A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fjórðungsþing að baki

Þorgeir Pálsson | 08. október 2023
« 1 af 2 »

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Dagana 6-7 október var haldið 68. Fjórðungsþing Vestfirðinga, í þetta skiptið í Bolungarvík.  Þingið var nokkuð vel sótt, enda mikilvægsti samráðsvettvangur sveitarfélaga og stoðkerfis þeirra á Vestfjörðum. Þarna koma saman kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna, framkvæmdastjórar þeirra og starfsmenn, fulltrúar Vestfjarðastofu, Fjórðungssambands Vestfirðinga, ráðherrar, alþingismenn og aðrir góðir gestir.  Þarna fer fram mikilvæg vinna og skoðanaskipti sem oft á tíðum leiða af sér ný verkefni og nýjar áherslur.  Á þinginu eru síðan samþykktar ályktanir um helstu hagsmunamál og þær ályktanir marka í raun stefnu Fjórðungssambands Vestfirðinga og sveitarfélaganna á Vestfjörðum.  Fyrir hönd Strandabyggðar voru þarna Hlíf Hrólfsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson, Jón Sigmundsson og Þorgeir Pálsson.  Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir átti ekki heimangengt í þetta sinn.

Ályktanir Strandabyggðar

Sveitarstjórn Strandabyggðar lagði fram fjórar tillögur að ályktunum.  Ferlið er þannig að fyrri dag þingsins, eru tillögur að ályktunum lagðar fram.  Þær eru síðan ræddar í vinnuhópum innan nefnda þingsins, t.d. alsherjarhefndar og þar taka þær oft breytingum, enda stundum um álitamál og ágreiningsefni að ræða milli sveitarfélaga.  En, svo lengi sem umræðan og skoðanaskiptin eru málefnaleg og uppbyggileg, er hvorutveggja nauðsynlegt fyrir þróun mála og verkefna.  Á þessu þingi var vissulega skipst á skoðunum og tekist á um áherslur, t.d. í jarðgangagerð á Vestfjörðum.  Seinni dag þingsins eru tillögurnar síðan lagðar fram og samþykktar.  Á endanum verða þær síðan ályktanir þingsins.  Á mánudag, 9.október,  verður hægt að nálgast erindi og ályktanir þingsins á heimasíðu Vestfjarðastofu; https://www.vestfirdir.is/is

Sveitarstjórn Strandabyggðar lagði fram fjórar tillögur að ályktunum; um heilbrigðismál á Vestfjörðum, um ljósleiðaravæðingu, um Súðavíkurgöng og um fjarveru þingmanna á þingmannafundi.  Þrjár fyrstu tillögurnar urðu að ályktunum, þó með nokkrum breytingum, en tillögu um ályktun vegna fjarveru þingmanna á þingmannafundi sem halda átti daginn fyrir upphaf þingsins, var vísað frá.  Þótti nefndarmönnum sem þingmenn kjördæmisins hafi áttað sig, enda mættu nokkrir þeirra á þingið.  Persónulega hefði ég kosið að þingið hefði ályktað um málið, enda slæmt að aflýsa þingmannafundi vegna dræmrar mætingar þingmanna.  Mæting á Fjórðungsþing kemur ekki í stað þingmannafundar.  En það var engu að síður gott að sjá þá þingmenn sem komu á þingið.

Aðrar tillögur okkar urðu sem fyrr segir að ályktunum, þó með nokkrum breytingum.  Sveitarstjórn Strandabyggðar mun nú fylgja þessum málum eftir, t.d. hvað varðar heilbrigðisþjónustu á okkar svæði.  Það er t.d. óasættanlegt að hér hafi ekki náðst að halda í stöðugildi hjúkrunarfræðings og meinatæknis.  Það er líka óásættanlegt að ljósleiðaravæðing minni sveitarfélaga strandi á því að þjónustuaðilar neita að leggja ljósleiðara í hús, íbúum að kostnaðarlausu, líkt og þeir gera í stærri bæjarfélögum.  Eins þarf að efla Fjarskiptasjóð til að hann geti mætt þessari mismunun og stutt minni sveitarfélög til að ljósleiðaravæða heimilin. 

Hvað samgöngumál varðar, þá lagði sveitarstjórn Strandabyggðar til að Áltafjarðargöng yrðu næstu göng á Vestfjörðum. Fulltrúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðar töldu hins vegar að jarðgöng um Hálfdán og Mikladal, svokölluð Suðurfjarðagöng ættu að vera næst.  Óumdeilt er að á báðum stöðum hefur biðin eftir úrbótum verið löng, hættuástand á viðkomandi vegum er viðvarandi og úrbætur mikið hagsmunamál fyrir allt atvinnulíf á viðkomandi svæðum, sem og fyrir Vestfirði alla.  Niðurstaða þingsins var hins vegar að hefja ætti rannsóknir og hönnun beggja kosta nú þegar og að framkvæmdir hæfust þegar hönnun lægi fyrir.  Einnig var ákveðið að halda fljótlega þing um samgöngumál og kryfja þá stöðuna betur, t.d. forsendur Vegagerðarinnar fyrir tímaramma framkvæmda.

Mikilvægi Fjórðingsþings fyrir sveitarfélög og stoðkerfi þeirra er óumdeilt.  Þarna kemur fólk saman, þarna verða til hugmyndir að nýjum verkefnum, áherslum, þarna sameinast sveitarfélög í hagsmunabaráttu sinni og ofan á þetta allt, er þingið vettvangur til að hitta vini og félaga og eiga góða stund. 

Það er síðan venja að það sveitarfélag sem hýsir þingið, býður í heimsóknir í fyrirtæki eða stofnanir og í þetta skiptið var laxasláturhús og pökkunarstöð Artic Fish skoðuð, sem og fiskvinnsla Jakobs Valgeirs.  Í báðum tilvikum er um glæsileg hátæknihús að ræða, milljarða fjárfestingar í fullkomnustu tækjum og búnaði í þessum atvinnugreinum sem skapa fjölda starfa. Uppgangur laxeldis á Vestfjörðum er þarna mjög sýnilegur og gefur góð fyrirheit inn í framtíðina.  Í báðum þessum tilvikum er um að ræða mikla verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu, sem er Vestfjörðum og Íslandi svo mikilvæg.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

 

 

Sveitarstjórnarfundur 1351 í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 06. október 2023

Fundur nr. 1351 í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 10. október kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

 

  1. Velferðarþjónusta Vestfjarða, samningur til fyrri umræðu – Til afgreiðslu
  2. Erindi frá Isavia vegna Egonos jarðstöðvar - Til afgreiðslu
  3. Erindi frá slökkviliðsstjóra, ósk um aukið fjárframlag til slökkviliðs, frh. frá fundi 1350– Til afgreiðslu
  4. Velferðarnefnd Stranda- og Reykhólahrepps nr. 52 frá 27. september 2023 - Til kynningar/afgreiðslu
  5. Sterkar Strandir, fundargerð frá 24.ágúst 2023 – Til afgreiðslu
  6. Sorpsamlag Strandasýslu fundargerð frá 4. október 2023 – Til kynningar
  7. Forstöðumannaskýrslur – Til kynningar
  8. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í ágúst– Til kynningar og umræðu
  9. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða v. sóknaráætlunar - Til kynningar
  10. Fjórðungssamband Vestfjarða og Vestfjarðarstofa fundargerðir 52 frá 29. mars, 53 frá 17. maí og 54 frá 28. júní ásamt ársfundi fulltrúaráðs Vestfjarðarstofu – Til kynningar
  11. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 932 frá  8. september og 933 frá 18. sepember –Til kynningar
  12. Skógræktarfélag Íslands, áskorun varðandiskógarreiti og græn svæði innan byggðar – Til kynningar
  13. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr. 456 frá 19. september 2023 - Til kynningar

 

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

 

Þorgeir Pálsson

Jón Sigmundsson

Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir

Matthías Sævar Lýðsson

Hlíf Hrólfsdóttir

 

Strandabyggð  6. október 2023

 

Þorgeir Pálsson oddviti

Mötuneyti

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir | 06. október 2023

Gengið hefur verið frá samningum um mötuneyti fyrir leik- og grunnskóla. Raimonda Serekaite-Kiziria og Sigrún María Kolbeinsdóttir hafa tekið að sér umsjón mötuneytisins að minnsta kosti fram í desember.
Raimonda og Sigrún María eru starfmenn sameinaðs leik-, grunn- og tónskóla á Hólmavík og hafa séð um matseld fyrir skólann frá því í byrjun september sl. Það er ánægjulegt að nú sé framhald á því starfi tryggt.  
Eldað verður í eldhúsi félagsheimilis og matur bæði borinn fram þar fyrir nemendur og starfsfólk grunnskóla og sendur í leikskóla fyrir börn og starfsfólk þar.

Auglýst hefur verið 62,5% starf við aðstoð í mötuneyti leikskólans og er umsóknarfrestur um það starf til hádegis 13. október nk.

Viðvera fulltrúa sýslumanns

| 04. október 2023


Skúli Hakim Thoroddsen staðgengill sýslumannsins á Vestfjörðum verður til viðtals á sýsluskrifstofunni á Hólmavík mánudaginn 9. október n.k.

Jákvæðar fréttir af grunnskóla og leikskólalóð

Þorgeir Pálsson | 15. september 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það er ánægjuefni að upplýsa ykkur um stöðu mála varðandi uppbyggingu grunnskólans (yngri hluta) og eins leikskólalóðarinnar.

Grunnskólinn

Fyrirtækið Litli klettur vinnur nú að frágangi drenlagna við grunnskólann og er sú vinna vel á veg komin.  Það er mikilvægt að vanda til þessa verks og koma í veg fyrir allar mögulegar rakaskemmdir á veggjum.  Um mánaðarmótin eða fljótlega í október, er búist við nýjum gluggum og hurðum og verður það mikill áfangi.  Eins verða nokkrir gluggar síkkaðir.  Vinnuaðstaða kennara verður allt önnur þegar þessi breyting er afstaðin.  Þá verða settar nýjar flóttaleiðir samkvæmt gildandi stöðlum

Búið er að staðfesta tilboð í gólfdúka, loftdúka, fellihurðir sem skipta kennslurýminu í einingar og eins er unnið að verklýsingu varðandi raflagnir og ný ljós í loftið.  Þá er komið tilboð frá í húsgögn og stóla og eins liggur fyrir tilboð varðandi málun á innra rými skólans.  Þessi tilboð verða staðfest á næstu dögum.

Eins og fram hefur komið, miðast allar þessar framkvæmdir við yngri hluta grunnskólans.  Hins vegar ætlum við að nýta tvö herbergi og salernisaðstöðu í anddyri eldri hlutans.  Þar verður skólastjóri með sína aðstöðu og hin skrifstofan verður nýtt fyrir sérkennslu.  Búið er að mála þessi herbergi og næst verður rýmið teppalagt og ofnar settir upp.  Þessi herbergi verða tekin í notkun á næstu dögum.  Allt er þetta unnið í samráði við EFLU og VERKÍS, sem sinnir verkefnastjórnun fyrir okkur.

Það má því segja að lokakafli þessarar uppbyggingar yngri hlutans sé að hefjast, þ.e. innandyra, en eftir er að lagfæra þakkantinn og þakið sjálft.  Það er auðvitað grundvallaratriði að varna því að vatn komist inn.

Leikskólinn

Endurgerð leikskólalóðarinnar hefur verið okkur verulegt áhyggjuefni, þar sem ekki fékkst verktaki í þá vinnu lengi vel.  Það kom síðan í ljós í lok ágúst mánaðar, að Litli klettur hefur reynslu á þessu sviði og þeir sýndu strax áhuga á að taka þetta verkefni að sér.  Nú hefur meirihluti sveitarstjórnar samþykkt að ganga til samninga við Litla Klett um framkvæmd þessa verkefnis í heild sinni, en að byrja nú á haustmánuðum á jarðvegs- og steypuvinnu, sem rúmast innan fjárhagsáætlunar 2023. 


Það þarf ekki að lýsa því hversu mikið gleðiefni og hagsmunamál þetta er fyrir okkar samfélag, sérstaklega börn og barnafjölskyldur. Loksins sjáum við upphaf framkvæmda sem munu skila okkur endurgerðri leikskólalóð, sem verður í takt við áherslur leikskólabarna, kennara, foreldra, starfsmanna sveitarfélagsins og sveitarstjórnar, en allir þessir aðilar komu að hugmyndavinnunni.  Landmótun hefur síðan útfært þessar hugmyndir.

Það er því full ástæða fyrir okkur að vera bjartsýn og jákvæð því þessi mál eru í góðum farvegi.

Kveðja og góða helgi,

Þorgeir Pálsson

Oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón