| 06. júní 2011
Almennur íbúafundur vegna Hamingjudaga verður haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 9. júní kl. 20:30.
Á fundinum verður farið yfir ítarleg drög að dagskrá Hamingjudaga, en hún er óðum að fæðast þessa dagana. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar mun fara yfir einstaka dagskrárliði á fundinum og þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á hátíðinni nú í ár. Einnig verður m.a. skýrt frá því hvaða aðilar munu sjá um að vera skreytingastjórar fyrir hvert hverfi fyrir sig.
Í framhaldi af fundinum sjálfum gefst síðan tækifæri fyrir íbúa í hverju hverfi fyrir sig til að setjast niður með sínum skreytingastjórum og kortleggja hvernig fara eigi með sigur af hólmi í skreytingakeppninni, en eins og á síðasta ári verða veitt verðlaun fyrir best skreytta húsið / lóðina, best skreytta hverfið, besta slagorðið og flottustu fígúruna.
Að sjálfsögðu verður heitt á könnunni á fundinum, góð stemmning mun svífa yfir vötnum og lögin um hamingjuna verða á grammófóninum. Þetta er eini almenni íbúafundurinn sem verður haldinn í tengslum við Hamingjudaga - ekki missa af honum!