A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Áramótakveðja

Þorgeir Pálsson | 31. desember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Það er þetta ár á enda.  Sannarlega viðburðarríkt ár þar sem reynt hefur verulega á samtakamátt og samstöðu okkar, ekki bara innan sveitarstjórnar, heldur í samfélaginu öllu.  Við höfum fengið stór og erfið mál í fangið, en engu að síður höfum við náð utan um verkefnin.  Nægir að nefna uppbyggingu grunnskólans og lokun Hólmadrangs.  Áhrif seinna málsins eru þó ekki öll komin fram, enda mikið högg fyrir samfélagið.

 

Hvað grunnskólann varðar, þá gengur sú uppbygging vel og ekkert stórvægilegt hefur komið upp.  Vonandi náum við að flytja inn í yngri hluta skólans, fljótlega á nýju ári.  Næsta sumar verður síðan ráðist í endurhönnun leikskólalóðarinnar, sem mun gerbreyta aðstöðu og öryggi leikskólabarna.

 

Framtíðin er þó sem fyrr að mestu óljós.  Okkur hefur samt tekist að hafa viss áhrif á hana, með því að sækja í ný atvinnutækifæri og almenna uppbyggingu samfélagsins.  Gert er ráð fyrir að síðla næsta árs hefjist framkvæmdir við nýtt hótel á Hólmavík og næsta sumar má reikna með að nýtt raðhús rísi í Víkurtúni.  Sú framkvæmt tafðist þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þurfti að skipta um verktaka.  Engin breyting er að öðru leyti um þessi byggingaráform. Unnið er að frágangi endurgerðar á aðalskipulagi Strandabyggðar og þar er m.a. reiknað með íbúðarbyggð í Brandskjólum, sem og þjónustukjarna fyrir aldraða, ásamt nýjum iðnaðarlóðum.  Þá eru væntingar um heitt vatn í sveitarfélaginu með tilheyrandi atvinnutækifærum, sem og aukin raforkuframleiðsla.  

 

Allt eru þetta eðlileg áform samfélags sem þarf og vill uppgang.  Auknar tekjur eru okkar eina leið til eflingar sveitarfélagsins.  Það koma engar töfralausnir, enginn bjargvættur eða einskiptis lausn.  Við verðum að finna lausnina sjálf.  Við verðum að ákveða hvernig samfélag við viljum í Strandabyggð og vinna síðan markvisst og samstíga að því að raungera þá mynd.  Það gerir það enginn fyrir okkur.

 

Mikið er rætt um sameiningar sveitarfélaga sem vissa lausn.  Og það er vissulega rétt að með sameiningu fæst opinbert fjármagn til skuldajöfnunar og innviðauppbygginar, sem getur sannarlega hjálpað í vissan tíma.  En, það sem ekki fæst með sameiningu, eru þær forsendur sem framtíð sveitarfélagsins þarf að byggja á.  Sameinignarfjármagnið klárast og þá eru eftir sömu tekjuliðir og áður, sömu gjaldaliðir, nánast sama fámennið og sama innviðaskuldin, sjálfsagt eitthvað lægri.  Sameining sameiningarinnar vegna er því ekki lausnin.  Það er ekkert betra að berjast í bökkum í eitt til tvö þúsund manna samfélagi eða nokkur hundruð manna samfélagi. 

 

Spurningar okkar til stjórnvalda eru stórar og hafa legið á borðum stjórnvalda lengi.  Hvernig á landsbyggðin að lifa af, eflast og stækka?  Hvernig á að fá fagfólk út á land til kennslu?  Hvernig á að efla ferðaþjónustu ef ekki koma til nauðsynlegar vegaframkvæmdir?  Hvernig á að tryggja öryggi þeirra sem vilja búa úti á landi, ef vetrarþjónusta á vegum, fjarskiptamál og heilbrigðisþjónusta er ekki í samræmi við þarfir íbúa?  Við förum með þessar spurningar inn í nýtt ár, enn eitt árið.  Og við erum vön því.

 

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þrátt fyrir þessar stóru, þekktu spurningar, verðum við engu að síður að horfa jákvæð til nýs árs.  Þar eru ný tækifæri.  Allt næsta ár verðum við t.d. þátttakendur í Sterkum Ströndum og þar gefst íbúum tækifæri til að koma fram með nýjar viðskiptahugmyndir, viðra áform sín og hugmyndir  Ferðaþjónusta í Strandabyggð er okkar helsti vaxtarbroddur og með tilkomu nýs hótels, opnast ný tækifæri fyrir íbúa.  Okkur mun vanta leiðsögumenn, ferðaskipuleggjendur, meiri afþreyingu, fleiri valkosti o.sfrv.   Allt þetta getum við sótt okkur og gert að okkar.  Það þarf hins vegar þor og áræðni. Við ættum að einsetja okkur að koma nýjum tækifærum í framkvæmd á nýju ári.  Efla samvinnu og samstöðu.  Þannig náum við okkar markmiðum.

 

Megi nýtt ár verða okkur öllum gæfuríkt og einnig gleðilegt.  Það kostar mann litlu meira að horfa jákvætt fram á við, en að vera neikvæður.  En það skilar meiru til samfélagsins.

 

Gleðilegt Nýtt Ár!

Þorgeir Pálsson

Oddviti.

 

 

Laus staða á Leikskólanum Lækjarbrekku

Salbjörg Engilbertsdóttir | 28. desember 2023

Staða leikskólakennara

Staða leikskólakennara, almennt starf á deild. Starfshlutfall er 100% og vinnutíminn frá 8:00-16:00. Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.


Leikskólinn Lækjarbrekka 
tilheyrir sameinuðum leik-, grunn- og tónskóla í Strandabyggð og starfar samkvæmt lögum og reglugerðum um grunnskóla og leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá grunnskóla og stefnu skólans.

Uppeldisstefnan er jákvæður agi, skólinn er grænfánaskóli og unnið er að innleiðingu stefnu um heilsueflandi skóla.


Menntunar og hæfniskröfur:

• Kennaramenntun, leyfisbréf og hæfni til kennslu í viðeigandi skólagerð

• Góð íslenskukunnátta

• Áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum

• Jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji

• Lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum

• Frumkvæði, sjálfstæði og sveigjanleiki í vinnubrögðum

• Reglusemi og samviskusemi

• Hreint sakavottorð


Laun 
eru samkvæmt samningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Ef enginn kennaramenntaður sækir um verður staðan boðin ófaglærðum.


Umsóknarfrestur
 er til miðnættis 4. janúar 2024

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri gefur upplýsingar um starfið og tekur á móti umsóknum ásamt ferilskrá, afriti leyfisbréfa og upplýsingum um meðmælendur netfang: skolastjori@strandabyggd.is

Sveitarstjórnarfundur 1355 í Strandabyggð Aukafundur

Salbjörg Engilbertsdóttir | 27. desember 2023

 

Fundur nr. 1355 í sveitarstjórn Strandabyggðar, sem er aukafundur verður haldinn föstudaginn 29. desember kl. 12.30 á skrifstofu sveitarfélagsins Hafnarbraut 25, Hólmavík.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

 

  1. Hækkun útsvars í samræmi við lög um hámarksútsvar sveitarfélaga.

 

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

 

Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir

Óskar Hafsteinn Halldórsson

Grettir Örn Ásmundson

Matthías Sævar Lýðsson

Hlíf Hrólfsdóttir

 

Strandabyggð 27. desember 2023

       Þorgeir Pálsson oddviti

Gleðilega Hátíð!

Þorgeir Pálsson | 25. desember 2023
Sveitarstjórn Strandabyggðar óskar stafsmönnum og fjölskydum þeirra, íbúum Strandabyggðar og landsmönnum öllum, Gleðilegra Jóla.  Við þökkum fyrir árið sem nú er að líða og óskum ykkur farsældar á nýju ári.

Sveitarstjórnarfundur - aukafundur nr. 1354 í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 18. desember 2023

Sveitarstjórnarfundur 1354 í Strandabyggð 

Aukafundur

Fundur nr. 1353 í sveitarstjórn Strandabyggðar, sem er aukafundur verður haldinn miðvikudaginn 20. desember kl. 12.00 á skrifstofu sveitarfélagsins Hafnarbraut 25, Hólmavík.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

 

  1. Hækkun útsvarsálagningar vegna fjármögnunar þjónustu við fatlað fólk 

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

 

Þorgeir Pálsson

Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir

Óskar Hafsteinn Halldórsson

Matthías Sævar Lýðsson

Hlíf Hrólfsdóttir

 

Strandabyggð 18. desember 2023

       Þorgeir Pálsson oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón