A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Frístundastarf og félagsmiðstöðin Ozon

Heiðrún Harðardóttir | 26. september 2024

Unnið er að því að manna í stöðugildi varðandi frístund.  Er stefnt að því að frístund taki til starfa mánudaginn 30. september, en það verður þó staðfest síðar.  Um leið og frístund hefur starfsemi sína mun skólabíllinn aka tvisvar á dag, nema föstudag, líkt og verið hefur.

 

Hvað Ozon varðar, þá er staðan sú að auglýst var í annað sinn eftir tómstundafulltrúa í árs starf og er umsóknarfresturinn til 8. október n.k.  Þá á eftir að sjá hvort næst að manna í stöðuna og verður því engin hefðbundin starfsemi í Ozon fram að því. 

 

Hins vegar verður allt gert til að skapa tækifæri til samvinnu með nágrannasveitarfélögunum og/eða sameiginlegu námskeiðahaldi.  Allt er þetta í skoðun og verður nánar auglýst síðar, eins og efni standa til.

Íbúafundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Heiðrún Harðardóttir | 26. september 2024

Vegna vinnu við umhverfismat Kvíslatunguvirkjunar verður haldinn kynningarfundur á vegum framkvæmdaaðila (Orkubú Vestfjarða) í félagsheimilinu þann 3. október frá 17-19.

 

Fjallað verður um niðurstöður umhverfismats Kvíslatunguvirkjunar sem  er 9,9 MW vatnsaflsvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með stöðvarhúsi í Selárdal.  Jafnframt verða kynnt drög að deiliskipulagstillögu virkjunarsvæðisins.

 

Málsgögn má nálgast í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar:

 

 

Boðið verður upp á kaffiveitingar.

Íþróttavika 23-30 september

Heiðrún Harðardóttir | 25. september 2024
« 1 af 2 »
Íþróttavika Evrópu hófst 23 september og stendur til 30 september. 

Strandabyggð tekur þátt í þessu verkefni og býður öllum íbúum Strandabyggðar frítt í sundlaugina á Hólmavík og einnig frían aðgang að Íþróttamiðstöð Strandabyggðar. 

Héraðssamband Strandamanna, Geislinn og Skíðafélag Strandamanna munu einnig bjóða upp á opnar æfingar þessa viku ásamt fleiri viðburðum. 

Við hvetjum alla til að kynna sér dagskrá Héraðssambands Strandamanna og taka þátt. 

Réttað í Kollafjarðarrétt

Þorgeir Pálsson | 23. september 2024
Mynd:  Sveinn Ingimundur Pálsson
Mynd: Sveinn Ingimundur Pálsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Í gær 22.9.24, á fallegum haustdegi, var réttað í fyrsta sinn í nýrri rétt í Kollafirði.  Réttarstjóri var Steinar Þór Guðgeirsson, bóndi í Steinadal.  Réttin, sem stendur í landi Litla Fjarðarhorns, er byggð á sömu teikningu og stuðst var við í Staðardal.  Skemmst er frá því að segja að réttarhald gekk mjög vel að sögn Steinars Þórs og virðist réttin standast allar væntingar. 

Í upphafi þessa ferlis var leitað eftir ábendingum bænda á svæðinu varðandi staðsetningu og fyrirkomulag nýrrar réttar.  Komu góðar ábendingar frá bændum í Miðhúsum og Stóra Fjarðarhorni, meðal annars um staðsetningu réttarinnar í landi Litla Fjarðarhorns, ekki langt frá þjóðveginum.  Var því leitað til landeigenda, þeirra Ingimundar og Bergþóru í Litla Fjarðarhorni, sem veittu góðfúslega leyfi fyrir réttarsmíðinni.

Réttarsmíðin var auglýst, en ekki fengust raunhæf tilboð.  Það fór hins vegar svo að Steinar Þór bóndi í Steinadal og Ásta kona hans buðust til að taka að sér réttarsmíðina og fengu til liðs við sig vaskan hóp fólks.  Um gerð púðans undir réttina, sáu einnig bændur í sveitarfélaginu, þeir Magnús á Stað, Ragnar á Heydalsá, Birkir í Tröllatungu og Björn (Billi) á Þorpum.

Orkubúið lagði til rafmagnsstaura og krakkar í grunnskólanum fengu það hlutverk mála skilti með nafni réttarinnar. Starfsmenn sveitarfélagsins komu að því að saga niður staurana, ferja efni út í Kollafjörð og setja upp skiltið góða.  

Smíði þessarar réttar var á köflum svolítið kapp við tímann, en með jákvæðni og mikilli vinnu, hafðist þetta allt.  Það er gott að finna þá samstöðu og jákvæðni sem verður til þegar menn vilja sjá nauðsynleg verkefni verða að veruleika.  Það á sannarlega við hér.

Fyrir hönd sveitarstjórnar þakka ég öllum þeim sem komu að þessari réttarsmíði, allt frá hugmyndavinnu til lokafrágangs, kærlega fyrir þeirra framlag og jákvæðni.  Þau hjón í Steinadal fá sérstakar þakkir fyrir áhuga og vinnusemi við verkið, því án þessa jákvæða viðhorfs hefði þetta ekki náðst.

Megi Kollafjarðarrétt duga vel um ókomna tíð. 

Til hamingju Strandabyggð með nýja rétt í Kollafirði!

Kollafjarðarrétt kl 16 í dag

Þorgeir Pálsson | 22. september 2024

Kæru íbúar Strandabyggðsr,

Mistök urðu við gerð fréttar um Kollafjarðarrétt í dag. Hún hefst kl 16 en ekki 17. Hún hafði réttilega verið auglýst kl 16 bæði í Bændablaðinu og á BB.is en því miður misfórst þetta í okkar frétt.

Eru allir hlutaðeigandi beðnir innilega afsökunar á þessu. 


Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón