A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 21. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Vikan sem leið var um margt áhugaverð.

Sterkar Strandir

Eitt af því sem þó stendur upp úr er íbúafundur í tengslum við Sterkar Strandir, sem var haldinn sl. miðvikudag.  Þar voru haldin erindi, farið yfir stöðu verkefna og markmið verkefnisins rædd í hópavinnu. 


Á íbúafundinum, var staðfest að stjórn Byggðastofnunar samþykkti áframhaldandi aðild Strandabyggðar að verkefninu og mun verkefnið Sterkar Strandir því halda áfram út árið 2024.  Við sendum stjórn Byggðastofnunar kærar þakkir fyrir þessa þessa ákvörðun.  Þetta eru mikil og góð tíðindi fyrir íbúa Strandabyggðar og það er rétt að hvetja íbúa Strandabyggðar nú til að koma fram með sínar viðskiptahugmyndir, á hvaða stigi sem þær eru, leita til verkefnastjóra Sterkra Stranda, Siguðar Líndal og þróa þær lengra. 

Á íbúafundinum kom líka fram, að augljósir vaxtarbroddar í atvinnulífi á Ströndum eru tengdir ferðaþjónustu, fiskeldi og jafnvel uppbyggingu þjóðgarðs.  Fjárfestingar í atvinnulífinu hafa gjarnan margföldunaráhrif í för með sér og það eru þessu margföldunaráhrif sem við verðum að nýta.  Við þurfum að byggja upp þekkingu og reynslu innan þeirra atvinnugreina sem fela í sér tækifæri framtíðarinnar.  Sterkar Strandir geta hjálpað okkur til þess.

 

Sértækur byggðakvóti

Stjórn byggðastofnunar ákvað einnig nýlega að, ef samningar næðust við hagsmunaaðila, væri hægt að úthluta 500 þorskígildistonnum af aflamarki stofnunarinnar til Strandabyggðar, á yfirstandandi fiskveiðiári, 2023/2024. Þarna eru tækifæri sem við verðum að reyna að nýta.  Hingað komu tveir fulltrúar Byggðastofnunar og áttu fundi með útgerðaraðilum og sjómönnum á Hólmavík.  Sértækur byggðakvóti er skilyrtur á þann hátt að honum ber að landa til vinnslu og verður mjög áhugavert að sjá hvort forsendur fyrir fiskvinnslu á Hólmavík séu til staðar eða ekki.

 

Önnur mál.

Í vikunni var haldinn sveitarstjórnarfundur, þar sem fram fór m.a. fyrri umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir 2024-2027, seinni og loka umræða um saming um Velferðarþjónustu Vestfirðinga undir leiðandi stjórn Ísafjarðarbæjar og fyrri umræða um viðauka sem heimilar visst valdframsal Strandabyggðar til Ísafjarðarbæjar vegna þessa samnings.  Þessi samningur um Velferðarþjónustu Vestfirðinga, snýr að umsjón barnaverndarmála og málefnum fatlaðra, eingöngu.  Félagsþjónusta Stranda, Reykhóla og Dalabyggðar mun sjá um alla almenna félagsþjónustu, sem fyrr.

Að auki var nokkuð um fundi með verktökum vegna endurbóta í grunnskólanum og komu verkefnastjórar í heimsókn í vikunni.  Allt þokast í rétt átt og engin stórvægileg vandamál hafa komið upp.  

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Niðurstöðir ungmennaþings Strandabyggðar

| 17. nóvember 2023

Ungmennaþing Strandabyggðar var haldið laugardaginn 4. nóvember síðastliðinn. Ungmennaþing er lýðræðislegur vettvangur þar sem öllum ungmennum í sveitafélaginu á aldrinum 14-25 ára, býðst að koma saman og ræða ýmis málefni sem brenna á ungu fólki hverju sinni og eru því umfjöllunarefni þinga eru ákveðin af ungmennum.
Á þessu þingi var umfjöllunarefnið kosning nýs ungmennaráðs. Ungmenaráð eru fulltrúar á aldrinum 13-25 ára sem eru kjörnir af ungmennaþingi til tveggja ára í senn, kosið er á hverju ári og er þá annað árið kosnir þrír fullrúar og tveir það næsta. Ungmennaráð hefur þann tilgang að gefa ungu fólki í sveitarfélaginu vettvang til aukinnar lýðræðislegrar þátttöku í samfélaginu. Ungmennaráð fundar reglulega og senda inn erindi og ályktanir til sveitarstjórnar. Þá hafa ungmennaráð seinustu ár staðið fyrir ýmsum viðburðum og verkefnum og tekið þátt í ýmsum fundum og ráðstefnum. Fulltrúar ungmennaráðs eru þá áheyrnarfulltrúar í nefndum sveitarfélagsins að velferðarnefnd undanskilinni.


Nýkjörið ungmennaráð er skipað eftirfarandi fulltrúum:
Unnur Erna Viðarsdóttir – Formaður
Jóhanna Rannveig Jánsdóttir – Áheyrnarfulltrúi fræðslunefndar
Þorsteinn Óli VIðarsson – Áheyrnarfulltrúi tómstunda-, íþrótta-, og menningarnefndar
Valdimar Kolka Eiríksson – Áheyrnarfulltrúi atvinnu-, dreyfbýlis-, og hafnarnefdar.
Elías Guðjónsson Krysiak – Áheyranrfulltrúi umhverfis- og skipulagsnefndar.

Varamenn:
Ólöf Katrín Reynisdóttir
Guðmundur Björgvin Þórólfsson
Kristbjörg Lilja Grettisdóttir
Við bjóðum nýkjörið ungmennaráð velkomið til starfa og hlökkum til samstarfs á komandi ári.

 

Starfsfólk í Félagsmiðstöðinni Ozon

| 17. nóvember 2023
« 1 af 2 »

Nýjir starfskraftar hafa nú tekið til starfa í félagsmiðstöðinni Ozon. Það eru þau Alexandar og Tóta, við bjóðum þau velkomin til starfa. 

Hér er stutt kynning á þeim: 

Ég heiti Aleksandar og ég er búinn að búa í fjögur ár á Hólmavík. Í landinu mínu Króatíu, hef ég unið á Þjóðskjalasafninu. Ég er með tvöfalt MA próf í hljóðfræði og skjalfræði frá Háskólanum í Zagreb, Króatíu. Áhugamálin mín eru bogfimi, badminton, borðtennis, bjórbruggun, pönukökkur og margt fleira. Mér finnst mjög gaman að búa á Ströndum.



Komið þið sæl og blessuð Þórey Hekla Ægisdóttir heiti ég en kölluð er Tóta. Ég er ný hér á Hólmavík en er út Dölunum. Ég ætla að sjá um OZON í vetur og langar mig smá að kynna mig. Ég er 23 ára hress og spræk dala skvísa, orkumikil og stór karakter Ég á 5 yngri systkin og er ég töluvert eldri en þau öll. Ég stundaði útivistarnám í 8 mánuði og elska að prufa nýja hluti. Núna síðustu þriðjudaga og fimmtudaga hef eg fengið þau forréttindi að kynnast börnunum ykkar og hlakkar mig mikið til að framkvæma hugmyndirnar sem við höfum komið með fyrir OZON. Endilega hvetjið börnin að mæta og vera með því fleiri því betra. Bestu kveðjur Tóta. 

Framboð á vörum framleiðenda í heimabyggð

Þorgeir Pálsson | 16. nóvember 2023
Kæru íbúar Strandabyggð, birgjar sem aðrir,

Nú þegar sveitarfélagið hefur tekið við rekstri skólamötuneytis, færast innkaup á herðar matráða sveitarfélagsins.  Það er sérstök áhersla lögð á að kaupa hraéfni í heimabyggð og því óskum við eftir því að allir birgjar í Strandabyggð sem telja sig geta boðið mötuneyti sveitarfélagsins vörur sínar, sendi inn upplýsingar um vöruflokka, magn og verð sem í boði væri.

Vinsamlegast sendið svör ykkar á netfangið raimonda@strandabyggd.is

Kveðja
f.h. matráða,
Þorgeir Pálsson
oddviti

Um álit innviðaráðuneytisins

Þorgeir Pálsson | 16. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú er talsvert í umræðunni álit innviðaráðuneytis á stjórnsýslu oddvita og sveitarstjórnar og er mikið um einhliða framsetningu á niðurstöðu ráðuneytisins.  Hér má finna fundargerð sveitarstjórnarfundar nr. 1352 í sveitarstjórnar Strandabyggðar frá 14.11 og undir lið 8 er bókun frá meirihluta sveitarstjórnar, sem ég hvet íbúa til að lesa.  Í yfirskrift þessa liðar í fundargerðinni, er síðan tenging við álitið sjálft, sem einnig er vert að lesa, ef menn vilja vita allar hliðar málsins.

Þar sem umræðan hefur verið nokkuð einhliða fram að þessu, er rétt að hnykkja aðeins á niðurstöðu ráðuneytisins, þannig að íbúar geti séð hvað það þýðir í raun fyrir sveitarfélagið:

  • Ráðuneytið telur að afgreiðsla á erindi fyrrum sveitarstjórnarmanns, hafi ekki verið í samræmi við almennar skyldur um svör við erindum
  • Ráðuneytið telur hins vegar ekki ástæðu til að fjalla formlega um eldri mál í stjórnsýslu Strandabyggðar á grundvelli sveitarstjórnarlaga, gr 112, sem snýr að ólögmætri stjórnsýslu. Má reikna með að ráðuneytinu þyki þar með, líkt og meirihlutanum, að þetta mál tilheyri fortíðinni og þurfi að afgreiða á öðrum vettfangi en í núverandi sveitarstjórn. Ráðuneytið telur málið falla utan við eftirlitshlutverk sitt
  • Hvað það varðar að hafna beiðni kjörinna fulltrúa um að setja mál á dagskrá, telur ráðuneytið þá ákvörðun stangast á við 27. gr sveitarstjórnarlaga
  • Þá telur ráðuneytið einnig það stangast á við 26. gr sveitarstjórnarlaga, að hafa ekki umræðu um ákveðin mál, en sú venja hefur verið lengi í sveitarstjórn Strandabyggðar að sum mál eru lögð fram til kynningar og þá ekki rædd. Með þessu sé komið í veg fyrir rétt kjörinna fulltrúa til málfrelsis og að tjá sig
  • Ráðuneytið telur ekki grundvöll til að aðhafast neitt frekar í málinu og að málið sé ekki þess eðlis að til greina komi að sveitarfélagið þurfi að taka ákvörðun í málinu eða fella úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins, eins og segir í álitinu.

Og hvað þýðir þetta síðan svona í daglegu tali, jú, það má bæta stjórnsýslu sveitarfélagsins og oddvita hvað það varðar að taka mál á dagskrá.  Um það verður ekki deilt og verður tekið mið af því í framtíðinni.

Það er ekki ástæða til að fjalla formlega um eldri mál í stjórnsýslu Strandabyggðar, þ.e. bréf fyrrverandi sveitarstjórnar og það er ekki ástæða fyrir sveitarfélagið að taka ákvörðun í þessu málið eða fella úr gildi ákvarðanir.  Málinu er lokið af hálfu ráðuneytisins.

Við í meirihluta sveitarstjórnar, munum áfram byggja okkar stjórnsýslu á þeim venjum sem hafa gilt í sveitarstjórn Strandabyggðar, sem t.d. fyrrverandi sveitarstjórn vann eftir, sem og ráðleggingum lögfræðinga og þeim ábendingum sem komu frá ráðuneytinu.  Að öðru leyti er þessu máli lokið og vonandi skapast nú vinnufriður í sveitarfélaginu og innan sveitarstjórnar.

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón