A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fjórðungsþing Vestfirðinga 2024

Þorgeir Pálsson | 21. október 2024
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Mynd: Vestfjarðastofa
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Mynd: Vestfjarðastofa

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú um helgina, dagana 18 og 19 október, var haldið Fjórðungsþing Vestfirðinga á Laugarhóli í Bjarnarfirði.  Þetta var að mörgu leyti gott þing og það er alltaf gaman að hittast og ræða málin.  Umræðan litaðist svolítið af stöðunni í landsmálapólitíkinni og kosningum framundan og voru ýmsar kenningar á lofti.  Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður, kom á þingið á föstudeginum og fór yfir stöðuna.  Það er ljóst að framundan er mikil óvissa og því miður verður að teljast líklegt að mörg þeirra mála sem voru til umfjöllunar og afgreiðslu hjá ríkisstjórn, verði ekki kláruð og í raun er allt óljóst um afdrif þeirra.  Eitt þeirra verkefna eru tillögur Strandanefndarinnar.  En, við verðum engu að síður að halda baráttunni áfram og koma okkar áherslum á framfæri.


Strandabyggð lagði fram fimm tillögur að ályktunum. Tillögur að ályktunum koma frá sveitarfélögunum og stjórn og nefndum Fjórðungssambandsins og eru síðan ræddar og kláraðar í nefndum þingsins. Á seinni degi þingsins eru þær síðan samþykktar sem ályktanir Fjórðungsþings. Tillögur Strandabyggðar voru eftirfarandi, í stuttu máli: 1) að Álftafjarðargöng  yrðu næstu göng á Vestfjörðum, 2) aukið námsmat í grunnskólum, 3) aukin kynning á Vestfjörðum fyrir erlendum fjárfestum og fyrirtækjum, 4) að ríkisstjórn Íslands taki jákvætt í tillögur Strandanefndarinnar og 5) um mikilvægi þess að heitavatnsleit á Gálmaströnd ljúki.  Einni tillögu var vísað til nefndar Fjórðungssambandsins, en það var tillagan um aukið námsmat.  Aðrar tillögur fóru til afgreiðslu, sumar óbreyttar en aðrar með orðalags- og áherslubreytingum.  Niðurstaðan var síðan sú að allar þær sem lagðar voru fyrir þingið voru samþykktar, nema ályktun um Álftafjarðargöng.

 

Því miður náðist ekki samstaða um að taka af skarið í áralangri umræðu um forgangsröðun í gangagerð á Vestfjörðum.  Tillaga um svokallaða Vestfjarðalínu náði fram að ganga en þar eru stjórnvöld hvött til að leita nýrra leiða í fjármögnun gangagerðar á Vestfjörðum og er einnig talið mikilvægt að stjórnvöld gangi til samstarfs við nýlega stofnað Innviðafélag Vestfirðinga, undir forystu Guðmundar Fertrams. Þá gengur tillagan einnig út á að halda í ályktun frá síðasta Fjórðungsþingi, en þar er talað um að vinna að rannsóknum og hönnun á Álftafjarðargöngum og Suðurfjarðagöngum (um Mikladal og Hálfdán) samtímis. Fjórðungsþing sker því ekki í gegn hvað forgangsröðun varðar og er það miður og að mínu mati veikleikamerki.  Það geta aldrei verið tvenn göng í fyrsta sæti.  Ákyktunin frá síðasta Fjórðungsþingi var málamiðlun þess tíma.  En, þetta er niðurstaðan og við lútum henni og munum taka virkan þátt í þeirri vinnu sem nú er framundan í samgöngumálum á Vestfjörðum.

Ný stjórn var kosin og jafnframt nýr formaður, sem nú er Gylfi Ólafsson frá Ísafjarðarbæ.  Ný stjórn er eftirfarandi: Gylfi Ólafsson, Tryggvi Bjarnason, Dagný Finnbjörnsdóttir, Magnús Ingi Jónsson og Hildur Aradóttir.  Við óskum þeim öllum til hamingju með kjörið og um leið þökkum við Jóhönnu Ösp Einarsdóttur, Reykhólahreppi, kærlega fyrir hennar störf undanfarin ár sem formaður Fjórðungssambandsins.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Tiltekt á Tanganum

Þorgeir Pálsson | 17. október 2024
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það hefur legið fyrir lengi að taka til á Tanganum.  Samráð hefur verið haft við eigendur gáma á Tanganum um þá tiltekt sem sveitarfélagið ætlar sér í á svæðinu og búið að kynna þessi áform áður á heimasíðu sveitarfélagsins.  

Nú er komið að upphafi þessarar tiltektar og eru því komnir tveir tómir gámar á svæðið.  Annar er ætlaður fyrir járn og hinn fyrir allt annað.  Spilliefni þarf þó að meðhöndla sérstaklega og eru eigendur hvattir til að leita ráða hjá starfsmönnum Sorpsamlagsins.  Eins þarf að huga vel að förgun innihalds einhverra gáma og er gott samráð við sveitarfélagið og jafnvel Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða æskilegt.

Hvað fluting á gámunum sjálfum varðar, eru eigendur þeirra hvattir til að hafa samband við starfsmenn Sorpsamlagsins.  Heilir gámar verða fluttir á gámasvæðið í Skothúsvík en ónýtum gámum þarf að farga.  

Sveitarfélagið er tilbúið að aðstoða eigendur þessara gáma eins og þarf og við köllum eftir góðri samvinnu um þetta mikilvæga verkefni.  Eigendur gáma bera kostnað af flutning þeirra.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Ráðning Tómstundafulltrúa Strandabyggðar

Heiðrún Harðardóttir | 14. október 2024
Gengið hefur verið frá ráðningu Andra Freys Arnarssonar sem Tómstundafulltrúi Strandabyggðar til eins árs. Hann mun einnig sjá um húsvörslu Félagsheimilisins og mun bjóða upp á tónlistarnámskeið. Hann mun hefja störf nú þegar. 

Andri Freyr hefur mikla reynslu af því að vinna með börnum og unglingum, sem leiðbeinandi í leikskóla og á frístundaheimilum, hann hefur hlotið réttindi frá Knattspyrnuþjálfaraskóla KSÍ og þjálfað börn, unglinga og ungmenna í knattspyrnu. Einnig hefur hann unnið ýmis fjölbreytt verkefni á sviði tónlistar, kvikmynda og viðburðahalds. 

Við bjóðum Andra Frey velkominn til starfa hjá Strandabyggð og hlökkum til samstarfsins.

Sveitarstjórnarfundur 1369 í Strandabyggð

Heiðrún Harðardóttir | 04. október 2024

Sveitarstjórnarfundur 1369 í Strandabyggð 

Fundur nr. 1369 í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 8. október kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Vantraust tillaga á oddvita Strandabyggðar
  2. Viðauki IV
  3. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga
  4. Minnisblað KPMG vegna greiðslna til Jóns Jónssonar og tengdum stofnunum/fyrirtækjum – 28.9.24
  5. Tillögur Strandanefndarinnar
  6. Gjaldskrá v. byggingarleyfa, leiðrétting v. grunnupphæða
  7. Erindi frá UMF Geislanum varðandi uppsetningu á klifurvegg 3.10.24
  8. Erindi frá foreldrum í dreifbýli varðandi skólaakstur og frístundastarf – 25.9.24
  9. Verkefni sveitarstjóra, september 2024
  10. Forstöðumannaskýrsla vegna september 2024
  11. Gjöf til Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna – 26.9.24
  12. Samband íslenskra sveitarfélaga – Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga
  13. Afstaða varðandi EarthCheck
  14. Fundargerð Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar – 26.9.24
  15. Fundargerð 54. fundar Velferðarnefndar 16.09.24
  16. Fundargerð verkefnisstjórnar Sterkra Stranda – 19.09.24
  17. Fundargerð 7. fundar svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða 9.9.24
  18. Fundargerð 63. stjórnarfundar FV/Vestfjarðastofu frá 25.9.24
  19. Fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands nr. 465
  20. Fundargerð 149 fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarðarsvæðis 19.09.24 ásamt fjárhagsáætlunar.
  21. Fundargerðir 951 og 952 fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga. 30.08.24 og 27.09.24

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

 

Þorgeir Pálsson

Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir

Óskar Hafsteinn Halldórsson

Matthías Sævar Lýðsson

Hlíf Hrólfsdóttir

 

Strandabyggð 4. október

Þorgeir Pálsson oddviti

Úttekt KPMG á greiðslum til Jóns Jónssonar og tengdum stofnunum/fyrirtækjum

Salbjörg Engilbertsdóttir | 30. september 2024

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar þann 9. júlí 2024 var eftirfarandi samþykkt samhljóða:

Tillaga:
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að leitað verði til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, sem annast endurskoðun ársreikninga sveitarfélagsins, um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.
Við fyrrgreinda úttekt verði lagt mat á hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar.
Fyrrgreindri úttekt skal lokið við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 30. september næstkomandi. Niðurstöður úttektarinnar skulu kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Tillagan er borin undir atkvæði sveitarstjórnar og er hún samþykkt samhljóða.
Sveitarstjórn felur jafnframt varaoddvita og skrifstofustjóra að senda beiðni til endurskoðanda sveitarfélagsins um að gera úttektina samkvæmt tillögunni.

Endurskoðunarfyrirtæki KPMG hefur nú unnið úttektina og skilað minnisblaði sem má finna hér, niðurstöður úttektarinnar eru sem hér segir:

"Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirætkja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar." Vísað er í samninga Strandabyggðar við Strandagaldur ses og Sauðfjársetur ses.

Fram kemur einnig í úttektinni að Jón Jónsson hafi setið í stjórn Strandagaldurs ses frá nóvember 2018 til maí 2024 en hafði áður verið í stjórn til ársins 2007. Strandagaldur ses er sjálfseignarstofnun og því er ekki um eiginlega eigendur að ræða að félaginu. Samningar milli Strandagaldurs ses og Strandabyggðar eru styrktar- og samstarfssamningar. Í samningum er fjallað meðal annars um markmið og tilgang hans, árlegt fjárframlag og skuldbindingar vegna fjárframlags. Á tímabilinu 2010 til 2020 tóku samningarnir vegna reksturs Upplýsingamiðstöðvar á Hólmavík.

Sömuleiðis kemur fram að Sauðfjársetur á Ströndum ses var stofnað árið 2009 og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var Jón Jónsson aldrei í stjórn þess. Sauðfjársetur á Ströndum ses er sjálfseignastofnun og því ekki um eiginlega eigendur að ræða. Sammningar milli Sauðfjárseturs á Ströndum ses og Strandabyggðar eru styrktar- og samstarfssamningar og í þeim fjallað um markmið og tilgang, árlegt fjárframlag og skuldbindingar vegna fjárframlags. 

28. september 2024 KPMG

slóð á Minnisblaðið

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón