A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum & mat á umhverfisáhrifum

Heiðrún Harðardóttir | 28. ágúst 2024

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum vinna nú að sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs í samræmi við 6. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.

 

Tillaga að svæðisáætlun, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við III. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2012, liggur nú fyrir. Gefst nú almenningi sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma athugasemdum sínum á framfæri áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi sveitarstjórnum.

 

Hægt er að kynna sér tillöguna á vefsíðum Vestfjarðastofu þ.e. á https://www.vestfirdir.is á vefsíðu Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. (www.environice.is) og í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Skriflegar ábendingar og athugasemdir skulu berast í síðasta lagi þriðjudaginn 8. október 2024 á netfangið stefan@environice.is eða í pósti á heimilisfangið:

 

Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.

v/ Svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum

Hvanneyrargötu 3

311 Hvanneyri

Frístundastyrkir barna og ungmenna

Salbjörg Engilbertsdóttir | 22. ágúst 2024

Strandabyggð veitir foreldrum/forráðamönnum barna og ungmenna á aldrinum 6 að 18 ára, styrki vegna íþrótta- og frístundaiðkunar. Meginmarkmið íþrótta- og frístundastyrkja er að stuðla að aukinni hreyfingu og félagsþátttöku barna í sveitarfélaginu. Styrkur er veittur vegna æfinga- og þátttökugjalda fyrir börn á aldrinum 6 að 18 ára með lögheimili í Strandabyggð. Styrkhæft er hvers konar reglulegt íþrótta- og frístundastarf. Fjárhæð styrks er ákveðin ár hvert í sveitarstjórn að fengnum tillögum frá tómstunda- íþrótta- og menningarnefnd. Styrkur nemur aldrei hærri fjárhæð en sem nemur greiddum gjöldum.

 

Styrkur árið 2024 er 30.000 kr.

 

Umsóknir vegna æfingagjalda frá 1. september síðasta árs til 31. ágúst þessa árs  þurfa að berast í síðasta lagi 15. september ár hvert til skrifstofu Strandabyggðar á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is.

 

Gögn sem fylgja þurfa umsókninni:

  • Afrit af reikningi þar sem fram kemur fyrir hvaða íþrótt eða tómstund er verið að greiða og fyrir hvaða barn.
  • Staðfestingu á greiðslu
  • Reikningsupplýsingar vegna greiðslu styrksins

 

Greiðsla styrks fer fram fyrir lok október ár hvert

 

Samþykkt í sveitarstjórn Strandabyggðar 13. febrúar 2024

 

Grunnskólinn á Hólmavík opnar að nýju

Þorgeir Pálsson | 22. ágúst 2024
« 1 af 4 »

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Í dag er mikill gleðidagur fyrir okkur öll.  Eins konar upprisa úr margra mánaða leiðindum, erfiðleikum og flækjustigi, sem allir hafa þó unnið vel úr.  Þetta er upprisa í þeim skilningi, að við sýnum með þessari framkvæmd, að við látum ekki buga okkur eða stoppa okkur umfram það sem nauðsynlegt er.  Það var aldrei efi í hugum okkar í Strandabandalaginu um að við myndum endurbyggja skólann okkar. Það kom aldrei annað til greina.  Vissulega voru skiptar skoðanir manna í milli og efasemdir um framkvæmdina, enda óvissan talsverð og verkefnið stórt.  En, á endanum erum við nú með nýjan skóla í gömlu húsnæði.  Staðreynd, sem minnir okkur á að það má aldrei gefast upp.

 

Þetta endureisnarferli spannar nú rúma 20 mánuði, næstum tvö ár.  Þetta hefur ekki verið einfalt enda ótrúlega margt sem þarf að smella.  Það sem hvað helst reyndist okkur erfitt, fyrir utan álagið á nemendur og starfsfólk, var að finna iðnaðarmenn og halda í þá. Kaupa inn efni, en oft var biðtíminn 6-8 vikur.  Ná að stilla saman verkþætti og aðkomu iðnaðarmanna, því svona uppbyggingu er eins og keðjuverkun, það þarf eitt að klárast til að annað geti hafist o.s.frv.  Það komu upp ýmsar breytingar, við bættum við verkþáttum, breyttum öðrum, tókum stórar ákvarðanir og smáar, sumar hratt, aðrar fengu að malla.  En við tókum alltaf ákvarðanir.  Og þess vegna hafðist þetta á endanum.  Enn er nokkur vinna eftir við hluta skólans og eins verður skólalóðin hönnuð og vonandi endurgerð næsta sumar, en í dag sameinast starfsfólk skólans og nemendur á sama stað.  Því ber að fagna!

 

Við hönnun skólans var það haft að leiðarljósi, að hafa líflega liti, skapa ferskleika og gleði innanhúss.  Einhverjum kann að þykja litagleðin nokkur, en þá er rétt að hafa í huga að þetta er skóli fyrir börnin okkar.  Þau eru lífleg og litaglöð.  Þetta er þeirra umhverfi og þar á að ríkja gleði og ferskleiki.  Að auki erum við að gleðjast og fagna upprisu þessa skóla og það gerum við með litagleði.  Litirnir eru í regnboganum, í loftinu, augunum, og allt í kring um okkur.  Leyfum okkur að njóta og gleðjast, því þessi gleðidagur á að vara lengi.

 

Það eru svo ótal margir sem eiga endalausar þakkir skildar fyrir þennan árangur og þennan mikilvæga áfanga í sögu Strandabyggðar; nemendur, starfsmenn skólans og sveitarfélagsins, verktakar, foreldrar, íbúar og margir aðrir.  Þetta er án efa með allra stærstu og umfangsmestu verkefnum þessa sveitarfélags ef ekki það stærsta.  Við skulum vera stolt yfir því að hafa komið að þessu verkefni.  Þessi dagur er skrifaður í söguna og við með.

 
Áfram Strandabyggð!

Þorgeir Pálsson
oddviti

 

Göngum í skólann

Heiðrún Harðardóttir | 22. ágúst 2024
Verkefnið Göngum í skólann verður sett í sautjánda sinn miðvikudaginn 4. september og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum 2. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni sína til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. 

Á heimasíðu Göngum í skólann www.gongumiskolann.is eru allar nánari upplýsingar um verkefnið.

Laus störf við grunnskólann

Salbjörg Engilbertsdóttir | 21. ágúst 2024


Tvö störf eru laus við grunnskólann á Hólmavík.


Laus er staða skólaliða við grunnskólann. Starfsmaður starfar við gæslu í skóla s.s. á göngum skólans, í mötneyti og frímínútum og er nemendum innan handar og leiðbeinir eftir þörfum. Starfsmaður sinnir einnig léttum þrifum.
Um 37,5% starf er að ræða í dreifðu starfi á 12 mánuði en 41% v. starfs í 9,5 mánuði. Leitað er eftir starfsfólki sem hefur ánægju af að vinna með börnum,sýnir færni í samskiptum við börn og fullorðna og tekur þátt í því uppeldisstarfi sem á sér stað innan skólans. Farið er fram á hreint sakavottorð


Laus er staða við ræstingar í grunnskólanum, vinnutími er frá 14:00-16:30 en hægt er að semja um að vinna starfið seinna að deginum. Um er að ræða þvott, skúringar og almenn þrif á skólahúsnæði eftir að skóla lýkur.
Um 33% starf er að ræða í dreifðu starfi á 12 mánuðum en 35% í 9,5 mánuði.


Greitt er skv. kjarasamningum Sambands sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélög

Æskilegt er að starfsmenn geti byrjað sem fyrst.


Upplýsingar um starfið gefur Salbjörg skrifstofustjóri salbjorg@strandabyggd.is, umsóknum skal skilað á strandabyggd@strandabyggd.is og er frestur til og með 28. ágúst n.k.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón