A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Framtak Ungmennaráðs - Hamingjudagar

| 29. júní 2023

Það er gaman að segja frá því að Ungmennaráð Strandabyggðar hefur tekið sig saman og útbúið dagskrá í tilefni af Hamingjudögum. Ákveðið var fyrr á árinu að opinberlega yrði ekki haldið upp á Hamingjudaga vegna þess hve lítill áhugi virtist vera hjá heimafólki á skemmtanahaldi um þessa helgi. Stuðningur sveitafélagsins var þó í boði ef einstaklingar eða félagasamtök vildu taka sig saman og bjóða upp á eitthvað öðrum til skemmtunar og gamans. 

En það er einmitt það sem Ungmennaráðið okkar hefur gert. Þau héldu meðal annars ungmennaþing þar sem öllum ungmennum í sveitarfélaginu var boðið til að ræða hvort hægt væri að bjóða upp á einhverja dagskrá á óformlegum Hamingjudögum. 
Það er sannarlega gaman að sjá að ungt fólk í Strandabyggð lætur sig hlutina varða og hrindir því í framkvæmd sem þau vilja sjá verða að veruleika. Við megum vera stolt af unga fólkinu okkar og vonandi verða það sem flest sem geta notið þeirrar dagskrár sem þau bjóða uppá. Það er laugardagurinn 8. júlí sem verður Hamingjudagurinn í ár. 


Ýmislegt verður í boði en dagskráin er eftirfarandi

12-13 Sápurennibraut á Jakobínutúni
13-14 Andlitsmálning við/í Félagsheimilinu
15 Félagsvist í Félagsheimilinu
17 Polla og Pæju mót á Grundum 
21 Brekkusöngur á Toggatúni (fyrir neðan sjúkrahúsið)

Við þökkum Ungmennaráði Strandabyggðar fyrir framtakið og vonumst til að flest eigi hamingjusaman dag. 

 

Laust starf ráðgjafa hjá Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps

| 28. júní 2023

 

 

Ráðgjafi óskast í 70-100% starf til eins árs

Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps auglýsir eftir ráðgjafa í 70-100% afleysingastarf frá 1. ágúst 2023.  Næsti yfirmaður er félagsmálastjóri.

Meginverkefni:

Barnaverndarmál.

Ráðgjöf í málefnum fatlaðs fólks.

Ráðgjöf í málefnum aldraðra.

Yfirumsjón með málefnum innflytjenda/flóttamanna.

Að vinna að stofnun atvinnuúrræðis fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu á félagsþjónustusvæðinu

 

Menntunar og hæfniskröfur

Háskólamenntun sem nýtist í starfi  svo sem félagsráðgjöf, iðjuþjálfun eða þroskaþjálfun.

Reynsla af sambærilegu starfi er kostur.

Góð enskukunnátta æskileg.

Gott vald á íslenskri tungu.

Frumkvæði, sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum.

Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.

Góð alhliða tölvukunnátta.

Hreint sakavottorð skilyrði í samræmi við lög og reglur félagsþjónustunnar.

 

Umsóknarfrestur er til og með 7. júlí 2023

Laun eru samkvæmt kjarasamningi samband íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Soffía Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps í síma 451-3510 eða felagsmalastjori@strandabyggd.is.

Umsækjendur eru beðnir um að skila inn umsóknum á tölvupóstfangið felagsmalastjori@strandabyggd.is. Með umsókn þarf að fylgja ferilskrá um fyrri störf og menntun ásamt kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfni í starfið.

Nýsköpun og verðmætasköpun í sauðfjárbúskap

Þorgeir Pálsson | 27. júní 2023
Tækifæri til verðmætasköpunar - Strandabyggð - boð til samtals
 
Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV), Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) standa sameiginlega að verkefni til að efla byggð á landsvæðum sem eiga mest undir sauðfjárrækt. Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar og verðmætasköpunar.

Tækifæragreining er fyrsta skrefið við framkvæmd verkefnisins. Hlédís Sveinsdóttir og Björn Bjarnason sem unnu að gerð tillagna að baki fyrstu landbúnaðarstefnunni sem Alþingi samþykkti nú 1. júní 2023 vinna að
greiningunni.  Dagana 28. júní til 4. júlí verða þau á ferð til að hlusta og fræðast.
 
Markmið þeirra er að heyra sjónarmið sem flestra.
 
Við bjóðum því til opins samtals:
 
Milli klukkan 15:30 -18:00, föstudaginn 30. júní í Hnyðju, Þróunarsetrinu á Hólmavík ... við yrðum þakklát að heyra í sem flestum.
 
Öllum er velkomið að kynna hugmyndir í samtölum við þau Hlédísi og Björn eða með því að senda þær á netfangið hlediss@gmail.com




Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 25. júní 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Skipulagsmál voru áberandi í liðinni viku.  Unnið er að endurgerð aðalskipulags og fundaði vinnuhópur sveitarfélagsins í vikunni.  Á þeim fundi voru ræddar hugmyndir að uppbyggingu íbúðahverfis í Brandskjólum og tenging þess hverfis við annars vegar Vitabraut og hins vegar svæðið við íþróttamiðstöðina og tjaldsvæðið.  Einnig var skipulag hótelreitsins skoðað.  Þeir sem koma að uppbyggingu hótelsins, vinna nú að gerð endanlegra teikninga og skipulags umhverfisins í kring um hótelið, á meðan við í sveitarfélaginu ræðum endurskipulagningu tjaldsvæðisins.  Nú þarf t.d. að skilgreina og ákveða hvað á að vera inni á svæðinu, og er þar t.d. verið að ræða; rafhleðslustöðvar, sem Tesla á Íslandi mun líklegast standa að, leiksvæði á tjaldsvæðinu, aukið rými fyrir tjöld, húsbíla og önnur ferðahýsi auk þjónustumiðstöðvar.  Þetta er spennandi vinna sem tekur sífellt á sig skýrari mynd.

Hólmadrangur

Áfram er unnið að málefnum Hólmadrangs og leggjast þar allir á eitt.  Í vikunni var t.d. fundur með þingmönnum, Stefán Vagn Stefánsson, fyrsti þingmaður kjördæmisins kom hingað á Hólmavík, ásamt Gunnlaugi Sighvatssyni, verkefnastjóra Samherja og fundaði stýrihópur á vegum sveitarfélagsins um aðgerðir og næstu skref. Í lok vikunnar fengu þingmenn síðan hver um sig verkefni til að vinna að, næstu daga.  Allir eru virkjaðir og allir eru reiðubúnir að skila sínu. Þá komu fulltrúar VerkVest og Vinnumálastofnunar hingað auk þess sem RÚV gerði þessu skil í sínum fréttum.  Starfmenn og stjórnendur Hólmadrangs eiga hrós skilið fyrir æðruleysi og yfirvegun við þessar aðstæður.

Ný tækifæri

Áfram er unnið samkvæmt viljayfirlýsingu sveitarfélagsins og Íslenskra verðbréfa og er þar fyrst og fremst verið að skoða hugsanlega uppbyggingu í fiskeldi og þararækt.  Aðrir möguleikar eru líka á borðinu.  Þá eru fyrirtæki á svæðinu einnig að skoða hugsanleg störf sem gætu hentað starfsfólki Hólmadrangs í vissum tilvikum.  Það er þó alltaf svo að sum tækifærin eru til skemmri tíma og önnur lengri tíma og skiptir því máli að meta hvert tækifæri fyrir sig út frá bakgrunni og áherslum starfsmanna.

Grunnskóilinn

Málin þokast í rétta átt.  Búið er að semja við verktaka um lagningu hitalagna í gólf í yngri hlutanum og hefst sú vinna í komandi viku.  Innan tveggja vikna er gert ráð fyrir að flota gólf og lakka.  Þá er búið að semja við verktaka um nýja glugga og hurðir í skólann.  Næstu skref eru að gera verðfyrirspurn varðandi frágang á drenlögn og málun skólans að innan. Færanlega skólastofan kemur í komandi viku. Þetta er því allt í rétta átt.

Leikskólalóðin

Hafnar eru viðræður við verktaka um vinnu við breytingar á leikskólalóðinni, samkvæmt áherslum starfsmanna, foreldra og leikskólakrakka.  Vonandi verður hægt að ganga frá samningi í komandi viku.  Þá er nú gert ráð fyrir að vegrið fyrir ofan leikskólann verði sett upp um miðjan júlí.

 

Umhverfið okkar, ferðamenn, ný fyrirtæki heimamanna ofl.

Það er rétt að hrósa krökkunum í vinnuskólanum og starfsmönnum áhaldahúss fyrir góða vinnu við að fegra umhverfið okkar.  Aðrir starfsmenn sveitarfélagisns fá sömuleiðis hrós, enda allir að gera sitt besta.  Það sést vel að fjöldi ferðamanna eykst dag frá degi og álagið á tjaldsvæðið og sundlaugina þar með.  Tekjur sveitarfélagsins af þessari þjónustu aukast í takt og skipta okkur verulegu máli.  Það er rétt að hafa í huga að þjónustustig gagnvart ferðamönnum  er nokkuð hátt og er t.d. boðið upp á salernisaðstöðu í félagsheimilinu allan sólarhringinn og nú yfir sumartímann er hægt að sitja í anddyri félagsheimilisins, þvo þvott eða elda sér mat. 

Fjölbreytt námskeið hafa verið í gangi og ný námskeið eru framundan. Það hefur verð sérlega gaman að fylgjast með krökkunum hjólandi um þorpið, í fjöruferð og leikjum að undanförnu.

Það er ánægjulegt að lesa um aukna þjónustu sem heimamenn standa að, og er þar átt við t.d fótsnyrtingu og svæðanudd.  Þetta er mjög jákvæð þróun. Til hamingju!  Það er líka ánægjulegt að sjá sífellt fleiri sigla um á kajökum, enda aðstaða til þess einstök hér á Hólmavík.  Njótum sumarsins og alls þess sem umhverfið okkar hefur upp á að bjóða.  Lífið er núna!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Menningarverðlaun Strandabyggðar 2023

| 19. júní 2023
« 1 af 2 »
Menningarverðlaun Strandabyggðar árið 2023 voru afhent um helgina á Þjóðhátíðardegi Íslendinga. 

Menningarverðlaunin eru afhent ár hvert af Tómstunda- Íþrótta- og Menningarnefnd Strandabyggðar að fengnum tilnefningum. Verðlaunin eru veitt fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar og er markmið þeirra að efla menningar og listastarf í Strandabyggð. 

Í ár voru afhennt tvö verðlaun, annarsvegar Menningarverðlaun og svo Sérstök verðlaun. 
Það er Raimonda Sareikaite sem hlaut menningarverðlaunin í ár en hún er listakona frá Litháen sem er búin að búa í Strandabyggð síðan 2018. Síðan þá hefur hún sett um fjórar listasýningar meðfram öðrum störfum. Það krefst sannarlega hugrekkist að taka sín fyrstu skref sem listamaður sem nýbúi í litlu samfélagi. Við erum mjög stolt af því sem hún hefur áorkað og vonumst til að fá að njóta áfram sköpunargáfu og listaverka hennar sem hafa verið frumleg og litrík. Við vonum að þessi viðurkenning veiti henni sem og örðum innblástur og hvatningu. Við teljum það sérstaklega mikilvægt að samfélagið styðji við sína nýbúa, taki eftir og kunni að meta hæfileika þeirra og framlag til samfélags og menningar. 

Sérstök verðlaun hlaut Jón Halldórsson, ljósmyndari fyrir ljósmyndir sem hann hefur tekið og birt af mannlífi og náttúru í gegnum árin. Myndirnar hanns eru ómetanleg heimild um líf á Ströndum og hefur hann næmt auga fyrir náttúru og dýralífi. Þá er þakkarvert hvað Jón hefur verið duglegur að deila myndum af daglegu amstri og náttúru svo aðrir geti notið. 

Við óskum verðlaunahöfum innilega til hamingju og þökkum gestum fyrir komuna. 

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón