A A A

Valmynd

Fréttir

Barþraut á Café Riis í kvöld

| 29. júní 2011
Góða veðrið nálgast óðfluga!
Góða veðrið nálgast óðfluga!
Það eru sannkallaðir hamingjustraumar sem leika um íbúa í Strandabggð þessa stundina. Fyrir stuttu síðan birti til á Hólmavík og menn litu heiðbláan og bjartan himinn í fyrsta skipti í allnokkurn tíma. Veðurspáin fyrir helgina er góð og bendir margt til þess að einna mestu hlýindin á landinu verði einmitt á Hamingjudögum á Hólmavík.

Í gær var frábært námskeið í hláturjóga í félagsheimilinu sem var vel sótt af konum á öllum aldri (en engum karlpeningi). Í kvöld verður hátíðinni haldið áfram, en þá fer fram Pub Quiz í Pakkhúsinu á Café Riis. Atburðurinn hefst kl. 21:00, en stjórnandi og spyrill er hin góðkunna Halla Steinólfsdóttir, bóndi í Ytri-Fagradal. Strandamenn eru hvattir til að mæta á atburðinn, ekkert kostar inn en til mikils er að vinna!
 

Fáðu þér hamingjulag - í dag!

| 29. júní 2011
Söngsnillingarnar Allý og Elín - ljósm. Arnþór Ingi Jónsson
Söngsnillingarnar Allý og Elín - ljósm. Arnþór Ingi Jónsson
« 1 af 4 »
Nú er diskurinn með Hamingjulaginu 2011, Vornótt á Ströndum, loksins kominn út og í sölu. Lagið vann fimm önnur lög í lagasamkeppni sem var haldin á Hólmavík þann 20. maí, en höfundur lags og texta er Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík. Lagið var tekið upp í frábærum gæðum af Sigurþóri Kristjánssyni í Stúdíó Gott hljóð í Borgarnesi en meðlimir í hljómsveitinni Festival spiluðu lagið. Útsetning lagsins er að miklu leyti sú sama og í keppninni, en þar var lagið útsett af Bjarna Ómari Haraldssyni á Hólmavík. Flytjendur eru yngismeyjarnar Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir og Elín Ingimundardóttir.

Diskurinn kostar kr. 1.200.- og verður til sölu víða um Hólmavík, m.a. í Kaupfélaginu og á handverksmarkaði Strandakúnstar í Þróunarsetrinu. Einnig er hægt að panta diska í s. 894-1941 eða í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

Hægt er að heyra örstutt sýnishorn af laginu með því að smella hér.
 

Stefnt að Íslandsmeti í hópplanki á Hamingjudögum

| 28. júní 2011
Sveitarstjóri plankar á brúninni - ljósm. Arnar S. Jónsson
Sveitarstjóri plankar á brúninni - ljósm. Arnar S. Jónsson
« 1 af 2 »
Menn gera sér ýmislegt til gamans. Eitt af því sem  hefur farið sigurför um Ísland og heiminn að undanförnu er plankið svokallaða. Plankið snýst í stuttu máli um að menn leggjast á magann, helst á óvenjulegum stað eða aðstæðum, með andlit á grúfu, hendur meðfram síðum með lappir og tær beinar. Plankið er síðan skýrt einhverju nafni og því deilt á internetinu. Fyrirbærið er sannkallaður og óvenjulegur gleðigjafi og skemmtilegt áhugamál svo lengi sem menn fara sér ekki að voða.  

Á föstudegi á Hamingjudögum á Hólmavík er stefnt að því að setja formlegt Íslandsmet í hópplanki með því að fá sem flesta gesti á kvöldvöku á Klifstúni til að planka í einu. Menn eru hvattir til að æfa sig úti í garði fram að hópplankinu. Þeir sem þjást af frjókornaofnæmi ættu þó að fara varlega í að planka í grasinu og rétt er að minna menn á að planka ekki á hættulegum stöðum.  

Meðfylgjandi þessari frétt er mynd sem sýnir hárrétt plank; rétta og fallega líkamsstöðu, óvenjulegan stað og aðstæður og sannkallaða plankgleði og hamingju. Plankarinn er enginn annar en Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar. Vettvangur sveitarstjóraplanksins er Galdrasýning á Ströndum. Ingibjörg mun einmitt halda setningarræðu Hamingjudaga á kvöldvökunni á föstudagskvöldið næsta.  

Sjáið dagskrá Hamingjudaga með því að smella hér.
 

Ljósmyndasýningin "Una" eftir Tinnu Schram í Hólmakaffi

| 28. júní 2011
Ljósmyndasýningin Una - ljósm. Tinna Schram.
Ljósmyndasýningin Una - ljósm. Tinna Schram.
Þrjár flottar listsýningar koma til með að prýða Hamingjudaga í ár. Sú fyrsta sem kynnt var til leiks hér á vefnum var mósaikverkasýning og vinnustofa Ernu Bjarkar Antonsdóttur á neðstu hæð Þróunarsetursins og önnur sýningin var samsýning feðginanna Valgerðar Þóru Elfarsdóttur og Elfars Guðna Þórðarsonar. Hér er þriðja sýningin kynnt til leiks.

Una er ljósmyndasýning eftir reykvíska ljósmyndarann með Strandahjartað, Tinnu Schram. Tinna útskrifaðist úr Tækniskólanum síðastliðið vor með burtfararpróf í ljósmyndun. Sýningin sem hún  setur nú upp á Hólmakaffi var áður uppi á kaffihúsinu Öndinni í Ráðhúsi Reykjavíkur.    

Myndirnar á sýningunni eru 9 talsins og eru allar af Unu Gíslrúnu Kristinsdóttur Schram, ungri blómarós sem er einmitt búsett á Hólmavík.  Myndirnar eru allar teknar á einni kvöldstund í leik, gleði og hamingju.

Sýningin verður uppi í Hólmakaffi 1.-3. júlí og hægt verður að skoða hana milli kl. 10:00 og 18:00 alla dagana.

Listverkasýning Valgerðar Elfarsdóttir og Elfars Þórðarsonar á Hamingjudögum

| 27. júní 2011
Valgerður og Elfar verða í Ráðaleysinu
Valgerður og Elfar verða í Ráðaleysinu
« 1 af 4 »

Þrjár flottar listsýningar koma til með að prýða Hamingjudaga í ár. Sú fyrsta sem kynnt var til leiks hér á vefnum var mósaikverkasýning og vinnustofa Ernu Bjarkar Antonsdóttur á neðstu hæð Þróunarsetursins. Hér er önnur sýningin kynnt til leiks.

Feðginin Elfar Guðni Þórðarson og Valgerður Þóra Elfarsdóttir frá Stokkseyri verða með samsýningu í Ráðaleysinu á Hamingjudögum. Sýningin verður opin frá kl. 13:00-18:00 dagana 1.-3. júlí.

Elfar Guðni Þórðarson er sjálfmenntaður í myndlist og hefur verið að mála síðan 1974. Hann málar olíumálverk í öllum stærðum og gerðum og hefur einnig t.d. málað á möppur sem eru nýttar sem gestabækur. Elfar hefur haldið margar sýningar víða um land og vakið athygli, m.a. fyrir geysistórt verk, Brennið þið vitar, sem hann málaði og útbjó í minningu Páls Ísólfssonar tónskálds. Hann er með vinnustofu og gallerí í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.  

Valgerður Þóra Elfarsdóttir byrjaði að vinna mósaikverk fyrir ellefu árum. Hún hefur síðan þá unnið fjölbreytt verk og notar gjarnan efni úr náttúrunni til sköpunar; t.d. rekavið, grjót og sand úr fjörum landsins. Því má segja að hún sé á heimavelli í fjörunum á Ströndum. Valgerður hefur þróað listaverk sín í gegnum tíðina og prófað nýjan efnivið á borð við fjöruugler, kuðunga, skeljar og fjörusand. Eins og Elfar er hún með vinnuaðstöðu í Menningarverstöðinni á Stokkseyri.

Skráðu þig á hláturjóganámskeið... núna :)

| 26. júní 2011
Nú styttist í að fyrsti atburður Hamingjudaga renni upp - menn þurfa að skrá sig til leiks sem allra fyrst! Það er námskeið í hláturjóga, en tilgangurinn með slíku jóga er að efla og styrkja líkama, huga og sál með hláturæfingum af margvíslegu tagi.  Það er Ásta Valdimarsdóttir sem kennir, en hún lærði hláturjóga í Noregi 2001 og hefur síðan haldið fjölmörg námskeið um fyrirbærið á Íslandi og í Noregi. Námskeiðið fer fram þriðjudaginn 28. júní, hefst kl. 19:00 og tekur þrjá tíma. Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að jákvæð viðbrögð líkamans eru þau sömu hvort sem hláturinn er sjálfsprottinn eða kallaður fram án tilefnis.    

Skráning á námskeiðið fer fram í síma 894-1941 eða í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is. Verð á námskeiðið er kr. 2.900, en afrakstur þess nýtist fólki alla ævi. Ekki missa af þessu!!
 

Dagskráin komin inn!

| 23. júní 2011
Þá er búið að birta dagskrá Hamingjudaga fyrir árið 2011 hér á vefnum. Hún er ekki alveg endanleg, en er þó afskaplega nálægt því. Endilega kíkið á hana með því að smella hér og deilið henni með eins mörgum og þið mögulega getið á Facebook, Twitter o.s.frv. Dagskráin verður síðan gefin út í "föstu formi" og send með landpóstinum til allra Strandamanna og fjölmargra nágranna þeirra nk. mánudag. Þangað til er rétt að fylgjast vel með hér á vefnum! :)
 

Pollapönkarar mæta á Hamingjudaga!!

| 22. júní 2011
Litríkir Pollapönkarar
Litríkir Pollapönkarar
Hamingjudagar fá aldeilis frábæra gesti á kvöldvöku á Klifstúni föstudagskvöldið 1. júlí. Það eru engir aðrir en snillingarnir í Pollapönk sem ætla að kíkja á svæðið og sparka hamingjunni í gang með útitónleikum fyrir gesti Hamingjudaga. 

Hljómsveitin hefur gefið út plöturnar Pollapönk og Meira Pollapönk, en hljómsveitin er skipuð leikskólakennurunum og pönkurunum Haraldi F. Gíslasyni og Heiðar Erni Kristjánssyni sem hafa oft verið kenndir við rokksveitina Botnleðju. Með þeim í hljómsveitinni spila og syngja Arnar Þór Gíslason og Guðni Finnsson úr Ensími.

Það ætti enginn að verða svikinn af þessari frábæru heimsókn þeirra félaga, en ef svo ólíklega vill til að menn verði fyrir vonbrigðum er alla vega tryggt að vælubíllinn verður á svæðinu líka :)
 

Undir áhrifum náttúrunnar - listverkasýning

| 22. júní 2011
Sýningin Undir áhrifum náttúrunnar
Sýningin Undir áhrifum náttúrunnar
Þrjár flottar listsýningar koma til með að prýða Hamingjudaga í ár. Hér er sú fyrsta kynnt til leiks.
Erna Björk Antonsdóttir sýnir mósaikverk sín á neðstu hæð Þróunarsetursins (í gamla kaupfélaginu) um Hamingjudaga. Erna  nam í Mosaic Art School í Ravenna á Ítalíu, en verk hennar hafa sterkar tengingar í íslenska náttúru. Nýtir hún m.a.steina og skeljar í myndverkin og hefur undanfarið unnið verk af fiskum og skelfiskum úr smalti. Lítið sjávarþorp eins og Hólmavík hæfir því vel sem umgjörð um verk Ernu Bjarkar sem mun einnig vinna verk á meðan á sýningunni stendur. Gestir og gangandi fá því gullið tækifæri til að að sjá handtökin sem skapa þessi einstöku listaverk. Nánar má fræðast um þau á vefnum www.mosaic.is.
  

Frábærar smiðjur í boði fyrir börn og unglinga

| 21. júní 2011
Origamisnillingarnir Bjössi og Jonni í smiðjuhug
Origamisnillingarnir Bjössi og Jonni í smiðjuhug

Það verða ekki bara smiðjur fyrir fullorðna fólkið á Hamingjudögum (sjá hér og hér). Börn og unglingar fá tækifæri til að sækja ókeypis smiðjur í Félagsheimilinu á Hólmavík. Í raun er um að ræða fjórar smiðjur - flugdrekasmiðju, tilraunasmiðju, origamismiðju og töfrasmiðju - sem verða í gangi frá kl. 10:00-12:00 laugardaginn 2. júlí.

Þeir Björn Finnsson og Jón Víðis Jakobsson hafa umsjón með smiðjunum, en þeir hafa mikla reynslu af vinnu með ungu fólki. Þeir verða einnig á hátíðarsvæðinu á laugardeginum milli kl. 13:00 og 17:00 með blöðrur og origami... og kannski koma nokkrar kanínur úr hatti töframannsins!
 

Eldri færslur

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón