði þessi viðburður ekki að veruleika, takk kærlega fyrir :)
Mikilvægt er að fólk komi með terturnar í Hnyðju milli kl. 13:00 og 14:00 á laugardeginum 30. júní með vel merkta hnífa, spaða og diska svo ekkert glatist nú!

Vegleg verðlaun eru í boði fyrir flottustu hnallþórurnar og í ár munu vera sérstök verðlaun fyrir börn sem mæta með hnallþóru. Vinningarnir eru stórglæsilegir en þeir koma frá bókaútgáfunni Salka, JGR umboðs- og heildverslun, KSH, Sauðfjársetrinu Sævangi og Náttúrubarnaskólanum.
Verðlaunin verða veitt kl.14:45.

Hamingjuhlauparar mæta svo í mark kl.15:00 og ganga svo fyrstir að kökuhlaðborðinu.
Gunnar Jóhannsson, Gunnlaugur Bjarnason og Guðmundur Jóhannsson ætla svo að stíga á stokk og spila nokkur vel valin lög fyrir okkur.

Blaðrarinn

| 27. júní 2018
Blaðrarinn er hópur sem gerir allskonar skemmtilegt úr blöðrum. Hópurinn mætir á Hamingjudaga og skemmtir börnum og öðrum gestum.

Vöfflur í boði Hólmadrangs

| 27. júní 2018
Það sem gefur hátíðinni okkar lit og gleði er þátttaka fyrirtækja. Fyrirtækið Hólmadrangur og starfsfólk þess eru virkir þátttakendur í hátíðinni og undirbúningi fyrir hátíðina. Laugardaginn 30.júní kl.13:00-15:00 mun Hólmadrangur bjóða upp á vöfflur fyrir utan Hólmadrang, allir velkomnir.

Ganga með Félagi eldriborgara

| 27. júní 2018

Félag eldri borgara stendur fyrir gönguferð fyrir alla laugardaginn 30.júní kl.10:00. Gengið verður frá N1 merkinu á kaupfélagslóðinni og munu Jón Eðvald og Aðalheiður Ragnarsdóttir stýra göngunni. Ferðinni er heitið að nýrri göngubrú yfir Hvítá þar sem brúin verður vígð formlega. Göngunni verður svo haldið áfram um Skeljavík.

30 ára afmælissýning leikskólans Lækjarbrekku

| 26. júní 2018

 Í tilefni af 30 ára afmæli leikskólans Lækjarbrekku og nýrri viðbyggingu var boðað til fögnuðar þann 9. febrúar 2018 í húsnæði leikskólans. Hægt var að skoða leikskólann, ljósmyndir og gullkorn liðins tíma og listaverk núverandi nemenda.   

Þessi fögnuður vakti mikla lukku og ætlum við því að endurtaka leikinn á Hamingjudögum. Laugardaginn 30.júní kl.13-16 verður leikskólinn Lækjarbrekka með opið hús þar sem hægt verður að skoða ljósmyndir og listaverk nemenda. Í Íþróttamiðstöð Hólmavíkur verður hægt að skoða listasýningu frá líðandi skólaári og svo munu gullkorn frá nemendum leikskólans hanga á ljósastaurum á hátíðarsvæðinu.

Zumba á Hamingjudögum

| 26. júní 2018

Kristbjörg Ágústsdóttir er orðin fastagestur í Íþróttamiðstöð Hólmavíkur og gerir marga íbúa Strandabyggðar mjög hamingjusama með reglulegri komu sinni. Kristbjörg er zumbakennari og ætlar ekki að láta sig vanta á Hamingjudaga 2018. Boðið verður upp á Aqua Zumba í sundlauginni og í ár verður einnig í boði Krakka Zumba sem verður í íþróttasalnum. Allir geta takið þátt í Zumba og notið sín í dansi og skemmtilegri tónlist.

Zumba er líkamsrækt, þar sem blandað er saman þolfimi og dansi. Sérstök áhersla er lögð á suður amerísk dansspor eins og salsa, merengue, reggateon, cumbia og samba en einnig spor frá alþjóðlegum dönsum eins og flamenco, bollywood og country. Hugmyndafræðin gengur út á það að nota skemmtilega tónlist og blanda saman hægum og hröðum takti við dansspor sem auðvelt er að fylgja eftir og þolfimi til að fá út líkamsrækt sem bæði reynir á þol og mótar líkamann. Hver tími er sannkallað partý sem bætir bæði andlega og líkamlega líðan. Zumba er skemmtileg æfingaformúla sem kemur hverjum manni og konu í gott skap. Allir geta verið með og því er um að gera að njóta tónlistarinnar, hreyfa sig og brosa. Zumba er fyrst og fremst skemmtun en einnig líkamsrækt í dulargerfi.

 

Aqua Zumba eða Zumba sundlaugarpartý byggir á sömu hugmyndafræði þar sem notuð er skemmtileg tónlist og blandað er saman hefðbundinni vatnsleikfimi og danssporum. Dansað er í djúpri laug og veitir vatnið aukna mótspyrnu auk þess sem það hentar til dæmis fólki sem ekki getur eða vill hoppa. Aqua Zumba er því örugg en krefjandi líkamsrækt í vatni sem reynir á þol og er líkamsmótandi en síðast en ekki síst ótrúlega hressandi. Það er alveg pottþétt mikill gusugangur  í sundlauginni þegar Aqua Zumba tími er.

 

Kristbjörg Ágústsdóttir er alþjóðlegur Zumba fitness kennari með réttindin til að kenna m.a. Aqua Zumba, Zumba kid's og Strong by zumba. Hún kynntist Zumba í Bandaríkjunum sumarið 2010 og féll alveg fyrir því. Í mars 2012 tók hún Zumba fitness réttindin og hefur síðan m.a. kennt Zumba og Zumba kids en síðustu ár hefur hún lagt áherslu á Aqua Zumba sem hefur notið gríðarlegra vinsælda. Nánari upplýsingar er að finna á www.kristbjorga.zumba.com

Tónleikar í Steinshúsi

| 26. júní 2018
Árið 2017 hlaut Steinshús Menningarverðlaunin fyrir eftirtektarvert menningarframtak í sveitarfélaginu. Steinshús hefur unnið ötullega að uppbyggingu gamla samkomuhússins á Nauteyri frá árinu 2008 og hefur nú breytt því í safn og fræðimannasetur til minningar um skáldið Stein Steinarr sem fæddist í Skjaldfannardal 1908. Bæði sýning og fræðimannasetur er gert af myndugleik og sveitarfélaginu til sóma, auk þess að halda á lofti merkum heimildum um eitt ástæslasta skáld þjóðarinnar.

Steinshús ætla nú að auðga Hamingjudaga með menningu með tónleikum fimmtudaginn 28.júní og föstudaginn 29.júní kl.20. Það verða sagðar sögur og spiluð tónlist við hæfi. Rúnar Þór, Tryggvi Hübner og Örn Jónsson koma fram.

Dagskrá á Café Riis

| 26. júní 2018
« 1 af 3 »

Café Riis hefur ávallt verið virkur þátttakendi í Hamingjudögum og er árið í ár engin undantekning.


HAMINGJUDAGAR Á CAFÉ RIIS

Föstudaginn 29.júni

18:00-21:00 Hlaðborð, borðpantanir í síma 451-3567
22:00 Pub quiz með Pétri Jesús fyrir 18 ára og eldri, 1.000 kr inn
23:00 Dansleikur með hljómsveitinni Króm fyrir 18 ára og eldri, kr inn

Laugardagurinn 30.júní
18:00-21:00 Hlaðborð, borðpantanir í síma 451-3567
21:00 Tónleikar með Bjartmari Guðlaugssyni fyrir 18 ára og eldri, 1.500 kr inn
23:00 Dansleikur með hljómsveitinni Króm fyrir 18 ára og eldri, kr inn

Sunnudagurinn 1.júlí
11:30-14:00 Morgunverðarhlaðborð, borðpantanir í síma 451-3567

Hamingjugrill gula hverfisins

| 26. júní 2018
Að horfa á Ísland spila í HM veitir einstaklingum í gula hverfinu hamingju og ætla þeir því að horfa á leikinn saman á Sævangi. Gula hverfið ætlar svo að taka forskot á sæluna og hita upp fyrir helgina með hverfagrilli strax eftir leikinn.
Góða skemmtun!
Eldri færslur

Facebook

Hamingjumyndir

Andrea Jónsdóttir
Vefumsjón