A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Rauði Krossinn

Hjördís Inga Hjörleifsdóttir | 09. febrúar 2023

Miklar hamfarir hafa átt sér stað í Tyrklandi og Sýrlandi og í því samhengi minnum við á þá aðstoð sem Rauði krossinn veitir þeim sem á þurfa að halda í aðstæðum sem þessum.  

Á eftirfarandi síðu er hægt nálgast upplýsingar um hvernig Rauði krossinn á Íslandi er að bregðast við jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi og hvernig fólk getur lagt sitt af mörkum til að hjálpa.

Á síðunni er einnig hægt að finna bæklinga um sálrænan stuðning á íslensku, ensku og arabísku.

Afleiðingar jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi og aðstoð Rauða krossins - Rauði krossinn á Íslandi (raudikrossinn.is)

Major disasters have occurred in Turkey and Syria, and we would like to remind people of the Red Cross and the assistance and support they provide in situations like these to those who need it.

On the following webpage you can access information about how the Red Cross in Iceland is responding to the earthquakes in Turkey and Syria and how people can contribute to help.

On the webpage you can also find brochures about psychological support in Icelandic, English and Arabic.

Consequences of the earthquakes in Turkey and Syria and the assistance of the Icelandic Red Cross - Rauði krossinn á Íslandi (raudikrossinn.is)

112 dagurinn

Salbjörg Engilbertsdóttir | 09. febrúar 2023

112 dagurinn er haldinn árlega þann 11.febrúar. (11.2)
Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðila sem tengjast því og hvernig hún nýtist almenningi.
Í tilefni 112 dagsins næstkomandi laugardag 11.2.2023, vilja björgunarsveitirnar Dagrenning og Björg ásamt slökkviliði, lögreglu, sjúkraflutningum og Rauða krossinum bjóða öllum að koma og hitta viðbragðsaðila og skoða búnað þeirra.
Það verður opið í félagsheimilinu á Hólmavík frá kl. 13.00 og eitthvað frameftir.


Með bestu kveðjum frá viðbragðsaðilum á Ströndum.

Skýrsla EFLU um grunnskólann á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 03. febrúar 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Hér má finna skýrslu EFLU þar sem fram koma helstu niðurstöður varðandi ástand grunnskólans.  Sveitarstjórn hvetur íbúa til að kynna sér skýrsluna og ef einhverjar spurningar vakna, ekki hika við að hafa samband.

Í stuttu máli má segja að báðar skólabyggingarnar eru viðgerðarhæfar. Gamli hlutinn er þó mun verr farinn en sá yngri.  Við skulum hafa í huga að eldri hlutinn var reistur árið 1947 og sá yngri árið 1982.  Raki fannst í gólfi og veggjum í báðum byggingum, mikið tréverk og gólfefni þarf að fjarlægja, endurnýja alla glugga nema þá sem eru nýlegir, skoða drenlagnir, frárennsli, lagnakerfi almennt, loftun þaks og setja upp loftræstingu, svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarstjórn hefur ákveðið að leita eftir kostnaðarmati frá EFLU sem og tveimur öðrum verktakafyrirtækjum.  Að auki er leitað til sérfræðinga hvað varðar faglega skoðun á niðurstöðum skýrslunnar.  Við munum fá nánari upplýsingar og kostnaðarmat á næstu vikum og þá verður sagt frá næstu skrefum.  Lítið annað liggur fyrir að svo stöddu.  Búið er að kynna helstu niðurstöður sérstaklega fyrir starfsmönnum og foreldrum.

Hins vegar munum við nú leggja megin áherslu á  að huga að starfsfólki og nemendum skólans.  Það er ljóst þessi snöggu umskipti og óvissa um framtíð skólans, valda mörgum áhyggjum og er það vel skiljanlegt.  Við munum því endurskoða núverandi kennslufyrirkomulag, með það í huga að: bæta starfsaðstöðu og líðan starfsmanna og nemenda, draga úr álagi, draga úr akstri milli starfsstöðva og efla samverustundir.  þessi vinna er komin af stað.

Sveitarstjórn Strandabyggðar vill þakka og hrósa öllum starfsmönnum skólans og sveitarfélagsins sem með litlum fyrirvara gerðu kennslu mögulega á þremur stöðum í þorpinu.  Eins viljum við þakka foreldrum og öðrum sem hlut eiga að máli, fyrir skilning og stuðning.  En umfram allt viljum við þakka og hrósa krökkunum, sem hafa sýnt þessu mikinn skilning og mikla þolinmæði frá upphafi.  Við vitum samt að þetta er farið að reyna á alla og við munum taka á því, sem fyrr segir.

Áfram Strandabyggð!

Kveðja 
Þorgeir Pálsson
Oddviti

Tengill á fund með foreldrum grunnskólans

Þorgeir Pálsson | 02. febrúar 2023

Vegna gjaldskrárhækkanna

Þorgeir Pálsson | 02. febrúar 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Frá áramótum hafa vissar gjaldskrárhækkanir tekið gildi.  Það gerist samhliða fjárhagsáætlanagerð, að sveitarstjórn þarf að rýna í gjaldskrár og hækka þær, bæði til að viðhalda tekjum sveitarfélagsins en eins til að halda í við kostnaðarhækkanir við veitt þjónustustig.  Hér í Strandabyggð erum við vön tiltölulega háu þjónustustigi, hvort sem það ert.d. snjómokstur eða þjónusta leikskóla. 

 

Við þessa fjárhagsáætlanagerð tók sveitarstjórn þá ákvörðun, að hækka gjaldskrá almennt um 10% heilt yfir.  Við þá ákvörðun var fyrst og fremst horft til þess að sveitarfélagið er á viðkvæmum stað i sinni fjárhagslegu endurskipulagningu og því þurfa allar rekstrareiningar að skila tekjum til þeirrar endurskipulagningar. 

 

Fram hefur komið umræða um hækkun leikskólagjalds, sem nú er 42.480 með mat. í 8 tíma vistun. Hækkunin frá fyrra ári er kr.  3.865.- , eða úr kr. 38.615.- í kr. 42.480.-  Í ljósi þeirrar góðu og miklu starfsemi sem innt er af hendi á leikskólanum, er þetta ekki mikil hækkun.  Gjald í tónlistarskólann var einnig hækkað og gilda þar sömu rök og í öðru.

 

Á móti er rétt að hafa í huga, að leikskólagjöldum er ætlað að styðja við rekstur leikskólans og viðhalda því góða starfi sem þar fer fram.  Leikskólastigið er gífurlega mikilvægt, því þar er grunnurinn lagður.  Krakkarnir okkar koma vel undirbúin upp í grunnskóla og þannig viljum við hafa það.  Leikskólagjöld almennt á landinu eru of lág og hafa alls ekki fylgt launaþróun í landinu.  Ef við færum þá leið að takmarka hækkun leikskólagjalds, værum við einfaldlega að takmarka möguleika okkar til að bjóða jafn öflugt starf í leikskólanum og raun ber vitni.

 

Þá hafa einhverjar ábendingar komið fram varðandi innheimtu mötuneytiskostnaðar og hafa einhverjir foreldrar kallað eftir frádrætti þegar barn kemst ekki í skólann, fer í frí eða þess háttar.   Nú er það svo, að fyrirsjáanleiki í fjölda máltíða er lykilatriði fyrir þjónustuaðila sem sér skólunum fyrir mat.  Að auki er skrifstofa Strandabyggðar einfaldlega of fámenn til að hægt sé að standa í slíkum útreikningum mánaðarlega. Foreldrar greiða fæðiskostnað á  mánaðargrundvelli og út frá þeim fjölda sem skráður er í mat, er hægt að áætla innkaup.  Það er viðbúið að sérsniðinn taxti eftir fjölda matardaga hvers barns, myndi hækka matarkostnað verulega, enda aukið umfang og vinna sem þessu myndi tengjast. 

 

Það er von okkar að fólk sýni þessu fyrirkomulagi skilning og sé samstíga okkur í því að efla þjónustustigið en á sama tíma að sjá til þess að kostnaður við það sé viðráðanlegur.

 

Að lokum hvet ég foreldra til að hafa samband við mig beint thorgeir@trandabyggd.is eða í 899-0020, eða skrifstofu Strandabyggðar ef spurningar vakna, eða þið viljið koma á framfæri athugasemdum eða ábendingum.  Það er mikið álag á starfsfólki grunnskóla í að samhæfa kennslu á þremur stöðum og ég því bið ég ykkur að hlýfa þeim eins og kostur er.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón