A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fundargerð Sterkra Stranda, 20.12.2024

Heiðrún Harðardóttir | 16. janúar 2025
Fundargerð
Verkefnisstjórnar Sterkra Stranda, haldinn í gegnum fjarfundabúnað, þann 20. desember 2024.

Mætt til fundar: Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Kristján Þ. Halldórsson (formaður) og Magnea Garðarsdóttir. Einnig sat fundinn Sigurður Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda, sem ritar fundargerð. 

Fjarverandi voru Guðrún Ásla Atladóttir og Þorgeir Pálsson. 

Fundur settur 10.02. Því næst gengið til dagskrár:

Dagskrá:

1. Umræður um dagskrá íbúafundar.
Að undangengnum umræðum var eftirfarandi dagskrá ákveðin:
Íbúafundur þann 20. febrúar 2025, kl. 18.00 í Félagsheimili Hólmavíkur. 
  1. Inngangsorð Byggðastofnuna (5 mínútur)
  2. Yfirferð verkefnisstjóra (25 mínútur)
  3. Íbúakönnun kynnt (20 mínútur)
  4. Kynning á framhaldi verkefnisins frá Strandabyggð (10 mínútur)
  5. Matarhlé (20 mínútur)
  6. Kynning verkefna (10 mínútur x 3 - Fine Foods, Galdur, Norðurfjara til dæmis)
  7. Hópavinna undir stjórn Strandabyggðar (30 mínútur)
  8. Kynning niðurstaðna (10 mínútur)
  9. Lokaorð Byggðastofnuna (5 mínútur)
  10. Fundarlok áætluð 20:40
Aðalsteinn Óskarsson verður fundarstjóri.

Skipulag og framkvæmd íbúafundar er á ábyrgð og framfæri Strandabyggðar. Vestfjarðastofa og Byggðastofnun eru reiðubúin til liðsinnis, sé þess óskað. 

Fleira ekki gjört. Fundi slitið kl 10.41.

Fundargerð Sterkra Stranda, 12.12.2024

Heiðrún Harðardóttir | 16. janúar 2025
Fundargerð
Verkefnisstjórnar Sterkra Stranda, haldinn í gegnum fjarfundabúnað, þann 12. desember 2024.

Mætt til fundar: Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Kristján Þ. Halldórsson (formaður), Magnea Garðarsdóttir og Þorgeir Pálsson. Einnig sat fundinn Sigurður Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda, sem ritar fundargerð. 

Fjarverandi var Guðrún Ásla Atladóttir. 

Formaður býður fundarmenn velkomna og býður Þorgeir Pálsson sérstaklega velkominn í stjórn verkefnisins. Fundur settur 14.38. Því næst gengið til dagskrár: 

Dagskrá:

1. Uppfærsla frá Byggðastofnun um stöðu undirbúnings íbúakönnuna. 
Kristján reifar málið og stöðu þess. Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri mun sjá um framkvæmdina. Niðurstaða þeirra að vænta upp úr miðjum febrúar. 

2. Dagsetning íbúafundar endurskoðuð með tilliti til ofangreinds, sé ástæða til.
Ákveðið að halda íbúafund 20. febrúar kl 18:00. Dagskrá íbúafundar rædd. Sigurður mun fara yfir verkefnið, Byggðastofnun heldur kynningu, niðurstöður rannsóknar RHA verða kynntar, og Þorgeir kynnir framhaldslíf verkefnisins fyrir hönd Strandabyggðar. Sigurði einnig falið að ræða við Fine Foods Islandica um að kynna næstu skref sinna verkefna með einhverjum hætti, og líka rætt um mögulega aðkomu fleiri styrktra verkefna. 

3. Sigurður fer yfir stöðu styrktra verkefna hvað varðar skýrsluskil og frágang. 
Það eru 6 verkefni frá 2024 sem ekki hafa skilað skýrslu, en frestur er til 15. desember. 1 verkefni frá 2022 er ólokið. Sigurði falið að taka ákveðin skref til að freista þess að ljúka því máli án þess að til íþyngjandi innheimtuaðgerða þurfi að koma. 

Ákveðið að hittast aftur á fundi föstudaginn 20. desember til að ganga frá dagskrá íbúafundar endanlega. 

Fleira ekki gjört. Fundi slitið 16.00.

Fundargerð Sterkra Stranda, 21.11.2024

Heiðrún Harðardóttir | 16. janúar 2025
Fundargerð
Verkefnisstjórnar Sterkra Stranda, haldinn í gegnum fjarfundabúnað þann 21. nóvember 2024.

Mætt til fundar: Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Kristján Þ. Halldórsson (formaður) og Magnea Garðarsdóttir. Einnig sat fundinn Sigurður Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda, sem einnig ritar fundargerð. 

Fjarverandi voru: Guðrún Ásla Atladóttir, og Helga Harðardóttir í upphafi fundar. 

Enginn fulltrúi Strandabyggðar situr nú í stjórn Sterkra Stranda eftir að Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir sagði sig úr sveitarstjórn og frá öllum trúnaðarstörfum fyrir hönd sveitarfélagsins. 

Formaður býður fundarmenn velkomna og gefur Sigurði orðið. Fundur settur kl 15:14. Því næst er gengið til dagskrár: 

1. Dagsetning íbúafundar 2025
Fram er komin tillaga um að halda íbúafund þann 11. janúar sem er laugardagur. Að undangenginni umræðu er ákveðið að halda íbúafund fimmtudaginn 9. janúar kl. 18:00.

2. Framgangur verkefni
Einu verkefni er ólokið frá 2022 og tólf frá 2024.

3. Önnur mál
Almennar umræður um stöðu mála í sveitarfélaginu og dagskrá íbúaþings; m.a. rætt um nauðsyn þess að fá upplýsingar um framhaldslíf verkefnisins í takt við samninga þar um hjá sveitarstjórn. Fulltrúar Byggðastofnunar ræddu einnig möguleika á að leggja könnun fyrir íbúa um verkefnið og stöðu samfélagsins og kynna á íbúafundi. Helga Harðardóttir kom til fundar undir þessum lið, kl. 15:45.

Ákveðið að halda næsta fund verkefnisstjórnar þann 12. desember næstkomandi þegar að sveitarstjórn hefur skipað nýjan fulltrúa í verkefnisstjórn, 

Fleira ekki gjört. Fundi slitið kl 16.00.

Fundargerð Sterkra Stranda, 19.09.2024

Heiðrún Harðardóttir | 16. janúar 2025

Fundargerð verkefnisstjórnar Sterkra Stranda
Fundur haldinn í fjarfundarbúnaði þann 19. september 2024

Mætt: Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Guðrún Ásla Atladóttir, Helga Harðardóttir, Kristján Þ. Halldórsson, Magnea Garðarsdóttir og Sigríður Jónsdóttir. Auk þeirra sam Sigurður Líndal, verkefnisstjóri, fundinn og ritaði fundargerð.

Fundur settur kl 15:05. Þá var gengið til dagskrár.

Fundardagskrá:

1. Frumkvæðissjóður
Sigurður reifaði stöðu verkefna, einu verkefni er ólokið frá 2022 og einu frá 2023. Þrjú verkefni frá þessu ári hafa þegar skilað samþykktri lokaskýrslu. Fimmtán verkefni enn í vinnslu. 

2. Tillaga um frestun íbúafundi fram yfir áramót
Fram hefur komið tillaga um að fresta íbúafundi fram yfir áramót. Að undangengnum umræðum samþykkt að hafa fund 16. janúar 2025.

3. Erindi til sveitarstjórnar Strandabyggðar um skipulag verkefnisloka
Sigurði og Kristjáni falið að senda sveitarfélaginu bréf um ofangreint fyrir fund sveitarstjórnar 8. október 2024.

4. Önnur mál
Fleira ekki gjört.

Fundi slitið kl. 15:53.

Fundargerð Sterkra Stranda

Salbjörg Engilbertsdóttir | 16. maí 2024

Fundargerð verkefnisstjórnar Sterkra Stranda
haldinn í fjarfundabúnaði þann 5. apríl 2024 kl. 13:00

Kristján Þ. Halldórsson (formaður), Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Guðrún
Ásla Atladóttir, Helga Harðardóttir og Magnea Garðarsdóttir. Auk þess sat fundinn Sigurður
Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda, sem ritar fundargerð.

Sigríður Jónsdóttir lýsti sig vanhæfa til að taka þátt í úthlutunarferlinu með símtali til
verkefnisstjóra kl. 13.11

Fundur settur 13.18 og gengið til dagskrár.

Aðeins eitt mál var á dagskrá, úthlutun úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda 2024.
Auglýst var eftir styrkumsóknum þann 2. febrúar 2024. Alls voru að þessu sinni til úthlutunar
kr. 23.500.000 kr.

Frestur til að skila inn umsóknum var til 26. febrúar 2024 og bárust alls 33 umsóknir um styrki.
Heildarfjárhæð styrkumsókna nam kr. 87.141.343 kr.- en til ráðstöfunar voru, sem fyrr segir,
23.500.000.

Kl. 15:05 var fundi frestað með samþykki allra fundarmanna.

Fundi framhaldið kl. 10:30 þann 9. apríl.

Að undangengnum umræðum og gaumgæfilegri yfirferð gagna var ákveðið að átján verkefni
fengju styrki í þessari síðustu úthlutun Sterkra Stranda, en yfirlit styrktra verkefna má sjá hér
að neðan.

Styrkþegi Verkefnisheiti Styrkloforð

Galdur brugghús Kuklið - frumkvöðlasetur matvæla 3.000.000

Ólafur Númason Norðurfjara 3.000.000

Galdur brugghús Equipment upgrade and growth 2.500.000

Valgeir Örn Kristjánsson Strandagluggar og hurðir. 2.500.000

Úr sveitinni ehf Strandarætur 2.200.000

Fine Foods Íslandica ehf,Sveppasmiðja ehf Co-production space at Kuklið to strengthen Strandabyggð businesses 2.200.000

Skíðafélag Strandamanna Bætt aðstaða í skíðaskála 2.000.000

H&H þjónusta Uppbygging á Smiðjunni. 800.000

Röfn Friðriksdóttir Stofa 750.000

Arnkatla lista- og menningar Galdrafár á Ströndum 750.000

Pakkhúsið Vík ehf Aukið vöruval í Pakkhúsinu 700.000

Ágúst Helgi Sigurðsson Hagkvæmnisathugun vegna steypustöðvar á Hólmavík 600.000

Sögusmiðjan Kortlagning gönguleiða í nágrenni Hólmavíkur 600.000

Sauðfjársetur á Ströndum ses Minningatorg og sögusýning við Sævang 500.000

Sauðfjársetur á Ströndum ses Fjárréttir fyrr og nú 500.000

Fjölmóður Fróðskaparfélag á Ströndum Ráðstefnustaðurinn Strandir 350.000

Skíðafélag Strandamanna Trékyllisheiðin 17. ágúst 2024 - utanvegahlaup 300.000

Leikfélag Hólmavíkur Leikrit í fullri lengd 250.000

Fleira ekki gjört. Fundi slitið 11:05

Fundargerð Sterkra Stranda 1. febrúar 2024

Salbjörg Engilbertsdóttir | 13. mars 2024
Fundargerð verkefnisstjórnar Sterkra Strandafundur haldinn í fjarfundarbúnaði þann 1. febrúar 2024

Mætt: Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Guðrún Ásla Atladóttir, Helga
Harðardóttir, Magnea Garðarsdóttir og Sigríður Jónsdóttir. Auk þeirra sat Sigurður Líndal, verkefnisstjóri, fundinn og ritaði fundargerð. Fjarstaddur: Kristján Þ. Halldórsson (formaður)
Sigurður stjórnar fundinum í fjarveru formanns með leyfi fundarins. Fundur settur kl. 13:05. Þá var gengið til dagskrár.

Fundardagskrá:

1. Frumkvæðissjóður

a. Staða styrktra verkefna fyrri ára (sjá viðhengi)

Sigurður reifaði stöðu verkefna og lagði fram til fundarins framkomnar beiðnir um framlengingu skilafrests. Fundurinn samþykkti allar framkomnar beiðnir um framlengingu (sjá viðhengi).

b. Auglýsing úthlutunar 2024 (sjá viðhengi)

Framlögð drög að auglýsingu samþykkt og enn fremur samþykkt að opna fyrir umsóknir föstudaginn 3. febrúar. Magnea tók að sér að tryggja að réttur hlekkur á viðauka 5 fylgi auglýsingunni.

c. Skipan undirbúningshóps úthlutunar.

Ákveðið að skipa þau Magneu Garðarsdóttur, Kristján Þ. Halldórsson og Sigríði Jónsdóttur í undirbúningshóp úthlutunar úr Frumkvæðissjóði.

2. Áherslur íbúaþings (sjá viðhengi)

Samantekt verkefnisstjóra á áherslum íbúaþings yfirfarin og nokkrar breytingar gerðar.
Samþykkt lokaútgáfa viðhengd.

3. Uppfærsla um tengd verkefni

a. Gálmaströnd


Jarðhitaleit á Gálmaströnd hefur verið hætt í bili án árangurs. Ýmsar ástæður liggja
þar að baki; áfallinn kostnaður var orðinn meiri en áætlað var, skortur var á köldu
vatni, borinn var knúinn áfram af jarðefnaeldsneyti sem er afar dýrt og nýja holan
var óviðundandi af fjölda ástæða. Verkefnið þarfnast verulegra fjármuna eigi borun
að geta hafist á nýjan leik.

b. Sértækur byggðakvóti

Umsóknarferli er lokið hjá Byggðastofnun og vænta má næstu skrefa frá stofnuninni
á allra næstu dögum.

c. Strandanefnd

Fyrsti fundur nefndarinnar verður haldinn 2. febrúar 2024. Helga Harðardóttir,
stjórnarmaður í Sterkum Ströndum, situr í nefndinni og Sigurður Líndal,
verkefnisstjóri, verður nefndinni innan handar sem sérfræðingur. Verkefnisstjórn
væntir mikils árangurs af störfum nefndarinnar, sérstaklega hvað varða beinar og
tafarlausar aðgerðir.

d. Húsnæði Hólmadrangs

Verkefnisstjóri hefur, að beiðni fulltrúa eiganda Hólmadrangs, setið í vinnuhópi
hvers hlutverk er að leita að framtíðarhlutverki fyrir fasteignir fyrirtækisins. Nokkrir
áhugasamir aðilar hafa komið að máli við fulltrúa eigenda, en ekkert er í hendi.

4. Önnur mál

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 15:40.


Fundargerð 9. nóvember 2023

Salbjörg Engilbertsdóttir | 13. desember 2023

Fundargerð verkefnisstjórnar Sterkra Stranda haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9.11.2023

Mætt til fundar: Kristján Þ. Halldórsson (formaður), Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp
Valdimarsdóttir, Guðrún Ásla Atladóttir, Helga Harðardóttir, Magnea Garðarsdóttir, Sigríður
Jónsdóttir. Auk þess sat fundinn Sigurður Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda, sem ritar
fundargerð.

Formaður verkefnisstjórnar setti fundinn 15:03 og bað um afbrigði frá auglýstri dagskrá og
leggur fram drög að bókun verkefnisstjórnar. Fundarmenn samþykkja að taka málið á dagskrá.

Eftirfarandi bókun samþykkt að undangengnum umræðum:

„Á fundi sínum þann 4. nóvember 2023 tók stjórn Byggðastofnunar ákvörðun um að
framlengja verkefnið Sterkar Strandir um eitt ár, til loka árs 2024. Því er verkefnisstjórn
umhugað um að nýta viðbótartímann sem best í þágu samfélagsins í Strandabyggð.
Á opinberum vettvangi hefur komið fram að ágreiningur er til staðar í samfélaginu í
Strandabyggð og hefur verkefnisstjórn áhyggjur af að það gæti dregið úr framþróun,
þátttöku og virkni íbúa í verkefninu Sterkar Strandir og þar með árangri verkefnisins.
Verkefnisstjórn Sterkra Stranda mun ekki taka afstöðu í þeim málum sem kunna að
vera orsök ágreinings. Verkefnisstjórn og verkefnisstjóri munu á hinn bóginn beina
kröftum sínum að framfaramálum sem íbúar hafa skilgreint í verkefnisáætlun Sterkra
Stranda, svo og styðja við frumkvæðisverkefni sem til framfara horfa að því marki sem
fjárhagur og kraftar verkefnisins leyfa.
Verkefnisstjórn vill enn fremur hvetja sveitarstjórn til að hafa forgöngu um að leitað
verði sátta í samfélaginu þannig að íbúar Strandabyggðar geti sameinast um að nýta
sér viðbótarár verkefnisins til hins ýtrasta, öllu samfélaginu til heilla.“

Því sem næst gengið til auglýstrar dagskrár.1. Umræður um dagskrá íbúaþings

a. Orkusetur býður fram fjarkynningu á breyttu umhverfi reglugerða varðandi
kyndingu á köldum svæðum. Samþykkt að þiggja myndbandskynningu ef
algerlega ómögulegt reynist að fá fulltrúa á staðinn. Sigurði falið að vinna
málið áfram.

b. Magnús Bjarnason frá Vestfjarðastofu verður með kynningu á
greiningarvinnu sinni á innviðum á Ströndum. Erindi samþykkt inn á
íbúafund.

c. Hótelkynning. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri, býður fram kynningu á
fyrirhuguðum framkvæmdum og skipulagi í tengslum við fyrirhugaða
hótelbyggingu á Hólmavík. Fundarmenn lýstu ákveðnum vonbrigðum yfir
því að fjárfestar sjálfir kæmu ekki til að flytja kynninguna og svara
spurningum fundarmanna. Samþykkt að fela Sigurði að halda samtalinu
áfram og finna leiðir til að nýta tæknina til að safna spurningum saman til
að koma til framkvæmdaaðilana, til dæmis með því að nota Slido.

d. Sigurður mun gera grein fyrir stöðu verkefna og markmiða á fundinum.
Fundarmönnum verður falin forgangsröðun verkefna á framlegningarárinu.

2. Uppfærsla frá verkefnastjóra um gang mála í hinum ýmsu verkefnum
Sigurður fór yfir ýmis mál sem tengjast Sterkum Ströndum, svo sem ósk
sveitarfélaga á Ströndum til forsætisráðuneytisins um stofnun sérstakrar
Strandanefndar; þingsályktunartillögu um stofnun miðstöðvar þjóðtrúar á
Ströndum; úthlutun Byggðastofnunar á allt að 500 tonna þorskígildiskvóta til
Hólmavíkur; starf minjavarðar á Vestfjörðum; og væntanlega komu borsins Trölla
til Gálmastrandar í heitavatnsleit.

3. Önnur mál
Aðalsteinn skýrði frá samræðum við Vegagerðina og aðra hlutaðeigandi aðila
varðandi vetrarþjónustu á Steingrímsfjarðarheiði.

Fleira ekki gjört. Fundi slitið kl. 16:12

Sterkar Strandir 30.4.2021

Salbjörg Engilbertsdóttir | 15. nóvember 2023


Fundur haldinn í fjarfundarbúnaði þann 28. september 2023
Mætt til fundar: Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Helga Harðardóttir, Magnea
Garðarsdóttir, Kristján Þ. Halldórsson (formaður) og Sigríður Jónsdóttir. Einnig sat fundinn
Sigurður Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda, sem einnig ritar fundargerð.
Fjarstödd: Guðrún Ásla Atladóttir.

Formaður býður fundarmenn velkomna og setur fundinn kl. 15. Gengið til dagskrár.

Dagskrá:

1. Staða aðgerða í verkefnum sem falin hafa verið þingmönnum.
Sigurður fer yfir stöðu þessara mála, en þingmenn tóku að sér að vinna að ýmsum
verkefnum Ströndum til heilla, í framhaldi af rekstrastöðvun Hólmadrangs. Verkefnin er
mjög misjafnlega langt komin, og þingmenn hafa verið misgóðir við að halda sambandi
við verkefnisstjóra. Vonir standa samt til að einhver þessara verkefna verði að veruleika.

2. Staða verkefna sem styrkt hafa verið af Frumkvæðissjóði.
Tvö verkefni hafa skilað lokaskýrslu á síðustu dögum, og vona á fleiri lokaskýrslum. Því
er aðeins fjórum verkefnum ólokið frá 2022, öllum verkefnum frá 2021 og 2020 lokið,
og nokkrum verkefnum frá 2023 lokið nú þegar. Því má segja að verkefnastaða sé
almennt góð.

3. Íbúafundur
Ákveðið að færa íbúafund til 15. nóvember næstkomandi, með það fyrir augum að
ákvörðun um framlengingu verkefnisins frá stjórn Byggðastofnunar liggi fyrir.4. Önnur mál
Rætt um að óska frekari aðkomu Vinnumálastofnunar að málefnum fyrrum starfsmanna
Hólmadrangs þegar nær líður lokum uppsagnarfrests. Sigurði falið að ræða þetta við
fulltrúa Samherja og sveitarfélagsins.
Sigurði falið að vinna rökstuðning um framhald verkefnisins Sterkar Strandir í tengslum
við umsókn sveitarfélagsins þess efnis þar sem mögulegur ávinningur framlengingar
verði tíundaður.

Fleira ekki gjört.
Fundi slitið 15:46

Fundargerð verkefnastjórnar Sterkra Stranda 24.ágúst 2023

Salbjörg Engilbertsdóttir | 11. október 2023

Verkefnisstjórnar Sterkra Stranda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 24. ágúst 2023, kl. 15:00.
Mætt til fundar: Kristján Þ. Halldórsson (formaður), Aðalsteinn Óskarsson, Esther Ösp
Valdimarsdóttir, Helga Harðardóttir, Magnea Garðarsdóttir, Sigríður Jónsdóttir.

Fjarstödd: Guðrún Ásla Atladóttir

Fundur settur 15.04 og gengið til dagskrár.

1. Kynning nýs stjórnarmanns frá Vestfjarðastofu
Magnea Garðarsdóttir tekur nú sæti í verkefnisstjórn í stað Agnesar Arnardóttur sem
horfin er til annarra starfa. Stjórnarmenn buðu Magneu velkomna til starfa

2. Staða verkefna vegna lokunar Hólmadrangs
Sigurður fór yfir helstu verkefni sín sem sprottin eru af þessum alvarlega atburði í
atvinnusögu Hólmavíkur og nágrennis, en vinnan hefur mestmegnis verið tvíþætt:

a. Gagnvart þingmönnum
Sigurður kynnti fyrir stjórn þá vinnu sem ráðist var í með þingmönnum
kjördæmisins og lagði fram þau gögn sem þingmönnum voru afhend. Ákveðnir
þingmenn fengu sérstök verkefni til úrvinnslu og er beðið niðurstöðu þeirrar
vinnu, sem tafist hefur sökum sumarleyfa.

b. Gagnvart Samherja
Sigurður greindi frá störfum sínum í stýrihópi aðgerða ásamt sveitarstjóra,
fulltrúa Samherja og fyrsta þingmanni kjördæmisins annarsvegar, og í
verkefnahópi um gamla sláturhúsið hinsvegar.

3. Staða skólamála í Strandabyggð
Hér er umræðu til upplýsingar framhaldið frá fyrri fundum. Sigríður upplýsti
fundarmenn um stöðu mála hvað varðar byggingaframkvæmdir sem ráðist var í sökum
myglu sem greindist í grunnskólanum. Þrátt fyrir að framkvæmdir gangi vel er enn ekki2
hægt að segja með vissu hvenær skólabörn verði öll undir einu þaki á nýjan leik, þó
vonir standi til að þess sé ekki langt að bíða.

4. Dagsetning íbúafundar Sterkra Stranda
Stjórn samþykkir að íbúafundur verði haldinn 25. október næstkomandi.

5. Önnur mál
Almennar umræður um stöðu sveitarfélagsins og verkefnisins.

Fleira ekki gjört, fundi slitið 15.59

Sterkar Strandir fundargerð frá 17.4.2023

Salbjörg Engilbertsdóttir | 15. maí 2023

Verkefnisstjórnar Sterkra Stranda, fundur haldinn í fjarfundabúnaði þann 17/4/2023 kl. 15:00.
Mætt til fundar: Kristján Þ. Halldórsson (formaður), Agnes Arnardóttir, Aðalsteinn Óskarsson,
Esther Ösp Valdimarsdóttir og Sigríður Jónsdóttir.
Fjarverandi voru Helga Harðardóttir og Guðrún Ásla Atladóttir.
Einnig sat fundinn Sigurður Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda, sem ritar fundargerð.
Kristján býður fundarmenn velkomna, setur fundinn, og gengur til dagskrár.

1. Kristján fer yfir fund sinn og sveitarstjórnar
Kristján greinir fundarmönnum efnislega frá fundi sínum með sveitarstjórn Strandabyggðar og
fer yfir minnispunkta frá fundinum. Því næst hófust umræður um stöðu verkefnisins gagnvart
augljósum sárindum í samfélaginu og um hugsanlega framlengingu verkefnisins.
Ákveðið að í framhaldi fundarins sendi Sigurður erindi til sveitarstjóra með beiðni um reglulega
fundi mánaðarlega með sveitarstjóra og fulltrúa sveitarstjórnar í verkefnisstjórn Sterkra
Stranda.

2. Úthlutunarathöfn
Samþykkt tillaga verkefnisstjóra um að úthlutunarathöfn verði haldin kl. 17. þann 26. apríl nk.
í Skíðaskálanum í Selárdal og veitingar keyptar af Skíðafélagi Strandamanna.

3. Önnur mál.
Agnes tilkynnir verkefnisstjórn að hún muni láta af setu í verkefnisstjórn þar sem hún hverfur
nú til annarra starfa. Fundarmenn færðu Agnesi bestu þakkir fyrir samstarfið og óskuðu henni
velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Fleira ekki gjört.
Fundi slitið kl. 16:00

Fyrri síða
1
2Næsta síða
Síða 1 af 2
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón