A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Stöðvun rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 14. júní 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar og aðrir,

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur fundað um þá stöðu sem nú er komin upp, eftir að tilkynnt var um stöðvun rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík.  Þetta er mikið högg fyrir alla, en fyrst og femst fyrir starfsmenn, sem margir hverjir hafa unnið hjá fyrirtækinu í áraraðir og jafnvel alla sína starfstíð.  Fyrstu viðbrögð sveitarstjórnar eru því hlýhugur til alls þessa fólks, og þakkir fyrir þeirra vinnuframlag í gegnum tíðina.  Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái að byggja upp slíkan starfsmannahóp. Sveitarstjórn mun skoða alla möguleika á að veita starfsfólki þá aðstoð og þjónustu sem í boði er við þessar aðstæður.

Sveitarstjórn vill síðan leggja áherslu á, að það er mikilvægt að eigendur Hólmadrangs hafa gefið það skýrt til kynna, að þeir hyggist vinna með heimamönnum að skoðun nýrra tækifæra og hafa þar nefnt sem dæmi nýlega viljayfirlýsingu Strandabyggðar og Íslenskra verðbréfa um skoðun á möguleikum í haftengdum verkefnum.  Þá hafa eigendur ráðið verkefnastjóra með mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði, til að vinna með heimamönnum að skoðun framtíðarmöguleika. Sveitarstjórn mun beita sér eins og kostur er í þessari vinnu.

Við köllum eftir samstöðu og samhug meðal íbúa í þeirri stöðu sem nú blasir við.

Kveðja
Þorgeir Pálsson

Íbúafundur á Hólmavík!

Þorgeir Pálsson | 14. júní 2023
Er Kvíslatunguvirkjun mikilvæg fyrir Strandabyggð?

Þessari spurningu og mörgum öðrum, verður svarað á íbúafundi í Félagsheimilinu kl 18 í dag.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að kynna skipulagslýsingu og hefja skipulagsgerð vegna fyrirhugaðrar virkjunar í Selárdal.  Um er að ræða Kvíslatunguvirkjun, sem Orkubú Vestfjarðar stendur að.

Þar verður farið yfir:

1. Forsendur og markmið Kvíslatunguvirkjunar. Sölvi R. Sólbergsson, Orkubú Vestfjarða
2. Matsáætlun, skipulag og rannsóknir. Sigmar Arnar Steingrímsson, Verkís

    1. Yfirlit yfir Kvíslatunguvirkjun og helstu kennistærðir
    2. Matsáætlun vegna Kvíslatunguvirkjunar, sem nú er til kynningar.
    3. Breyting á aðalskipulagi Strandabyggðar og nýtt deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar.
    4. Fyrirhugaðar rannsóknir sumarið 2023.
Fjölmennum og kynnum okkur málið.  NB:  Allir velkomnir, íbúar jafnt sem aðrir.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Varðandi Hamingjudaga og hátíðarhöld

| 12. júní 2023

Í ljósi þess hve lítill hluti heimamanna virðist hafa áhuga á hátíðarhöldum um Hamingjudaga var ákveðið, eftir skoðanakönnun fyrr í vetur sem TÍM nefnd stóð fyrir, að hafa ekki hefðbundin hátíðarhöld í ár.  Einnig liggur í því töluverður sparnaður því undanfarin ár hafa hátíðarhöldin kostað um tvær milljónir króna. Því fjármagni er ekki vel varið ef heimamenn sýna þessum uppákomum lítinn áhuga og njóta þeirra ekki með þátttöku. 

Örfáir sýndu áhuga á að standa að hátíðarhöldum og því augljóslega ekki almennur vilji til að halda þessari hátíð úti. 

En ef það hefur breyst og íbúa langar að koma saman dagskrá þá er sjálfsagt að aðstoða einstaklinga og eða félagasamtök, sem hafa eitthvað fram að færa öðrum til skemmtunar.  

Hægt væri að fá húsnæði og aðstoð við auglýsingar ofl. 

 

Bæjarhátíðir eru almenningshátíðir, þar sem íbúar og félagasamtök á svæðinu taka sig saman og gera sér glaðan dag en ef sú forsenda er ekki fyrir hendi þá hefur sveitafélgið því miður ekki fjárhagslega burði eða mannafla til að halda slíku úti eitt og sér.

 

Virðingarfyllst

 

Fyrir hönd Tómstunda- Íþrótta og Menningarnefndar 

 

Sigríður Jónsdóttir 

 

Húsbygging í Víkurtúni

Þorgeir Pálsson | 12. júní 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Í ljósi umræðu á samfélagsmiðlum um húsbyggingu í Víkurtúni, á lóðinni þar sem Lillaróló er núna, er rétt að undirstrika eftirfarandi:  Fyrirhuguð er bygging á 4ra íbúða raðhúsi sem er hugsað sem leiguhúsnæði fyrir tekju- og eignalága einstaklinga.  Það er Brák hses, sem er á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem stendur að húsbyggingunni.  Fyrirtækið Landsbyggðarhús ehf (https://www.landsbyggdarhus.is/) mun reisa bygginguna.  Sveitarstjórn hefur staðfest stofnframlag vegna þessarar byggingar og leggur til lóðina, en mun að öðru leyti ekki koma að byggingunni með beinum hætti.  Hins vegar er sveitarfélagið með þessari aðkomu að standa við hlutverk sitt að tryggja framboð á íbúðum í sveitarfélaginu.  Svo má bæta við að í vinnslu er nú skipulag íbúðasvæðis í Brandskjólum, og er sú vinna hluti af endurgerð aðalskipulags Strandabyggðar.

 

Hvað Lillaróló varðar, munum við finna honum annan stað og nýta þau leiktæki sem eru í lagi.  Lillaróló hverfur því ekkert úr samfélaginu, þó hann færi sig á annan stað.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

 

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 11. júní 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Vikan sem leið var um margt gjöful og skilaði mikilvægum áföngum. 

Sorpsamlag Strandasýslu

Ársfundur Sorpsamlags Strandasýslu var haldinn í byrjun vikunnar.  Hann var í senn hefðbundinn ársfundur, þar sem skýrsla stjórnar, minnisblað framkvæmdastjóra og ársreikningur félagsins fengu blessun stjórnar.  Fram kom þar m.a. að sveitarfélögin sem standa að Sorpsamlaginu hafa ákveðið að greiða upp tapið sem hefur safnast upp sl ár, auk þess sem mánaðarlegt framlag þeirra til félagsins verður hækkað um 25%.  Umsvif Sorpsamlagsins hafa aukist mikið undanfarið, á sama tíma og framlög hafa staðið í stað.  Reksturinn hefur því verið neikvæður lengi, en nú stendur til að snúa þeirri þróun við.  Þá kom Stefán Gíslason inn á fundinn og kynnti svokallaðar botnlangastöðvar, sem gætu komið í stað  þess að hafa fjórar tunnur við hvert hús.  Frekari kynning og íbúafundur verða í haust.

Tankurinn

Í vikunni átti sveitarstjórn fund með aðstandendum hugmyndarinnar sem barst í hugmyndasamkeppni um nýtingu Tanksins.  Verður unnið að því að finna farveg fyrir hugmyndina, skilgreina kostnaðarliði og kostnaðarþátttöku beggja, auk þess sem leitað verður til fjárfesta.  Að hugmyndinni standa þau Jón Rafnar Benjamínsson og Alma Benjamínsdóttir.  Ef allt gengi eftir, yrði Tankurinn í framtíðinni með glæsilegri kaffihúsum og útsýnisstöðum landsins, þar sem íbúar og gestir gætu sest niður allan ársins hring og notið stórkostlegs útsýnis og léttra veitinga. Almenn kynning verður haldin á síðari stigum.

Sterkar Strandir

Samráðsfundur var haldinn með verkefnastjóra Sterkra Stranda, oddvita og fulltrúa verkefnastjórnar.  Þetta var mjög góður fundur og ríkir full eining og samstaða um framhaldið.  Sveitarstjórn er og hefur alltaf verið, samstíga í að sækja um framhald á verkefninu.  Rætt var um möguleika á að kynna Strandabyggð meira útávið og jafnvel alþjóðlega, auk þess sem áhugaverðar hugmyndir að verkefnum voru rædda.  Þessir fundir eru haldnir með reglulegu millibili og styrkja tengslin milli sveitarstjórnar og verkefnastjóra.

Greinargerðir

Nokkur tími fór í það í vikunni að skrifa greinargerðir til innviðaráðuneytisins, vegna tveggja kvartana sem hafa borist, annars vegar frá minnihlutanum og hins vegar frá íbúa tengdum fyrrverandi sveitarstjórn.  Fór oddviti á fund lögfræðings sveitarfélagsins í Reykjavík vegna þessa.  Það er umhugsunarefni að nú, ári eftir að þessi sveitarstjórn tók við, sé enn þörf á vinnuframlagi og kostnaði vegna þessa.  Þessi vinna, sem er langt frá því hefbundin vinna oddvita eða sveitarstjóra, tekur tíma frá öðrum, lögbundnum verkefnum og er farin að kosta sveitarfélagið talsvert í beinum kostnaði og vinnuframlagi.  Vonandi mun þetta þó jafna sig.

Önnur mál

Í vikunni náðust mikilvægar vörður í málefnum grunnskólans, og má þar nefna að nú eru í gangi verðkannanir vegna nýrra glugga og hurða og hitalagna í gólf.  Þá er búið að fá tilboð í steypu í ílögn og unnið að því að fá múrara í það verk. Búið er að staðfesta kaup á færanlegri kennslustofu og verður hún afhent í sumar. 

Skemmtiferðaskip heimsótti okkur í vikunni og von er að öðru síðar í þessum mánuði.  Margir nefndarfundir voru í vikunni enda sveitarstjórnarfundur framundan. Búið er að kaupa girðingarefni, staura og vír, til að loka fyrir göt í girðingunni meðfram innstrandavegi.  Hlutaðeigandi bændur og landeigendur geta nú í komandi viku, framkvæmt viðgerðir á sinni girðingu. Hér er um að ræða samstarf sveitarfélagsins og bænda.

Það er mikið að gerast í sveitarfélaginu og allir leggja sitt af mörkum til að þoka málum áfram, fegra bæinn, veita góða þjónustu og skapa gott samfélag.

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón