A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Samningur við ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála

| 31. mars 2021
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Eins og þið hafið sjáfsagt tekið eftir, var í gær, 30. mars, undirritaður samningur milli Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og sveitarstjórnar Strandabyggðar, um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins.  Það var Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar sem skrifaði undir samninginn á móti Sigurði Inga.

Þessi samningur á sér talsverða forsögu, sem við þekkjum nú orðið nokkuð vel.  Sú mikla skerðing sem varð í fyrra á framlögum Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins, setti öll okkar fjárhagslegu áform og markmið úr skorðum.  Við leituðum til ráðuneytisins í júlí í fyrra og síðan þá hefur verið unnið að því skilgreina aðgerðir og draga upp mynd af þeim stuðningi sem Strandabyggð býðst nú frá ráðherra og hans fólki. Samningurinn felur í sér 30 milljón króna framlag úr Jöfnunarsjóði til Strandabyggar, sem mun nýtast í að laga lausafjárstöðu sveitarfélagsins.  Á móti verður fjárhagslegt aðhald og eftirlit eflt og farið í markvissa vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Strandabyggðar  Þessari vinnu er ætlað að skapa grundvöll fyrir fjárhagsáætlanagerð og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2025 og mótun verkefnaáætlun sveitarstjórnar.  Fyrir lá fjárhagsleg greining frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, sem nýtist nú vel í þessa vinnu.

Og nú hefst vinnan.  Búið er að ráða ráðgjafafyrirtækið Ráðrík til að koma að þessar vinnu með starfsmönnum sveitarfélagsins.  Samhliða verður farið í svokallaða valkostagreiningu, sem miðar að því að kanna kosti og galla einstakra sameiningarkosta við önnur sveitarfélög.  Búið er að ráða ráðgjafafyrirtækið RR Ráðgjöf í þá vinnu með okkur.  Sú vinna er fjármögnuð af Jöfnunarsjóði.

Það er mikil vinna framundan og líklegt að sú naflaskoðun  muni taka eitthvað á.  Margar erfiðar spurningar verða nú lagðar fyrir sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins og við verðum að þora að svara þeim heiðarlega, rýna í forsendur þeirra og leita nýrra leiða til úrbóta. 

Við skulum samt líta á þessa stöðu og þessa vinnu sem tækifæri.  Tækifæri til að endurskoða fjárhagslegar forsendur þeirrar samfélagsmyndar sem við búum við.  Tækifæri til að leita að hagræðingu, skynsamlegum lausnum sem tryggir okkur áfram það þjónustustig sem við þekkjum og viljum.  Samhliða áframhaldandi kostnaðaraðhaldi, ætlum við að skoða ný atvinnutækifæri, nýja tekjustofna og velta fyrir okkur hvernig Strandabyggð getur þróast og hvernig við viljum að sú þróun verði.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Samkomulag undirritað við Strandabyggð um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins

| 30. mars 2021


Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í dag samkomulag við sveitarstjórn Strandabyggðar um að hefja endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins til að unnt verði að ná jafnvægi í rekstri og standast fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. Samkomulagið kveður einnig á um 30 milljóna kr. framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

„Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á gott samstarf við sveitarstjórnarstigið um eflingu þess. Það er ljóst að sveitarfélögin eru misjafnlega í stakk búin til að bregðast við áföllum. Því er mikilvægt að nýta þau verkfæri sem til eru til að styðja sveitarfélög við hagræðingu og stefnumótun til að þau geti staðið undir lögbundinni þjónustu nærsamfélagsins,“ segir Sigurður Ingi.

Ráðuneytið veitti á síðasta ári fjárframlag til að vinna greiningu á fjármálum sveitarfélagsins. Í skýrslu KPMG, sem kynnt var sveitarstjórn í desember 2020, kom fram að venjubundinn rekstur standi ekki undir skuldbindingum sveitarfélagsins og verulegur halli væri fyrirséður á rekstri sveitarfélagsins. Í byrjun mars óskaði sveitarstjórn Strandabyggðar eftir að gera samkomulag við ráðuneytið um fjármál sveitarfélagsins, á grunni heimildar í 83. gr. sveitarstjórnarlaga. Í lögbundinni umsögn eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga var mælt með því samkomulagið yrði gert.

Markmið samkomulagsins eru að stuðla að markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Strandabyggðar, skapa grundvöll fyrir fjárhagsáætlanagerð og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2025 og móta verkefnaáætlun sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Strandabyggðar mun samkvæmt samkomulaginu ráða óháðan ráðgjafa sem vinnur með sveitarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins að fjárhagslegri greiningu og markmiðasetningu. Sveitarstjórnin skuldbindur sig einnig til að vinna að hagræðingu í rekstri og draga úr rekstrarútgjöldum eins og kostur er, jafnframt því sem leitast verður við að auka tekjur. Þá er í samkomulaginu gert ráð fyrir að unnin verði úttekt á kostum sameiningar við önnur sveitarfélög og fjárhagsleg áhrif sameiningar.
Samkomulagið kveður einnig á um 30 milljóna kr. framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sbr. heimild í 84. gr. sveitarstjórnarlaga þar að lútandi. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur samþykkt framlagið fyrir sitt leyti. 


Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar, undirritaði samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins, en með honum fyrir hönd Strandabyggðar var einnig Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri. „Við þökkum ráðherra og starfsfólki hans stuðninginn og lítum á samninginn sem tækifæri fyrir sveitarfélagið til að rýna í innviðina og ná þannig betur utan um fjármál okkar og markmiðasetningu í þeim efnum“ sagði Jón Gísli að undirskrift lokinni.

„Það eru mörg tækifæri í þessu sambandi, sem við munum skoða, og eins og ráðherra benti réttilega á, gæti þarna verið möguleikar fyrir okkur á að sækja í störf án staðsetningar,“ bætti Þorgeir við. „Það er lykilatriði, til lengri tíma litið, að efla atvinnustarfsemi sveitarfélagsins og fjölga þannig tekjustofnum þess,“ sagði Þorgeir að lokum.

Snjór

| 29. mars 2021

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þetta eru skrýtnir tímar og hafa svo sem verið það lengi.  Við erum ekki laus við Covid-19, þvert á móti fjölgar afbrigðum og óvissa um samfélagssmit nagar.  Fólk fer í þúsundum að skoða eldgos, það eru páskar framundan sem verða þó litaðir af hertum takmörkunum, það er kominn snjór aftur og svona mætti lengi telja.

Um daginn gerði hér skot og ófært var á tímabili innanbæjar meðan autt var á vegum utar í firðinum.  Tekin var sú ákvörðun að aflýsa kennslu og voru ekki allir sáttir við þá ákvörðun.  Það er skiljanlegt þar sem ákvörðunin var tekin með skömmum fyrirvara. 

Ákvörðun um að aflýsa skólahaldi er ekki tekin nema eftir samráð skólastjóra, sveitarstjóra og þeirra sem koma að snjómokstri og skólaakstri.  Venjan er sú að kanna fyrst hvernig ástandið sé í dreifbýlinu og í þetta skiptið var það bara allt í lagi.  Skólabíllinn var á tíma og ekkert því til fyrirstöðu að sækja krakka í sveitina.  Vandinn var hins vegar hér innanbæjar og það kom í ljós um morguninn.  Skyggnið var ekkert og ljóst að snjómokstur innanbæjar var ekki mögulegur við þær aðstæður.  Fólk komst ekki leiðar sinnar, bílar voru fastir og það var því ekki um annað að ræða en að aflýsa skólahaldi, þó talsvert væri liðið á morguninn.  Við gengum svo úr skugga um að þeir starfsmenn sem komust til vinnu, væri komnir heim aftur.  Allt fór því vel, en auðvitað var þetta óþægilegt.

Nú er aftur kominn snjór og því rétt að benda á þær reglur sem gilda um snjómokstur í dreifbýli og þéttbýli í Strandabyggð.  Þær reglur má sjá hér.

Það er stefna sveitarstjórnar að draga úr snjómokstri í sparnaðarskyni og því er viðbúið að einhverjum þyki ekki mokað eins oft og áður.  Reglurnar gera t.d. ekki ráð fyrir snjómokstri um helgar, nema ef brýn nauðsyn krefur.  Við vonum að íbúar sýni þessu skilningi í ljósi stöðunnar.

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

sveitarstjóri Strandabyggðar

Fjölmennt á Húmorþingi með hjálp internetsins

| 29. mars 2021
Jón Jónsson fer með lygasögu
Jón Jónsson fer með lygasögu
Húmorsþing fór fram á Hólmavík um nýliðna helgi. Vegna samfkomutakmarkanna var beðið með hluta kvöldskemmtunnar þar til síðar og eigum við þá von á afar góðu.

Þingið sjálft var þó haldið með breyttum hætti, undir tíu manns fengu að sitja í sal en við hin fegum að njóta í gegn um netið og var mæting og þátttaka góð. Erindin voru virkilega fróðleg, fjölbreytt og skemmtileg og hægt er að horfa á upptökuna á vefsvæði Húmorsþingsins á Facebook

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Þjóðfræði og Arnkatla stóðu fyrir þinginu með styrk frá Sterkum Ströndum.



Húmor, sjósport, ljós og meira stuð

| 24. mars 2021
Það er sannarlega nóg um að vera í Strandabyggð þessa dagana. Varðskipið Þór er í höfninni og hefur boðið börnum um borð, hver veit nema það sé í tilefni af því að í dag, miðvikudaginn 24. mars, verður stofnfundur Sjóíþróttafélags Steingrímsfjarðar á Kaffi Galdri kl 17:00. Þangað erum við öll velkomin og verður gaman að fylgjast með vexti fjölbreyttra útivistarmöguleika í og á sjó í okkar lygna firði.

Í kvöld og á morgun býður Leikfélag Hólmavíkur jafnframt upp á gjaldfrjálst ljósanámskeið í Félagsheimilinu á Hólmavík fyrir alla þá sem hafa áhuga á að nýta nýjan og glæsilegan tæknibúnað sem Leikfélagið hefur fjárfest í með stuðningi Sterkra Stranda.
Á morgun, fimmtudag, er auk ljósanámskeiðs aðalfundur Foreldrafélags Grunnskólans á Hólmavík. Sérstök páskaopnun verður svo í Ozon um kvöldið fyrir alla krakka í 5.-10. bekk með páskakahoot og verðlaunum frá Krambúðinni.

Á föstudag fer árshátíð Grunnskólans svo fram með nýstárlegum hætti í félagsheimilinu en það þjóna kennarar og starfsfólk börnum til borð í glæsilegri 80s veislu sem börnin hafa undirbúið. Um kvöldið heldur miðstigið svo bekkjarkvöld í félagsmiðstöðinni Ozon.

Komandi helgi verður jafnframt haldið Húmorsþing á Hólmavík að frumkvæði Rannsóknarseturs HÍ í þjóðfræði og Arnkötlu. Vegna sóttvarnarreglna er nauðsynlegt að skrá sig en við erum öll velkomin meðan fjöldatakmarkanir leyfa. Nánari upplýginar um Húmorsþingið er að finna á Facebook.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón