A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Félagsmiðstöðin Ozon auglýsir eftir frístundaleiðbeinanda

Salbjörg Engilbertsdóttir | 03. janúar 2023

Ozon youth center is looking for youth workers - please be in touch if you are interested.

Markmið félagsmiðstöðva er að þjálfa félags- og samskiptafærni barna og unglinga í gengum leik og starf. Markhópur félagsmiðstöðva er börn og unglingar á aldrinum 10-16 ára.

Frístundaleiðbeinandi vinnur faglegt starf með börnum og unglingum og skipuleggur hópastarf og verkefni tengdum menningar-, félags- og forvarnarstarfi félagsmiðstöðvarinnar. Starfað er í anda lýðræðis á starfsstaðnum og markvisst er unnið að því að auka sjálfstæði, ábyrgð og virkni þeirra sem taka þátt í starfinu. 

 
Helstu verkefni og ábyrgð
  • Skipulag og umsjón með hópum, verkefnum og viðburðum í menningar-, félags- og tómstundastarfi barna og ungmenna í samráði við tómstundafulltrúa. 
  • Leiðbeinir börnum í faglegu frístundastarfi sem mætir þeirra þörfum hverju sinni.
  • Vinnur í anda lýðræðis og eykur sjálfstæði, ábyrgð og virkni barna og ungmenna markvisst í starfinu.
  • Vinnur samkvæmt 1. og 2. stigs forvörnum í öllu starfi félagsmiðstöðvarinnar.
  • Sinnir öðrum þeim verkefnum sem honum eru falin og falla undir starfssviðið.

Hæfniskröfur:

  • Reynsla af vinnu með börnum og ungmennum er æskileg.
  • Hugmyndaauðgi, jákvæðni og sveigjanleiki.
  • Áhugi á starfi með börnum og unglingum og framúrskarandi samskiptahæfni.
  • Metnaður í starfi og hæfni til að vinna í hóp
  • Sjálfstæði, frumkvæði, metnaður og skipulögð vinnubrögð
  • Hreint sakavottorð

Um er að ræða 10-20% hlutastarf síðdegis eða á kvöldin. Starfið hentar vel sem aukavinna með námi eða öðru starfi. Umsækjandi þarf að geta byrjað sem fyrst.

Umsóknarfrestur til miðnættis 10. janúar og skal umsóknum skilað á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is ásamt ferilskrá
Nánari upplýsingar gefur Tómstundafulltrúi í síma 895-5509

 
 

Gleðilegt Nýtt Ár!

Þorgeir Pálsson | 02. janúar 2023
Kæru starfsmenn og íbúar Strandabyggðar, sem og landsmenn allir, nær og fjær, 

Sveitarstjórn Strandabyggðar óskar ykkur öllum Gleðilegs Nýs Árs og þakkar árið sem nú er liðið.  

Horfum bjartsýn fram á við og vinnum saman að því að efla Strandabyggð!

Kær kveðja
Sveitarstjórn Strandabyggðar

Breytingar á sorphirðu á árinu 2023

Þorgeir Pálsson | 30. desember 2022

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Gleðilega hátíð!  Vonandi hafa allir haft það sem best undanfarna daga.  Við viljum þakka íbúum fyrir vel unnið verk í flokkun á sorpi í gegnum tíðina og hvetjum ykkur til að halda áfram á þeirri braut. 

Framundan eru breytingar á framkvæmd sorphirðu í Strandabyggð, sem og um allt land.  Ný lög taka gildi um áramót og fela þau lög í sér breytingar, sem við viljum tæpa á hér í þessum pistli.  Nánari kynning með dreifibréfi inn á heimili, kemur síðan fljótlega á nýju ári.  Það má reikna með að innleiðing þessara breytinga taki nokkra mánuði og því leggjum við hjá Sorpsamlagi Strandasýslu áherslu á að vanda vel til verka og nýta tímann vel, í stað þess að keyra í gegn breytingar með hraði. 

  • Flokkun verður einfaldari!  Plast er td. ekki lengur flokkað í 3 flokka (hart, litað og glært) heldur fer allt plast saman í einn flokk.  Sama gildir um pappír, sem nú fer í einn flokk, en ekki 3 (fernur, bylgjupappi og annar pappír) líkt og áður
  • Fleiri tunnur.  Tunnum verður fjölgað.  Það verða 3-4 tunnur við hvert heimili og stærri ruslagámar við fjölbýli,  þannig að flokkunin á sér í raun stað utanhúss, beint í tunnurnar.  Það þarf því ekki lengur að flokka eins mikið innanhúss
  • Lífrænn úrgangur.  Lífrænn úrgangur fer í eina tunnu eða sérstakt hólf í tunnu, eftir því hvaða tunnugerð verður valin
  • Almennt sorp.  Það sem ekki flokkast sem plast, pappír eða lífrænt sorp, fer í almenna ruslatunnu.  Innheimt verður eftir magni eða rúmmáli í tunnu þegar sorpið er sótt.  Hafið í huga;  þeim mun betur sem allt er flokkað í plast, pappír, lífrænt eða annað, þeim mun minna verður eftir í almenna ruslinu og þar með minna að borga! Þess vegna skiptir markviss flokkun öllu máli.
  • Annað rusl.  Spilliefnum, gleri og málmum, skal áfram skilað í móttökustöðina á Skeiði.
  • Móttökustöðin á Skeiði.  Móttökustöðin verður óbreytt um sinn, en það verða breytinga hvað varðar aðgengi og opnunartíma.  Nánari tímarammi tilkynntur síðar
  • Sorphirðudagar.  Sorphirða verður óbreytt um sinn, þ.e. sorp er sótt annan hvern mánudag, en nánara dagatal verður kynnt síðar. Við biðjum íbúa að moka frá tunnum og auðvelda aðgengi.

Stjórn og starfsmenn Sorpsamlagsins vinna nú að undirbúningi innleiðingu þessara laga og er verið að skoða hvaða leiðir er best að fara.  Það þarf td. að kaupa inn mikið magn af ruslatunnum og minni ruslagámum, gera þarf ráð fyrir góðu aðgengi að ruslapokum og eins er verið að skoða opnunartíma og aðgengi að móttökustöðinni á Skeiði.  Þetta verður allt kynnt á næstu vikum og mánuðum.

Hér eru slóðir á nýju lögin og sérstaka handbók Umhverfisstofnunar, sem fer vel yfir þessar breytingar.  Við hvetjum íbúa til að kynna sér þessar breytingar og hika ekki við að hafa samband við Sorpsamlagið ef spurningar vakna.  Hægt er að hringja í Sigurð Marinó í síma: 894-4806, netfang siggimarri@strandabyggd.is eða Þorgeir í síma 899-0020, netfang thorgeir@strandabyggd.is

Hvað fyrirtæki varðar, verður byrjað að innheimta fyrir sorphirðu strax eftir áramót.

Þessar breytingar hafa marga kosti í för með sér og því er mikilvægt að við náum saman um að gera þetta rétt og vel frá byrjun.  Samvinna Sorpsamlags, íbúa og fyrirtækja er því lykilatriði.  Þetta skiptir okkur öll máli og við erum í þessu verkefni saman!

Kveðja

Stjórn og starfsmenn Sorpsamlags Strandasýslu

Auka álag á útsvar, án áhrifa fyrir íbúa

Þorgeir Pálsson | 30. desember 2022
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Á aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær, 29.12.22 var samþykkt að leggja 0,22% álag á útsvarsprósentuna, sem var fyrir 14,95%.  Útsvarsprósentan er þetta há, þar sem sveitarfélagið hefur glímt við fjárhagsvanda undanfarin ár og hefur fengið heimild innviðaráðherra til að hafa þetta háa prósentu árið 2023, til að auka tekjur sveitarfélagsins.

Ástæða þess að 0,22% eru lögð á útsvarið, er sú staða sem ríkir á landinu varðandi þjónustu við fatlað fólk, en þar skortir verulega á að fjármagn sé tryggt til að inna af hendi nauðsynlega þjónustu.  Á landsvísu skortir á annan tug milljarða til að endar nái saman í þessum málaflokki.  Nú hefur náðst samkomulag milli þriggja ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að mæta þessum vanda að einhverju leyti og er það gert með því að sveitarfélögin leggja 0,22% á útsvarið, sem fyrr segir, og renna þær tekjur til Jöfnunarsjóðs, sem síðan úthlutar framlögum til sveitarfélaga á landinu.  Ríkið mun samhliða þessu lækka tekjuskatt um samsvarandi hlutfall í báðum skattþrepum.  Þessi ákvörðun felur því ekki í sér auknar álögur á íbúa.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti

Hugmyndasamkeppni varðandi nýtingu vatnstanksins

Þorgeir Pálsson | 28. desember 2022

Vatnstankurinn fyrir ofan kirkjuna á Hólmavík, er sterkt kennileiti, en einnig minnisvarði liðinna tíma.  Tankurinn var vantsforðabúr Hólmavíkur og miðlaði vatni út í húsin.

Af og til í gegnum tíðina hafa komið upp hugmyndir um nýtingu tanksins og hefur þá gjarnan verið horft til þess að gera þar útsýnispall eða kaffihús.  Einnig hafa komið fram hugmyndir um að nýta tankinn að innan undir safn.

Sveitarstjórn Strandabyggðar vill nú fanga þessar hugmyndir sem og aðrar og kallar því eftir hugmyndum um nýtingu tanksins. 

Í hugmyndinni skal koma skýrt fram;

  • Hver nýting tanksins yrði
  • Umfang uppbyggingar
  • Gróft kostnaðarmat
  • Áætlaður tímarammi framkvæmda. 

Einnig skal þar koma fram hvaða kvaðir og/eða framkvæmdir sveitarfélagið þyrfti að legga í, svo hugmyndin myndi ná fram að ganga.  Hér er átt við innviði eins og aðgang að vatni, frárennsli, rafmagni o.s.frv.


Af hálfu sveitarfélagsins eru eftirfarandi kröfur gerðar og forsendur settar:

  1. Tímarammi. Verkefnishafi, skal ljúka verkinu innan 3ja ára frá undirskrift samnings.  Standist tímaáætlun ekki, hefur sveitarfélagið rétt til að innheimta dagsektir
  2. Nærumhverfi. Verkefnið nær til tanksins og nærumhverfis hans, sem skal skilgreint í verksamningi.  Á því svæði má gera ráð fyrir göngustígum, bekkjum, sætum en ekki mannvirkjum, söluskálum eða þess háttar
  3. Umhverfisspjöll.  Verkefnishafi skal tryggja frágang á umhverfi að framkvæmdum loknum.
  4. Mengun. Starfsemin skal ekki skapa mengun af neinu tagi
  5. Sagan. Saga Tanksins og staða hans í mannlífi á Hólmavík skal virt í hvívetna.

Formlegum og vel útfærðum hugmyndum skal skilað á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 25 eða á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is merkt „Tankurinn – hugmyndasamkeppni“ fyrir 1. febrúar 2023.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að taka eða hafna hvaða tillögu sem er.

Náist samkomulag við verktaka eða hugmyndasmið um nýtingu á Tankinum, skal gerður verksamningur þar um sem tekur ítarlegar á öllum forsendum sem hér eru tilgreindar, t.d. umhverfi, innviði, starfsemi og afleidd áhrif.

Allar nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri, Þorgeir Pálsson, í síma 899-0020 eða á netfangið thorgeir@strandabyggd.is
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón