A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 25. júní 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Skipulagsmál voru áberandi í liðinni viku.  Unnið er að endurgerð aðalskipulags og fundaði vinnuhópur sveitarfélagsins í vikunni.  Á þeim fundi voru ræddar hugmyndir að uppbyggingu íbúðahverfis í Brandskjólum og tenging þess hverfis við annars vegar Vitabraut og hins vegar svæðið við íþróttamiðstöðina og tjaldsvæðið.  Einnig var skipulag hótelreitsins skoðað.  Þeir sem koma að uppbyggingu hótelsins, vinna nú að gerð endanlegra teikninga og skipulags umhverfisins í kring um hótelið, á meðan við í sveitarfélaginu ræðum endurskipulagningu tjaldsvæðisins.  Nú þarf t.d. að skilgreina og ákveða hvað á að vera inni á svæðinu, og er þar t.d. verið að ræða; rafhleðslustöðvar, sem Tesla á Íslandi mun líklegast standa að, leiksvæði á tjaldsvæðinu, aukið rými fyrir tjöld, húsbíla og önnur ferðahýsi auk þjónustumiðstöðvar.  Þetta er spennandi vinna sem tekur sífellt á sig skýrari mynd.

Hólmadrangur

Áfram er unnið að málefnum Hólmadrangs og leggjast þar allir á eitt.  Í vikunni var t.d. fundur með þingmönnum, Stefán Vagn Stefánsson, fyrsti þingmaður kjördæmisins kom hingað á Hólmavík, ásamt Gunnlaugi Sighvatssyni, verkefnastjóra Samherja og fundaði stýrihópur á vegum sveitarfélagsins um aðgerðir og næstu skref. Í lok vikunnar fengu þingmenn síðan hver um sig verkefni til að vinna að, næstu daga.  Allir eru virkjaðir og allir eru reiðubúnir að skila sínu. Þá komu fulltrúar VerkVest og Vinnumálastofnunar hingað auk þess sem RÚV gerði þessu skil í sínum fréttum.  Starfmenn og stjórnendur Hólmadrangs eiga hrós skilið fyrir æðruleysi og yfirvegun við þessar aðstæður.

Ný tækifæri

Áfram er unnið samkvæmt viljayfirlýsingu sveitarfélagsins og Íslenskra verðbréfa og er þar fyrst og fremst verið að skoða hugsanlega uppbyggingu í fiskeldi og þararækt.  Aðrir möguleikar eru líka á borðinu.  Þá eru fyrirtæki á svæðinu einnig að skoða hugsanleg störf sem gætu hentað starfsfólki Hólmadrangs í vissum tilvikum.  Það er þó alltaf svo að sum tækifærin eru til skemmri tíma og önnur lengri tíma og skiptir því máli að meta hvert tækifæri fyrir sig út frá bakgrunni og áherslum starfsmanna.

Grunnskóilinn

Málin þokast í rétta átt.  Búið er að semja við verktaka um lagningu hitalagna í gólf í yngri hlutanum og hefst sú vinna í komandi viku.  Innan tveggja vikna er gert ráð fyrir að flota gólf og lakka.  Þá er búið að semja við verktaka um nýja glugga og hurðir í skólann.  Næstu skref eru að gera verðfyrirspurn varðandi frágang á drenlögn og málun skólans að innan. Færanlega skólastofan kemur í komandi viku. Þetta er því allt í rétta átt.

Leikskólalóðin

Hafnar eru viðræður við verktaka um vinnu við breytingar á leikskólalóðinni, samkvæmt áherslum starfsmanna, foreldra og leikskólakrakka.  Vonandi verður hægt að ganga frá samningi í komandi viku.  Þá er nú gert ráð fyrir að vegrið fyrir ofan leikskólann verði sett upp um miðjan júlí.

 

Umhverfið okkar, ferðamenn, ný fyrirtæki heimamanna ofl.

Það er rétt að hrósa krökkunum í vinnuskólanum og starfsmönnum áhaldahúss fyrir góða vinnu við að fegra umhverfið okkar.  Aðrir starfsmenn sveitarfélagisns fá sömuleiðis hrós, enda allir að gera sitt besta.  Það sést vel að fjöldi ferðamanna eykst dag frá degi og álagið á tjaldsvæðið og sundlaugina þar með.  Tekjur sveitarfélagsins af þessari þjónustu aukast í takt og skipta okkur verulegu máli.  Það er rétt að hafa í huga að þjónustustig gagnvart ferðamönnum  er nokkuð hátt og er t.d. boðið upp á salernisaðstöðu í félagsheimilinu allan sólarhringinn og nú yfir sumartímann er hægt að sitja í anddyri félagsheimilisins, þvo þvott eða elda sér mat. 

Fjölbreytt námskeið hafa verið í gangi og ný námskeið eru framundan. Það hefur verð sérlega gaman að fylgjast með krökkunum hjólandi um þorpið, í fjöruferð og leikjum að undanförnu.

Það er ánægjulegt að lesa um aukna þjónustu sem heimamenn standa að, og er þar átt við t.d fótsnyrtingu og svæðanudd.  Þetta er mjög jákvæð þróun. Til hamingju!  Það er líka ánægjulegt að sjá sífellt fleiri sigla um á kajökum, enda aðstaða til þess einstök hér á Hólmavík.  Njótum sumarsins og alls þess sem umhverfið okkar hefur upp á að bjóða.  Lífið er núna!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Menningarverðlaun Strandabyggðar 2023

| 19. júní 2023
« 1 af 2 »
Menningarverðlaun Strandabyggðar árið 2023 voru afhent um helgina á Þjóðhátíðardegi Íslendinga. 

Menningarverðlaunin eru afhent ár hvert af Tómstunda- Íþrótta- og Menningarnefnd Strandabyggðar að fengnum tilnefningum. Verðlaunin eru veitt fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar og er markmið þeirra að efla menningar og listastarf í Strandabyggð. 

Í ár voru afhennt tvö verðlaun, annarsvegar Menningarverðlaun og svo Sérstök verðlaun. 
Það er Raimonda Sareikaite sem hlaut menningarverðlaunin í ár en hún er listakona frá Litháen sem er búin að búa í Strandabyggð síðan 2018. Síðan þá hefur hún sett um fjórar listasýningar meðfram öðrum störfum. Það krefst sannarlega hugrekkist að taka sín fyrstu skref sem listamaður sem nýbúi í litlu samfélagi. Við erum mjög stolt af því sem hún hefur áorkað og vonumst til að fá að njóta áfram sköpunargáfu og listaverka hennar sem hafa verið frumleg og litrík. Við vonum að þessi viðurkenning veiti henni sem og örðum innblástur og hvatningu. Við teljum það sérstaklega mikilvægt að samfélagið styðji við sína nýbúa, taki eftir og kunni að meta hæfileika þeirra og framlag til samfélags og menningar. 

Sérstök verðlaun hlaut Jón Halldórsson, ljósmyndari fyrir ljósmyndir sem hann hefur tekið og birt af mannlífi og náttúru í gegnum árin. Myndirnar hanns eru ómetanleg heimild um líf á Ströndum og hefur hann næmt auga fyrir náttúru og dýralífi. Þá er þakkarvert hvað Jón hefur verið duglegur að deila myndum af daglegu amstri og náttúru svo aðrir geti notið. 

Við óskum verðlaunahöfum innilega til hamingju og þökkum gestum fyrir komuna. 

Framlengdur umsóknarfrestur í stöðu tónlistarkennara til 1. júlí.

| 19. júní 2023

Tónskólinn á Hólmavík auglýsir eftir tónlistarkennara með deildarstjórn til að kenna á ýmis hljóðfæri auk undirleiks, kenna tónfræði, stjórna barnakór og rokkhljómsveit eldri nemenda og tónmennt á yngsta stigi.


Fullt starf 100% er í boði frá 1. ágúst 2023 en hlutfall deildarstjórnunar fer eftir stigum skóla.


Tónskólinn á Hólmavík er samrekinn Grunn-, leik- og tónskóli og er vel búinn hljóðfærum, staðsettur í Grunnskólanum á Hólmavík. Kennt hefur verið á eftirfarandi hljóðfæri: blokkflauta, þverflauta, píanó, gítar, bassi, ukulele, fiðla, trommur, trompet og saxófónn. Áhersla er lögð á fjölhæfni í hljóðfæraleik, samspil af ýmsu tagi, fjölbreytni í tónlist og framþróun í kennsluháttum. Leitað er eftir áhugasömum einstaklingi sem sýnir frumkvæði og sveigjanleika í starfi


Helstu verkefni og ábyrgð.

Viðkomandi þarf að geta kennt nemendum grunnskólaaldri á fjölbreytt hljóðfæri. Einnig þarf viðkomandi að geta leikið undir með nemendum skólans. Kostur er ef viðkomandi getur kennt á mörg hljóðfæri og tónfræðigreinar, stjórnað barnakór og hljómsveit og kennt tónmennt.


Hæfniskröfur.

Háskólapróf í tónlist æskilegt eða tónlistarnám sem nýtist í starfi. Reynsla af kennslustörfum og meðleik æskileg

Lipurð og sveigjanleiki í mannlegum samskiptum. Frumkvæði í starfi. Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð

Hreint sakavottorð


Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til og með 1. júlí 2023


Laun eru samkvæmt samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags (FT eða FÍH).

Ferilskrá og kynningarbréf sendist í tölvupósti á netfangið: skolastjori(hja)strandabyggd.is

Nánari upplýsingar um starfið veitir Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, skólastjóri.

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 18. júní 2023
Myndasmiður; Jón Halldórsson
Myndasmiður; Jón Halldórsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þrátt fyrir að margt og mikið gerist í okkar ágæta sveitarfélagi í hverri viku, er þó eitt mál liðinnar viku stærra en öll önnur; lokun rækjuvinnslu í Hólmadrangi.

Þetta var mikið reiðarslag og þó einhver teikn hafi verið á lofti, er þessi ákvörðun eigenda Hólmadrangs engu að síður mikið högg.  Og við finnum öll fyrir því, þó áhrifin og afleiðingarnar á starfsmenn séu öllu öðru, alvarlegri og meiri.  Með þessari ákvörðun er mikilvægum kafla í afvinnulífssögu Strandabyggðar lokið.  Rækjuvinnslan hefur verið órjúfanlegur hluti af lífinu á Hólmavík og fyrir marga hefur þessi vinnustaður verið nánast eins og heimilið, fjölskyldan og svo vinnan.  Fyrir þessa einstaklinga er höggið því enn stærra.

 

Starfsfólk og stjórnendur Hólmadrangs hafa unnið sitt starf vel og samviskusamlega og er ekki við þá að sakast.  Langvarandi taprekstur, erfið markaðsstaða og hár flutningskostnaður, eru megin ástæður þessa, að sögn eigenda.  Covid gerði engum greiða og markaðir virðast ekki hafa náð sér síðan þá.

Hvað er svo framundan?  Uppbygging, atvinnuleit, tækifæraleit, mótun nýrra atvinnutækifæra o.s.frv.  Sveitarstjórn, Vestfjarðastofa, alþingismenn, fyrirtæki og fjárfestar, líkt og Íslensk verðbréf, Byggðastofnun, verkalýðsfélögin og fjömargir aðrir, þurfa nú að leggjast á eitt og vinna saman að nýjum tækifærum til atvinnusköpunar.  Og sú vinna er hafin.  Margir fundir, mörg símtöl hafa átt sér stað síðustu daga, og þar eru allir samstíga og sammála um að snúa þessari stöðu við og skapa ný tækifæri.  Það verður að takast.

Orkumál

Orkumál voru áberandi í vikunni.  Orkubú Vestfjarða (OV) óskaði eftir íbúafundi til að kynna áform um Kvíslatunguvirkjun.  Á fundinum kom fram að „Kvíslatunguvirkjun verður 9,9 MW og ef vel gengur gæti virkjunin komist í rekstur í árslok 2027. Einnig komu fram áfrm um virkjun jarðhita sem losar allt að 10 MW af rafmagni og gæti tekið 2 til 4 ár í framkvæmd, gæti komist í rekstur 2026.  Að auki var rætt um Vatnsdalsvirkjun, sem yrði 20 – 30 MW og gæti ef vel gengur mögulega komist í rekstur fyrir 2030“.  Það er því margt framundan í orkumálum í Strandabyggð og þarna liggja mörg tækifæri til atvinnuuppbyggingar, fyrir utan raforkuöryggið sem þessu fylgir.

Hóteláform og skipulagsmál

Skipulagsvinna heldur áfram, bæði á vegum sveitarfélagsins og fjárfesta.  Nú erum við að byrja að skoða skipulagningu alls svæðisins í kring um íþróttamiðstöðina.  Þar þarf að huga að tjaldsvæðum, þjónustumiðstöð, bílastæðum, leiksvæði fyrir krakka, hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla, smásölu eins og matarvögnum ofl.  Þetta svæði er og verður andlit Hólmavíkur og verður enn mikilvægara sem upphafspunktur varðandi almenna lýðheilsu, gistingu og afþreyingu, þegar fram í sækir.

Kæru íbúar Strandabyggðar,  við höldum áfram og vinnum úr mótlætinu.  Þrátt fyrir allt eru tækifæri í stöðunni og þau verðum við að nýta.  Samstaða og samvinna verða lykilatriðið í þeirri vinnu sem nú er framundan. 

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

 

 

Stöðvun rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 14. júní 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar og aðrir,

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur fundað um þá stöðu sem nú er komin upp, eftir að tilkynnt var um stöðvun rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík.  Þetta er mikið högg fyrir alla, en fyrst og femst fyrir starfsmenn, sem margir hverjir hafa unnið hjá fyrirtækinu í áraraðir og jafnvel alla sína starfstíð.  Fyrstu viðbrögð sveitarstjórnar eru því hlýhugur til alls þessa fólks, og þakkir fyrir þeirra vinnuframlag í gegnum tíðina.  Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái að byggja upp slíkan starfsmannahóp. Sveitarstjórn mun skoða alla möguleika á að veita starfsfólki þá aðstoð og þjónustu sem í boði er við þessar aðstæður.

Sveitarstjórn vill síðan leggja áherslu á, að það er mikilvægt að eigendur Hólmadrangs hafa gefið það skýrt til kynna, að þeir hyggist vinna með heimamönnum að skoðun nýrra tækifæra og hafa þar nefnt sem dæmi nýlega viljayfirlýsingu Strandabyggðar og Íslenskra verðbréfa um skoðun á möguleikum í haftengdum verkefnum.  Þá hafa eigendur ráðið verkefnastjóra með mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði, til að vinna með heimamönnum að skoðun framtíðarmöguleika. Sveitarstjórn mun beita sér eins og kostur er í þessari vinnu.

Við köllum eftir samstöðu og samhug meðal íbúa í þeirri stöðu sem nú blasir við.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón