Þorgeir Pálsson | 14. maí 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Vikan að baki var ekki ólík öðrum að því leyti, að það var nóg að gera hjá öllum. Það eru mörg verkefni á borðum allra starfsmanna og það sést t.d. vel í forstöðumannaskýrslum, sem eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins, að verkefnin eru mörg og fjölbreytt. Það er rétt að hrósa starfsmönnum öllum fyrir þeirra vinnuframlag undanfarið. Allir leggja sig fram, oft undir miklu álagi og mannfæð.
Endurnýjun tækja og búnaðar í íþróttamiðstöðinni
Undanfarna daga hafa starfsmenn Laugarinnar unnið að uppsetningu tækjabúnaðar sem lengi hefur verið beðið eftir. Tækjabúnaður í sundlauginni hefur ekki verið endurnýjaður í áraraðir, en nú er verið að bæta úr því. Sundlaugin er og verður áfram eitt helsta aðdráttarafl okkar hér á Hólmavík, sem og íþróttasalurinn, sem er í sífellt meiri notkun.
BOFS
Fulltrúar Barna- og fjölskyldustofu, komu hingað í vikunni og fræddu okkur um áherslur við innleiðingu á nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Á fundinn komu einnig samstarfsaðilar okkar í Dalabyggð, Kaldrananeshreppi og Reykhólum, sem og fulltrúar heilbrigðisstofnunarinnar og lögreglu. Þetta var mjög fræðandi og gagnlegur fundur og góður samstarfsandi í hópnum. Framundan hvað Strandabyggð varðar, er að skipa starfshóp og innleiðngarteymi auk þess að tilnefna tengiliði og málastjóra. Framundan er einnig almenn kynning á farslædarlögunum og innleiðingu þeirra.
Grunnskólinn
Litli Klettur hefur lokið sinni vinnu. Nú hefst uppbygging og framundan eru verðklannanir varðandi nýja glugga, hurðir, málun, gólfefni ofl. Í þeirri stöðu sem ríkir á landinu varðandi aðgengi að verktökum og iðnaðarmönnum, þá getum við verið mjög sátt og ánægð með að hafa fengið Litla Klett í þetta verk, því vinnan sem þeir skiluðu var einstök. VERKÍS á Ísafirði vinnur nú með okkur hvað varðar verkstjórn og hönnun yngri hlutans. Sveitarstjórn hitti kennara í byrjun vikunnar uppi í skóla og fórum við þar yfir hugmyndir um nýtingu yngri hlutans.
Styrkur til kaupa á færanlegri skólastofu
Gleðifréttir vikunnar voru þær, að Strandabyggð fékk 24.4 milljónir í styrk frá Fiskeldissjóði, til kaupa á færanlegri kennslustofu, sem rúmar 20 nemendur. Þetta gladdi okkur mjög og gerir okkur margt auðveldara þegar kemur að því að skipuleggja nýtingu á yngri hlutanum.
Vonbrigði vikunnar
Það hljóta að vera vonbrigði vikunnar að Diljá komst ekki áfram í Eurovision, en við sem og flestir aðrir reiknuðum fastlega með henni í lokakeppnina. Umræðan og skrif á samfélagsmiðlum sýna, að hér í Strandabyggð eru margir Eurovision reynsuboltar dyggir aðdáendur keppninnar og vonandi hafa þeir samt náð að skemmta sér yfir lokakeppninni í gærkvöldi
Margt annað vannst í liðinni viku, þar á meðal stjórnarfundur í Sorpsamlagi Strandasýslu. Þar erum við að skoða valkosti varðandi sorphirðu í þéttbýli og verður þetta kynnt innan tíðar fyrir íbúum. Í sumar verður síðan farið í að afmarka starfsemina betur á Skeiði og skerpa línur varðandi aðgengi íbúa.
Að lokum er rétt að senda bændum góðar kveðjur með ósk um gott gengi í sauðburðinum sem nú er kominn vel af stað.
Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti