Vikan að baki
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Ný vika er hafin og sumarið komið samkvæmt dagatalinu. Það gerðist margt jákvætt í síðustu viku og ég renni hér yfir það helsta
Styrkveiting til Strandabyggðar
Strandabyggð fékk 25.3 milljón króna styrk frá Fiskeldissjóði, til fráveituverkefna. Það er ljóst að núverandi kerfi er komið til ára sinna og samræmist ekki nútíma kröfum né tækni. Einnig þurfum við að horfa til þess að með uppbyggingu í atvinnulífi, fiskvinnslu, tilkomu hótels á Hólmavík og almennrar eflingar ferðaþjónustu, eykst þörfin fyrir hagkvæmari og skilvirkari lausnir í fráveitumálum. Samhliða öllu þessu er stefnt að fjölgun íbúa, t.d. með nýju íbúðarhverfi í Brandskjólum. Það kerfi sem verður innleitt byggir á annars vegar svokölluðum HiPAF hreinsistöðvum (1-2000 PE) og hins vegar svokölluðum Diamond hreinsistöðvum (1-55 PE). Við munum segja nánar frá þessu verkefni þegar það hefst. Það þarf ekki að taka það fram, en við erum Fiskeldissjóði afar þakklát fyrir þessa styrkveitingu.
Varmadæluvæðing - Styrkumsókn til Orkusjóðs
Strandabyggð hefur unnið að styrkumsókn undanfarið með fyrirtækjunum Báma og Hagvarma ehf og var skilað inn styrkumsókn til Orkusjóðs í sl viku. Við búum við það ástand að okkur er nú skömmtuð raforka og hefur verið svo frá því um miðjan janúar. Frá 18 janúar, hefur sveitarfélagið brennt um 40.000 lítrum af diesel olíu og er kostnaðurinn um 10 milljónir. Þetta er augljóslega mikill kostnaðarauki, þjónustu- og lífsgæðaskerðing fyrir sveitarfélagið. Af þessum sökum og í ljósi þess að ótrygg orka verður af skornum skammti í fyrirsjáanlegri framtíð með tilheyrandi hækkun á orkukostnaði sveitarfélagsins, hefur verið ákveðið að ráðast í það verkefni að varmadæluvæða þrjár byggingar; Íþróttamiðstöð með sundlaug, grunnskólann og félagsheimilið.
Strandabyggð er forsvarsaðili þessa verkefnis sem undirbúið hefur verið með stuðningi frá Bláma ásamt því að fyrirtækið Hagvarmi ehf hefur veitt tæknilega ráðgjöf varðandi útfærslu og gerð kostnaðaráætlunar. Það er von okkar að Orkusjóður taki jákvætt í umsókn sveitarfélagsins.
Sundkennsla í Bjarnarfirði
Í beinu framhaldi af frétt um skerðingu raforku, er rétt að segja frá því, að vegna óvissu um tímalengd þessarar skerðingar, var ákveðið að leita til rekstraraðila sundlaugarinnar í Bjarnarfirði og semja um að fá að kenna krökkunum okkar sund þar næstu dagana. Skólastjóri og kennarar skipulögðu sundkennsluna, sem stendur frá 2-10 maí n.k. Foreldrar hafa verið upplýstir um fyrirkomulag sundkennslu þessa daga.
Galdrafár á Ströndum
Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum að dagana 19-21 apríl s.l. fór fram hér á Hólmavík, hátíðin Galdrafár á Ströndum. Dagskrá hátíðarinnar var mjög fjölbreytt og áhugaverð og vonandi nutu íbúar hennar, en þar var m.a. fjöldi fyrirlestra um hin ýmsu málefni sem tengjast víkingum, göldrum o.s.frv. auk viðeigandi tónlistar. Sett voru upp sölutjöld á Galdratúninu og víðar. Það er mat þeirra sem stóðu að hátíðinni, að hún hafi tekist mjög vel og að það sé ekkert því til fyrirstöðu að endurtaka hana hér að ári. Það kemur í ljós, en við fögnum þessum árangri innilega með aðstandendum hátíðarinnar.
Leiðrétting 1.maí. Komið hefur í ljós að ódýrara er og hagstæðara að hita okkar eigin laug en að fara í Bjarnarfjörð og því verður sundkennsla á Hólmavík í maí. Þetta er tímabundin og takmörkuð opnun sundlaugarinnar, sem verður aftur kæld niður, þegar sundkennslu lýkur, hafi skerðingu á rafmagni ekki verið hætt á þeim tíma.
Sauðfjársetur á Ströndum tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024
Sauðfjársetrið er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024 og óskum við aðstandendum þess innilega til hamingju með þann heiður og þá viðurkenningu sem felst í tilnefningunni. Það efast enginn um það starf sem þar er unnið og mikilvægi þess fyrir samfélagið og sveitarfélagið. Nánar má lesa um tilnefninguna á vef Sauðfjársetursins: https://saudfjarsetur.is/saudfjarsetrid-tilnefnt-til-islensku-safnaverdlaunanna/
Andresar Andar leikarnir 2024
Nú um helgina voru haldnir á Akureyri Andresar Andar leikarnir 2024 og tókust þeir mjög vel. Keppendur frá Skíðafélagi Strandamanna voru 36 talsins og að auki voru síðan þjálfarar, aðstoðarmenn, foreldrar og aðstandendur. Þetta var stór og frábær hópur og náðist góður árangur nú sem fyrr, sem Skíðafélagið mun án efa gera grein fyrir á facebook síðu sinni á næstunni. Gleði, kurteisi og samstaða skein í gegn og voru krakkarnir sér og okkur öllum til mikils sóma. Þessir leikar eru frábær skemmtun og mikilvæg minning og lærdómur fyrir krakkana. Formlegur endapunktur á góðum skíðavetri Skíðafélagsins er síðan Uppskeruhátíðin, sem haldin er í dag, 29.4. í Selárdal. Skíðafélagið og aðstandendur þess eiga hrós skilið fyrir markvissa uppbyggingu, þar sem gleðin og jákvæðnin er í fyrirrúmi.
Fiskvinnsla á Hólmavík
Búið er að stofna fiskvinnslu á Hólmavík og er það fyrirtækið Vilji fiskverkjun ehf sem hefur starfsemi sína í húsnæði Hólmadrangs. Stofnun fyrirtækisins tengist úthlutun sértæks byggðakvóta til Vissu útgerðar ehf og samstarfsaðila og við óskum þeim til hamingju með það mikilvæga skref að stofna hér fiskvinnslu og skapa þannig mikilvæg störf og verðmæti fyrir sveitarfélagið.
Ýmis verkefni
Með vorinu koma mörg ný verkefni og má þar nefna, réttarsmíði í Kollafirði, undirbúningur sumarverkefna, vinnuskóla og ráðning sumarstarfsmanna klárast auk þess sem byrjað verður að undirbúa umhirðu opinna svæða, slátt ofl. Nánar verður gerð grein fyrir þeim verkefnum þegar nær dregur.
Gleðilegt Sumar - Áfram Strandabyggð!
Þorgeir Pálsson
Oddviti