A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Dýralæknir - Ormahreinsun hunda og katta.

| 03. nóvember 2023

Gísli Sverrir Halldórsson dýralæknir sinnir hreinsun á hundum og köttum fimmtudaginn 16 nóvember n.k. í Áhaldahúsinu milli kl. 16:00 og 18:00.

 

Gott væri ef hundaeigendur gætu komið á milli 16:00 og 17:00 kattaeigendur á milli 17:00 og 18:00. Hundar þurfa að vera í taumi og kettir í búri en einnig er í boði að sækja lyfin fyrir kettina á auglýstum tíma til Gísla.

 

Hunda og kattaeigendur í Strandabyggð, bæði þéttbýli og dreifbýli eru hvattir til að mæta og nýta sér þjónustuna.

 

Allir hundar og kettir innan þéttbýlis skulu skráðir og bera merkingar skv. reglugerð um hunda og kattahald sem finna má á vef Strandabyggðar.  Ný samþykkt um gæludýrahald í Strandabyggð tók gildi í maí 2022. Skylt er að færa hunda og ketti til hreinsunar árlega.

 

Þeir sem óska eftir annari dýralæknisþjónustu eða upplýsingum er velkomið að hafa samband við Gísla í síma 862 9005 á milli 9 og 11 alla virka daga eða á netfangið gissve@simnet.is

 

Vatnslaust í stutta stund vegna viðgerða-breyting

Salbjörg Engilbertsdóttir | 31. október 2023
Vegna viðgerða á vatnslögn í Miðtúni verður vatnslaust í stutta stund frá kl. 13:00

Vatnslaust í íbúðahverfi í túnum

Salbjörg Engilbertsdóttir | 30. október 2023
Góðan daginn

Vegna skyndilegrar bilunar í vatnslögn í Miðtúni verður vatnslaust eitthvað fram eftir degi. Unnið er að viðgerð


Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 29. október 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Tíminn líður hratt og enn ein vikan er liðin.

Sterkar Strandir

Þessi vika byrjaði á samráðsfundi með fulltrúum verkefnastjórnar Sterkra Stranda og verkefnastjóra og var þar farið yfir þau verkefni sem fram komu sem áhersluefni á íbúafundi í upphfi verkefnisins.  Mörg þessara verkefna eru afgreidd, önnur í farvegi en eitt og eitt er enn á byrjunarreit.  Og það er gjarnan þannig að sum þessara verkefna, eins og t.d. samgöngubætur og stærri innviðamál, eru í raun á borði stjórnvalda en ekki sveitarfélagsins.  Hlutverk sveitarfélagsins gagnvart þessum verkefnum er þá frekar að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir og sú vinna er stöðugt í gangi af hálfu sveitarfélagsins

Í byrjun nóvember tekur stjórn Byggðastofnunar fyrir beiðni Strandabyggðar um áframhaldandi aðild að Brothættum byggðumk og við skulum vona að niðurstaðan verði okkur hliðholl.  Á bak við þessa um sókn er amk samstíga sveitarstjórn og samfélag, því öll sjáum við án efa kostina við verkefnið.

Fjárhagsáætlanagerð

Unnið var áfram að gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2024 og næstu þrjú ár þar á eftir.  Sveitarstjórn hittist á vinnufundi í vikunni og ræddi áherslur næsta árs.  Sem fyrr er grunnskólinn þar ofarlega á blaði, en einnig leikskólalóðin, áframhaldandi malbikun og vinna við að bæta ásýnd bæjarins. 

Við stöndum frammi fyrir talsverðri innviðaskuld, sem við munum vinna á smátt og smátt, en það mun taka tíma og kalla á umtalsvert fjármagn.  Það er því mikilvægt að við skipuleggjum það verkefni vel og forðumst of mikla skuldsetningu sveitarfélagsins, nú þegar við erum á réttri leið hvað fjárhagslega uppbyggingu sveitarfélagsins varðar.

Heilbrigðisþjónusta og þjónustukjarni fyrir aldraða

Það gleymist oft í daglegu tali, en við hér í Strandabyggð eru það lánsöm að hér er nokkuð gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu.  Hér er ávallt læknir og mjög gott starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar.  En við skulum samt hafa það hugfast, að stöðugildum hefur fækkað á undanförnum árum og það er óásættanlegt.  Hér er ekki hjúkrunarfræðingur að staðaldri, meinatæknir eða full mönnuð heilbrigðisstofun.  Sveitarstjórn kom þessari stöðu á framfæri á nýliðnu Fjórðungsþingi.  Þessa staðreynd ræddi ég einnig við heilbrigðisráðherra á fundi okkar í vikunni.  Hann tók vel í okkar sjónarmið og við munum þrýsta á leiðréttingu hvað þetta varðar.

Við ræddum einnig þá hugmmynd, að í nýju íbúðarhverfi í Brandskjólum, verði þjónustukjarni fyrir aldraða.  Ráðherra leist mjög vel á þessa hugmynd og fellur hún vel að hugmyndafræðinni sem birtist í verkefninu „það er gott að eldast“  Upplýsingar um það verkefni má finna hér en þarna er um að ræða samþættingu margs konar þjónustu í þágu eldra fólks.  Og hér í Strandabyggð er öll grunnþjónusta til staðar til að styðja við svona þjónustukjarna;  heilbrigðisþjónusta, góð íþróttaaðstaða og sundlaug, öflugt félagsstarf eldri borgara o.s.frv.  Við munum vinna áfram með þessa hugmynd og getum sagt nánar frá henni á síðari stigum.

Ýmislegt annað

Það var ýmislegt annað áhugavert í vikunni;  kynningarfundur um sorpbrennslustöðvar, umræða um nýtingu sláturhússins og atvinnutækifæri í tengslum við það, við auglýstum eftir hugmyndingum um réttarstæði í Kollafirði, auglýst var eftir áhugasömum aðilum um snjómokstur í sveitarfélaginu ofl.

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka í snjómokstur og hálkuvarnir

Þorgeir Pálsson | 25. október 2023

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka til að sjá um snjómokstur og hálkuvarnir í sveitarfélaginu.  Um er að ræða snjómokstur innan Hólmavíkur. Gerð er krafa um að verktaki hafi yfir að ráða tækjabúnaði sem ræður við mismunandi magn af snjó. 

 

Heildar kostnaðarrammi samnings er kr. 600.000.- á mánuði án vsk og er miðað við 8 mánaða tímabil (ónotaður tímafjöldi færist á milli mánaða). Skal verktaki skila inn tilboði sem sýnir þann tímafjölda á mánuði sem verktaki áætlar að sé innan þessa kostnaðarramma.  Eins þarf verktaki að tilgreina kostnað fyrir útselda vinnu stjórnanda og þeirra vinnuvéla sem nýttar verða, þegar umfang snjómoksturs er meira en sem nemur þessum fasta kostnaðarramma. Er þá átt við bæði tímagjald  manna og véla.

 

Framkvæmd og forgangsröðun snjómoksturs skal vera samkvæmt viðmiðunarreglum um snjómokstur í Strandabyggð ( http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/skra/2495/ ) sem starfsmenn áhaldahúss veita upplýsingar um. Tengiliður verktaka eru starfsmenn Áhaldahúss.  Um er að ræða snjómokstur fyrir tímabilið október 2023 – maí 2025.  Gerður verður verktakasamningur við viðkomandi þar um.

 

Tilboðum skal skila inn til skrifstofu Strandabyggðar merktar „Snjómokstur 23-25“ fyrir kl 16, miðvikudaginn 1. nóvember n.k. eða á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is

 

Allar nánari upplýsingar veitir Sigurður Marinó Þorvaldsson, forstöðumaður áhaldahúss, í síma 894-4806, eða á netfangið siggimarri@strandabyggd.is  Strandabyggð áskilur sér rétt til að taka því tilboði sem metið er hagkvæmast, eða hafna öllum.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón