A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1316 í Strandabyggð, 13.04.21

| 09. apríl 2021

 

Sveitarstjórnarfundur 1316 í Strandabyggð

Fundur nr. 1316, í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 13. apríl 2021 kl 16.00 í Hnyðju.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

 

  1. Ákvörðun sveitarstjórnar um að nýta heimildi til fjarfunda.
  2. Forstöðumannaskýrslur og verkefni sveitarstjóra
  3. Nefndarfundir
    1. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, 21.03.21
    2. Fræðslunefnd, 08.04.21
  4. Reglur um birtingu fundargagna í Strandabyggð
  5. Endurskoðun samnings um embætti byggingar- og skipulagsfulltrúa
  6. Erindi frá Kaldrananeshreppi, afmörkun sveitarfélaga
  7. Brunavarnir Dala, Reykhóla og Stranda – fundur 05.02.21 – til kynningar
  8. Svæðisskipulagsnefnd – fundur 23.03.21 – til kynningar
  9. Ársreikningur Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla – til kynningar
  10. Vestfjarðastofa, stjórnarfundur nr. 34, frá 24.2.21 – til kynningar
  11. Ályktun stjórnar Vestfjarðastofu um samgöngumál – 15.03.21 – til kynningar
  12. Samgöngunefnd Fjórðungssambandsins – 01.03.21 – til kynningar
  13. Strandsvæðaskipulag á Vestfjörðum – 5. fundur svæðisráðs, 03.03.21 – til kynningar
  14. Samband íslenskra sveitarfélaga – fundargerð 896, frá 26.03.21 – til kynningar
  15. Hafnarsamband Íslands – Ársreikningur  2020 – til kynningar
  16. Hafnarsamband Íslands – fundur nr. 433 frá 19.03.21– til kynningar.

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

Jón Gísli Jónsson

Ásta Þórisdóttir

Eiríkur Valdimarsson

Guðfinna Lára Hávarðardóttir

Pétur Matthíasson

 

Framtíðar byggingarland í Strandabyggð?

| 06. apríl 2021
« 1 af 2 »
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi Strandabyggðar og er það fyrirtækið Landmótun sem vinnur það með okkur.  Eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem þessi endurskoðun kallar á, er að skilgreina nýtt byggingarsvæði fyrir íbúðarhúsnæði.  Brandskjól hefur verið lengi í umræðunni sem framtíðar byggingarsvæði, enda frábært svæði, í beinni tengingu við borgirnar og ómetanlegt útsýni út fjörðinn.

Nú er verið að kanna jarðveginn, dýpt niður á fast ofl. og þess vegna kunna einhverjir íbúar að hafa séð gröfu þar að verki í dag.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Gleðilega páska!

| 31. mars 2021
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það eru páskar.  Framundan er góður matur, páskaegg, samverustundir með fjölskyldu og vinum (10 samtals, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum) og afslöppun.  Veðrið er síðan eins og það er og ekkert sem við getum gert í því.  Njótum þess bara að vera til og förum varlega.

Þessa dagana er verið að vinna í undirbúningi ársreiknings og uppgjörs á árinu 2020 sem margir vilja nú bara gleyma.  En það er þarna enn í bókhaldinu og eins og staðan er núna, lítur út fyrir að þær aðhaldsaðgerðir sem sveitarfélagið lagði upp með á síðasta ári, hafi skilað sér betur en við gerðum ráð fyrir auk þess sem tekjur urðu ívið meiri en spár sýndu.  Tapið á árinu 2020 verður því líklega talsvert minna en fyrstu spár gerðu ráð fyrir, þó ekki sé hægt að fastsetja þá tölu núna. 

Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir okkur og sýna að innan sveitarfélagsins er geta til að takast á við erfiðar áskoranir eins og að skera niður og hægræða í rekstri.  Allir sem hafa lagt sitt að mörkum fá hrós fyrir. 

Þó enn sé samt langt i land líkt og fram hefur komið í sambandi við nýgerðan samning við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þá er full ástæða til að fagna þegar vel gengur og með þessar fréttir höldum við inn í páskana, full bjartsýni og stórhug! 

Gleðilega páska!

Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Samningur við ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála

| 31. mars 2021
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Eins og þið hafið sjáfsagt tekið eftir, var í gær, 30. mars, undirritaður samningur milli Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og sveitarstjórnar Strandabyggðar, um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins.  Það var Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar sem skrifaði undir samninginn á móti Sigurði Inga.

Þessi samningur á sér talsverða forsögu, sem við þekkjum nú orðið nokkuð vel.  Sú mikla skerðing sem varð í fyrra á framlögum Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins, setti öll okkar fjárhagslegu áform og markmið úr skorðum.  Við leituðum til ráðuneytisins í júlí í fyrra og síðan þá hefur verið unnið að því skilgreina aðgerðir og draga upp mynd af þeim stuðningi sem Strandabyggð býðst nú frá ráðherra og hans fólki. Samningurinn felur í sér 30 milljón króna framlag úr Jöfnunarsjóði til Strandabyggar, sem mun nýtast í að laga lausafjárstöðu sveitarfélagsins.  Á móti verður fjárhagslegt aðhald og eftirlit eflt og farið í markvissa vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Strandabyggðar  Þessari vinnu er ætlað að skapa grundvöll fyrir fjárhagsáætlanagerð og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2025 og mótun verkefnaáætlun sveitarstjórnar.  Fyrir lá fjárhagsleg greining frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, sem nýtist nú vel í þessa vinnu.

Og nú hefst vinnan.  Búið er að ráða ráðgjafafyrirtækið Ráðrík til að koma að þessar vinnu með starfsmönnum sveitarfélagsins.  Samhliða verður farið í svokallaða valkostagreiningu, sem miðar að því að kanna kosti og galla einstakra sameiningarkosta við önnur sveitarfélög.  Búið er að ráða ráðgjafafyrirtækið RR Ráðgjöf í þá vinnu með okkur.  Sú vinna er fjármögnuð af Jöfnunarsjóði.

Það er mikil vinna framundan og líklegt að sú naflaskoðun  muni taka eitthvað á.  Margar erfiðar spurningar verða nú lagðar fyrir sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins og við verðum að þora að svara þeim heiðarlega, rýna í forsendur þeirra og leita nýrra leiða til úrbóta. 

Við skulum samt líta á þessa stöðu og þessa vinnu sem tækifæri.  Tækifæri til að endurskoða fjárhagslegar forsendur þeirrar samfélagsmyndar sem við búum við.  Tækifæri til að leita að hagræðingu, skynsamlegum lausnum sem tryggir okkur áfram það þjónustustig sem við þekkjum og viljum.  Samhliða áframhaldandi kostnaðaraðhaldi, ætlum við að skoða ný atvinnutækifæri, nýja tekjustofna og velta fyrir okkur hvernig Strandabyggð getur þróast og hvernig við viljum að sú þróun verði.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Samkomulag undirritað við Strandabyggð um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins

| 30. mars 2021


Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í dag samkomulag við sveitarstjórn Strandabyggðar um að hefja endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins til að unnt verði að ná jafnvægi í rekstri og standast fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. Samkomulagið kveður einnig á um 30 milljóna kr. framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

„Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á gott samstarf við sveitarstjórnarstigið um eflingu þess. Það er ljóst að sveitarfélögin eru misjafnlega í stakk búin til að bregðast við áföllum. Því er mikilvægt að nýta þau verkfæri sem til eru til að styðja sveitarfélög við hagræðingu og stefnumótun til að þau geti staðið undir lögbundinni þjónustu nærsamfélagsins,“ segir Sigurður Ingi.

Ráðuneytið veitti á síðasta ári fjárframlag til að vinna greiningu á fjármálum sveitarfélagsins. Í skýrslu KPMG, sem kynnt var sveitarstjórn í desember 2020, kom fram að venjubundinn rekstur standi ekki undir skuldbindingum sveitarfélagsins og verulegur halli væri fyrirséður á rekstri sveitarfélagsins. Í byrjun mars óskaði sveitarstjórn Strandabyggðar eftir að gera samkomulag við ráðuneytið um fjármál sveitarfélagsins, á grunni heimildar í 83. gr. sveitarstjórnarlaga. Í lögbundinni umsögn eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga var mælt með því samkomulagið yrði gert.

Markmið samkomulagsins eru að stuðla að markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Strandabyggðar, skapa grundvöll fyrir fjárhagsáætlanagerð og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2025 og móta verkefnaáætlun sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Strandabyggðar mun samkvæmt samkomulaginu ráða óháðan ráðgjafa sem vinnur með sveitarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins að fjárhagslegri greiningu og markmiðasetningu. Sveitarstjórnin skuldbindur sig einnig til að vinna að hagræðingu í rekstri og draga úr rekstrarútgjöldum eins og kostur er, jafnframt því sem leitast verður við að auka tekjur. Þá er í samkomulaginu gert ráð fyrir að unnin verði úttekt á kostum sameiningar við önnur sveitarfélög og fjárhagsleg áhrif sameiningar.
Samkomulagið kveður einnig á um 30 milljóna kr. framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sbr. heimild í 84. gr. sveitarstjórnarlaga þar að lútandi. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur samþykkt framlagið fyrir sitt leyti. 


Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar, undirritaði samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins, en með honum fyrir hönd Strandabyggðar var einnig Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri. „Við þökkum ráðherra og starfsfólki hans stuðninginn og lítum á samninginn sem tækifæri fyrir sveitarfélagið til að rýna í innviðina og ná þannig betur utan um fjármál okkar og markmiðasetningu í þeim efnum“ sagði Jón Gísli að undirskrift lokinni.

„Það eru mörg tækifæri í þessu sambandi, sem við munum skoða, og eins og ráðherra benti réttilega á, gæti þarna verið möguleikar fyrir okkur á að sækja í störf án staðsetningar,“ bætti Þorgeir við. „Það er lykilatriði, til lengri tíma litið, að efla atvinnustarfsemi sveitarfélagsins og fjölga þannig tekjustofnum þess,“ sagði Þorgeir að lokum.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón