A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Íslandsmet - Dagur íslenskrar tónlistar

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir | 01. desember 2023
Degi íslenskrar tónlistar verður fagnað víða um land, föstudaginn 1. desember en meðal þess sem stefnt er að er að slá Íslandsmet í samsöng kl. 10.00 um morguninn.
Nemendur og kennarar í grunnskólum hafa upp á síðkastið æft lag sem verður flutt á þessum sama tíma á fjölmörgum stöðum á landinu. Það er lagið: Það vantar spýtur eftir Ólaf Hauk Símonarson sem Olga Guðrún Árnadóttir flutti á sínum tíma.
Stutt hátíðardagskrá tileinkuð deginum verður þennan morgun í Hörpu og þar mun hljómsveitin CELEBS frá Suðureyri flytja lagið. Þá verða veitt verðlaun og viðurkenningar fyrir íslenska tónlist. Loks verður boðið upp á tvö tónlistaratriði í viðbót, Elín Hall flytur eitt vinsælasta lag síðasta árs, Vinir, og Jóhann Helgason flytur eina af sínum helstu perlum.
Viðburðurinn verður í beinu streymi, m.a. hér: https://vimeo.com/event/3919659/embed/f7f78fe720

Forsvarsfólk Dags íslenskrar tónlistar hvetur öll til þess að hefja þennan góða dag með að syngja saman en hér fyrir neðan fylgir texti lagsins og meðfylgjandi er æfingaflutningur CELEBS á lagi Olgu Guðrúnar.
https://youtu.be/hx8UbIWsSUU

 ÞAÐ VANTAR SPÝTUR Lag og texti: Ólafur Haukur Símonarson

Kannist þið við krakka sem að kúra í sandkassa,
þeim leiðist heldur lífið og eru löngu hætt að krassa?
Kannist þið við krakka sem að kúra í sandkassa,
þeim leiðist heldur lífið og eru löngu hætt að krassa?
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög.
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög.
Þau hafa rólað hundrað milljón sinnum út og inn
og mokað sama sandinum í skóinn sinn.
Þau hafa rólað hundrað milljón sinnum út og inn
og mokað sama sandinum í skóinn sinn.
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög.
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög.<
Kannist þið við snáða sem að engu fá að ráða,
þeir þvælast bara hér og þar og eru fyrir alls staðar?
Kannist þið við snáða sem að engu fá að ráða,
þeir þvælast bara hér og þar og eru fyrir alls staðar?
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög.
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög.
Kannist þið við krakka sem að kúra á skólabekkjum
og langtum flestum líður eins og kartöflum í sekkjum?
Kannist þið við krakka sem að kúra á skólabekkjum
og langtum flestum líður eins og kartöflum í sekkjum?
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög.
Það vantar spýtur og það vantar sög. Það vantar málningu og fjörug lög

Mögulegt að úthluta allt að 500 þorskígildistonnum til Strandabyggðar

| 29. nóvember 2023

Stjórn Byggðastofnunar ákvað á fundi sínum í byrjun mánaðar, ef samningar nást við hagsmunaaðila um raunhæfar útfærslur, að mögulegt verði að úthluta allt að 500 þorskígildistonnum af aflamarki stofnunarinnar til Strandabyggðar á yfirstandandi fiskveiðiári.

Fulltrúar Byggðastofnunar, að undangenginni auglýsingu, héldu í kjölfarið fundi með áhugasömum aðilum á svæðinu til að kynna þeim þessa möguleika og hvað í þeim felist.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri segir á vef Strandabyggðar að þarna séu tækifæri sem þurfi að reyna að nýta Strandabyggð til framdráttar.

Byggðastofnun mun auglýsa í næstu viku eftir samstarfsaðilum um nýtingu aflaheimilda á Hólmavík.

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 28. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þjónustukjarni fyrir aldraða

Í síðustu viku átti ég fund með fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis vegna hugmynda um þjónustukjarna fyrir eldri borgara á Hólmavík. Áður hafði ég hitt heilbrigðisráðherra vegna þessa máls.  Hugmyndinni er vel tekið og er okkur bent á að þróa hana áfram og leita eftir upplýsingum og stuðningi í tengslum við verkefnið „Gott að eldast“ sem er í gangi.  Hér má sjá nánari upplýsingar um það verkefni.

https://www.stjornarradid.is/verkefni/lif-og-heilsa/oldrunarmal/gott-ad-eldast/

Hér á Hólmavík er sterkur grunnur hvað alla grunnþjónustu og afþreyingu varðar, sem styður við svona verkefni.  Hér er góð heilsugæsla og heilbrigðisstofnun, góð íþróttamiðstöð og sundlaug og fjöldi gönguleiða.  Eins er hér öll önnur grunnþjónusta, verslun, afþreying o.s.frv.  Og ofan á allt, er hér frábær hópur eldri borgara sem er mjög virkur og skapandi.  Allt þetta styður við verkefnið.  Við munum þróa það áfram og er gert ráð fyrir þessum þjónustukjarnan í endurgerðu aðalskipulagi.

Innviðaráðuneytið

Ekkert ráðuneyti skiptir okkur meira máli en innviðaráðuneytið, að öllum öðrum ráðuneytum ólöstuðum.  Við eigum mikil samskipti við innviðaráðuneytið, vegna Jöfnunarsjóðs, en framlög sjóðsins hafa verið um 40% af tekjum sveitarfélagsins undanfarin ár.  Eins eigum við mikil samskipti við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga, sem kemur að samningi milli innviðaráðherra og Strandabyggðar frá 2020, vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Í liðinni viku átti ég fund með fultrúum yfirstjórnar ráðuneytisins, Jöfnunarsjóðs og Eftirlitsnefndarinnar og var þar rætt um ósk sveitarstjórnar um áframhald samningsins.  Verður lögð fram formleg ósk þess efnis og stefnt er að fundi með Eftirlitsnefndinni um miðjan desember. 

Gott samband hefur skapast við ráðuneytið og starfsmenn þeirra og leggjum við áherslu á að svo verði áfram.

Önnur verkefni

Fulltrúar Vestfjarðastofu heimsóttu okkur og var umræðuefnið m.a. úrgangsmál, auk þess sem þau deildu upplýsingum um stöðu Earth Check, loftslagsmála og Evrópuverkefnisins RECET (orkuskiptaverkefni).  Það er alltaf gott að fá heimsóknir og sjá andlitin sem maður ræðir við í síma.  Þetta var góður og upplýsandi fundur.

Þá var ég í sambandi við UNICEF, vegna verkefnisins „Barnvænt sveitarfélag“ en Strandabyggð er þar þátttakandi. Á næstunni munum við koma því verkefni í farveg, skipa stýrihóp og hefja innleiðingu. Hér má finna nánari upplýsingar um verkefnið.  https://barnvaensveitarfelog.is/

Til viðbótar þessu eru samskipti við verktaka í grunnskólanum, starfsmenn sveitarfélagsins og samstarfsaðila hjá öðrum sveitarfélögum, auk vinnu við undirbúning seinni umræðu um fjárhagsáætlun 2024-2027.

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Lokun Höfðagötu vegna kennslu í Hnyðju

Þorgeir Pálsson | 28. nóvember 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Á sveitarstjórnarfundi þann 14.11 sl. var tekið fyrir erindi foreldrafélags grunn-, tón- og leikskólans, um tímabundna en daglega lokun þess hluta Höfðagötu sem snýr að Hnyðju, til að auka öryggi skólabarna sem þar eru.  Nú hefur sveitarstjórn, í samráði við Lögregluna á Vestfjörðum og umsjónarkennara, ákveðið að loka götunni frá kl 10 á morgnana til kl 15 á daginn, alla daga sem kennsla fer fram í Hnyðju. 

Lokunin verður þannig að hægt verður eftir sem áður að leggja í bílastæðin við Galdrasafnið og einnig verður hægt að aka meðfram austurgafli Þróunarsetursins inn á planið við Hólmadrang og Hlein.  Bent er á Skjaldbökuslóð og Kópnesbraut sem hjáleiðir meðan á lokuninni stendur.

Við biðjum ökumenn að sýna þessu skilning enda öryggi barnanna okkar í húfi. Lokunin tekur gildi frá og með miðvikudeginum, 29.11.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Til fjarnema og þeirra sem taka próf á Hólmavík

Salbjörg Engilbertsdóttir | 24. nóvember 2023
Próftökustaður fyrir öll sem stefna á að taka próf á Hólmavík er á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 25 en samkomulag er milli Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólasetursins við skrifstofuna um að sjá um prófin.Tengiliður er Salbjörg Engilbertsdóttir salbjorg@strandabyggd.is. Athugið að mögulega þarf að tilkynna um próftökustað til viðkomandi skóla
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón