A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Svæðisskipulag Vestfjarða 2025-2050 - Skipulagslýsing og opnir fundir

Heiðrún Harðardóttir | 27. maí 2024

Hafin er vinna að tillögu að svæðisskipulagi fyrir Vestfirði með aðild allra sveitarfélaganna átta á Vestfjörðum.

Svæðisskipulag mun marka meginstefnu og framtíðarsýn í sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Það á að draga fram þætti sem efla samfélagið á Vestfjörðum með frumkvæði, þekkingu og samvinnu að leiðarljósi.


Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða hefur hafið kynningu á skipulagslýsingu sem er verkefnislýsing fyrir vinnslu Svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2050, sbr. 1. mgr. 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Verkefnislýsingin gerir grein fyrir tildrögum og forsendum skipulagsvinnunar, viðfangsefnum skipulagstillögu og umhverfismati hennar ásamt áföngum skipulagsvinnunar og samráði.

Skipulagslýsingin er aðgengileg í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar á slóðinni: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/603

Opið er fyrir athugasemdir um skipulagslýsinguna til 26. júní 2024 og er hægt að koma umsögnum á framfæri í skipulagsgáttinni.


Jafnframt er vakin athygli á opnum íbúafundum í þessari viku þar sem þátttakendum gefst kostur á að koma að mótun svæðisskipulags.  Íbúafundirnir verða milli kl. 16:30 og 18:30 á eftirtöldum stöðum:

27. maí – Félagsheimilinu á Patreksfirði.

29. maí – Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

30. maí – Félagsheimilinu á Hólmavík.

30. maí – Reykhólaskóla á Reykhólum.

 
Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða.

 

Skemmtiferðaskip í Steingrímsfirði

Þorgeir Pálsson | 24. maí 2024
« 1 af 3 »
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Eins og íbúar hafa sjálfsagt orðið varir við, hafa skemmtiferðaskip heimsótt okkur undanfarið og er það mjög ánægjulegt.  Við fögnum þessari þróun þar sem koma skemmtiferðaskipa skapar oft verulegar tekjur fyrir þjónustuaðila og einnig fyrir sveitarfélagið. Skip sem koma inn í lögsögu hafnarinnar, greiða hafnargjöld og einnig er greitt fyrir þá þjónustu sem þau fá.  Þessar tekjur getur sveitarfélagið nýtt til að efla þjónustu við skipin og byggja upp nauðsynlega aðstöðu.

Sauðfjársetrið á hrós skilið fyrir þeirra vinnu við að fá hingað skemmtiferðaskip og við vonum að þessi þróun haldi áfram.  Vel gert!

Koma skemmtiferðaskipa hingað lífgar upp á tilveruna.  Það er alltaf gaman að sjá stór skip og það er hressandi að sjá alla ferðamennina sem ganga um bæinn okkar í kjölfarið.  Fögnum þeim, bjóðum góðan daginn og tökum þessari mikilvægu tilbreytingu í tilverunni, fagnandi.

Áfram Strandabyggð!

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Tilkynning frá kjörstjórn vegna forsetakosninga 1. júní 2024

Salbjörg Engilbertsdóttir | 22. maí 2024


Kjörskrá liggur frammi til kynningar á skrifstofu Strandabyggðar á opnunartíma milli kl. 10 og 14 á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 25 fram að kjördegi. Einnig getur fólk farið inn á slóðina www.island.is/v/forsetakosningar-2024 til að kynna sér hvar það er skráð.

Kjörfundur vegna forsetakosninga
Ein kjördeild verður í Strandabyggð og er kjörstaður í Hnyðju, Höfðagötu 3 Hólmavík. Kjörfundur hefst kl. 09:00 laugardaginn 1. Júní, 2024 en kjörstaður verður opinn frá kl. 10:00 -17:00. sbr. 1. mgr. 80 gr. laga nr. 112/2021 um kosningar.

Kosning utan kjörstaðar
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar stendur yfir og er staðsett á skrifstofu sýslumanns á efri hæð Hafnarbraut 25. Opið er mánudaga til fimmtudaga frá kl. 09:00-13:00, föstudaginn 24. maí frá 15:30-16:00 og föstudaginn 31. maí frá 09:00-12:00 og eru kjósendur beðnir um að hafa með sér skilríki til auðkenningar sjá neðst á auglýsingunni:

Skv. 69 gr. laga um kosningar nr. 112/2021 kemur fram að atkvæðagreiðsla geti farið fram á eftirtöldum stöðum:

„Á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum fyrir kjósendur sem dveljast þar.“
„Í heimahúsi ef kjósandi getur ekki sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun skv. 3. tölulið. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag.“

Sérstök athygli er vakin á 1. mgr. 74 gr. laga nr. 112/2021 um kosningar:

,,Kjósandi sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar skal gera kjörstjóra grein fyrir sér með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, svo sem vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kjörstjóri skal merkja í kjörskrá hverjir greiða atkvæði hjá honum, sbr. 1. mgr. 77. gr.".


Kjörstjórn Strandabyggðar,
Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir formaður

 

Leikhópurinn Lotta sýnir Bangsímon 1 júní á Braggatúni

Heiðrún Harðardóttir | 21. maí 2024
Leikhópurinn Lotta kemur til okkar á Hólmavík laugardaginn 1. júní kl 18:00 og hlakkar mikið til!

Sýningin fer fram á Braggatúni og er miðverð 3700 kr á mann, frítt fyrir 2ja ára og yngri.

Síðan heimsfaraldur skall á, hefur Leikhópurinn Lotta ekki sett upp splunkunýtt verk eins og öll starfsár fram að því. Það er því fagnaðarefni að í ár taka þau upp þráðinn á ný og bjóða upp á risastóra gleðibombu í glænýjum íslenskum söngleik - Bangsímon. Flestir kannast við vinalega bangsann hann Bangsimon, vini hans Gríslinginn, Kaniku, Eyrnaslapa og Ugluna svo þau þarf vart að kynna. Í höndum Lottu hefur þessum sögum verið gefið nýtt líf og lifna persónurnar nú loksins við frammi fyrir augunum á okkur. Eins og Lottu er von að vísa eru 10 glæný íslensk lög í sýningunni, mikið af dönsum og heill hellingur af bröndurum, bæði fyrir börn og fullorðna.

Bangsímon er sýnd utandyra og því er um að gera að klæða sig eftir veðri, grípa með sér teppi að sitja á, nesti til að maula og myndavél til að taka myndir með persónunum eftir sýninguna. - Sýningin verður færð inn í íþróttahús ef veður verður vont. 

Sýningin er klukkutími að lengd og skipta fimm leikarar á milli sín öllum hlutverkum.
Höfundur verksins er Anna Bergljót Thorarensen en þetta er tólfta verkið sem hún semur fyrir hópinn, hún sér einnig um leikstjórn. Leikhópurinn er einnig aðdáendum Lottu að góðu kunnur en hann samanstendur af Andreu Ösp Karlsdóttur, Sigsteini Sigurbergssyni, Stefáni Benedikt Vilhelmssyni, Sumarliða V Snæland Ingimarssyni og Þórunni Lárusdóttur. 

Sveitarstjórnarfundur nr. 1362, aukafundur haldinn 21. maí 2024

Salbjörg Engilbertsdóttir | 18. maí 2024

Fundur nr. 1362 sem er aukafundur í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 21. maí kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Ársreikningur 2023 seinni umræða og endurskoðunarskýrsla
2. Varúðarniðurfærsla skatt- og viðskiptakrafna og afskriftir v/2023
3. Staða bókhalds á fyrsta ársfjórðungi
4. Áskorun til Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis v.samgönguáætlunar, frh. frá fundi 1360
5. Innviðaráðuneyti, beiðni um áframhaldandi fjárstuðning frh. frá fundi 1361
6. Vegagerð ríkisins, umsókn um framkvæmdaleyfi og efnistöku á Ennishálsi


Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:


Þorgeir Pálsson
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir
Jón Sigmundsson
Matthías Sævar Lýðsson
Hlíf Hrólfsdóttir


Strandabyggð 17. maí
Þorgeir Pálsson oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón