A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 18. júní 2023
Myndasmiður; Jón Halldórsson
Myndasmiður; Jón Halldórsson

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þrátt fyrir að margt og mikið gerist í okkar ágæta sveitarfélagi í hverri viku, er þó eitt mál liðinnar viku stærra en öll önnur; lokun rækjuvinnslu í Hólmadrangi.

Þetta var mikið reiðarslag og þó einhver teikn hafi verið á lofti, er þessi ákvörðun eigenda Hólmadrangs engu að síður mikið högg.  Og við finnum öll fyrir því, þó áhrifin og afleiðingarnar á starfsmenn séu öllu öðru, alvarlegri og meiri.  Með þessari ákvörðun er mikilvægum kafla í afvinnulífssögu Strandabyggðar lokið.  Rækjuvinnslan hefur verið órjúfanlegur hluti af lífinu á Hólmavík og fyrir marga hefur þessi vinnustaður verið nánast eins og heimilið, fjölskyldan og svo vinnan.  Fyrir þessa einstaklinga er höggið því enn stærra.

 

Starfsfólk og stjórnendur Hólmadrangs hafa unnið sitt starf vel og samviskusamlega og er ekki við þá að sakast.  Langvarandi taprekstur, erfið markaðsstaða og hár flutningskostnaður, eru megin ástæður þessa, að sögn eigenda.  Covid gerði engum greiða og markaðir virðast ekki hafa náð sér síðan þá.

Hvað er svo framundan?  Uppbygging, atvinnuleit, tækifæraleit, mótun nýrra atvinnutækifæra o.s.frv.  Sveitarstjórn, Vestfjarðastofa, alþingismenn, fyrirtæki og fjárfestar, líkt og Íslensk verðbréf, Byggðastofnun, verkalýðsfélögin og fjömargir aðrir, þurfa nú að leggjast á eitt og vinna saman að nýjum tækifærum til atvinnusköpunar.  Og sú vinna er hafin.  Margir fundir, mörg símtöl hafa átt sér stað síðustu daga, og þar eru allir samstíga og sammála um að snúa þessari stöðu við og skapa ný tækifæri.  Það verður að takast.

Orkumál

Orkumál voru áberandi í vikunni.  Orkubú Vestfjarða (OV) óskaði eftir íbúafundi til að kynna áform um Kvíslatunguvirkjun.  Á fundinum kom fram að „Kvíslatunguvirkjun verður 9,9 MW og ef vel gengur gæti virkjunin komist í rekstur í árslok 2027. Einnig komu fram áfrm um virkjun jarðhita sem losar allt að 10 MW af rafmagni og gæti tekið 2 til 4 ár í framkvæmd, gæti komist í rekstur 2026.  Að auki var rætt um Vatnsdalsvirkjun, sem yrði 20 – 30 MW og gæti ef vel gengur mögulega komist í rekstur fyrir 2030“.  Það er því margt framundan í orkumálum í Strandabyggð og þarna liggja mörg tækifæri til atvinnuuppbyggingar, fyrir utan raforkuöryggið sem þessu fylgir.

Hóteláform og skipulagsmál

Skipulagsvinna heldur áfram, bæði á vegum sveitarfélagsins og fjárfesta.  Nú erum við að byrja að skoða skipulagningu alls svæðisins í kring um íþróttamiðstöðina.  Þar þarf að huga að tjaldsvæðum, þjónustumiðstöð, bílastæðum, leiksvæði fyrir krakka, hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla, smásölu eins og matarvögnum ofl.  Þetta svæði er og verður andlit Hólmavíkur og verður enn mikilvægara sem upphafspunktur varðandi almenna lýðheilsu, gistingu og afþreyingu, þegar fram í sækir.

Kæru íbúar Strandabyggðar,  við höldum áfram og vinnum úr mótlætinu.  Þrátt fyrir allt eru tækifæri í stöðunni og þau verðum við að nýta.  Samstaða og samvinna verða lykilatriðið í þeirri vinnu sem nú er framundan. 

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

 

 

Stöðvun rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 14. júní 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar og aðrir,

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur fundað um þá stöðu sem nú er komin upp, eftir að tilkynnt var um stöðvun rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík.  Þetta er mikið högg fyrir alla, en fyrst og femst fyrir starfsmenn, sem margir hverjir hafa unnið hjá fyrirtækinu í áraraðir og jafnvel alla sína starfstíð.  Fyrstu viðbrögð sveitarstjórnar eru því hlýhugur til alls þessa fólks, og þakkir fyrir þeirra vinnuframlag í gegnum tíðina.  Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái að byggja upp slíkan starfsmannahóp. Sveitarstjórn mun skoða alla möguleika á að veita starfsfólki þá aðstoð og þjónustu sem í boði er við þessar aðstæður.

Sveitarstjórn vill síðan leggja áherslu á, að það er mikilvægt að eigendur Hólmadrangs hafa gefið það skýrt til kynna, að þeir hyggist vinna með heimamönnum að skoðun nýrra tækifæra og hafa þar nefnt sem dæmi nýlega viljayfirlýsingu Strandabyggðar og Íslenskra verðbréfa um skoðun á möguleikum í haftengdum verkefnum.  Þá hafa eigendur ráðið verkefnastjóra með mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði, til að vinna með heimamönnum að skoðun framtíðarmöguleika. Sveitarstjórn mun beita sér eins og kostur er í þessari vinnu.

Við köllum eftir samstöðu og samhug meðal íbúa í þeirri stöðu sem nú blasir við.

Kveðja
Þorgeir Pálsson

Íbúafundur á Hólmavík!

Þorgeir Pálsson | 14. júní 2023
Er Kvíslatunguvirkjun mikilvæg fyrir Strandabyggð?

Þessari spurningu og mörgum öðrum, verður svarað á íbúafundi í Félagsheimilinu kl 18 í dag.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að kynna skipulagslýsingu og hefja skipulagsgerð vegna fyrirhugaðrar virkjunar í Selárdal.  Um er að ræða Kvíslatunguvirkjun, sem Orkubú Vestfjarðar stendur að.

Þar verður farið yfir:

1. Forsendur og markmið Kvíslatunguvirkjunar. Sölvi R. Sólbergsson, Orkubú Vestfjarða
2. Matsáætlun, skipulag og rannsóknir. Sigmar Arnar Steingrímsson, Verkís

    1. Yfirlit yfir Kvíslatunguvirkjun og helstu kennistærðir
    2. Matsáætlun vegna Kvíslatunguvirkjunar, sem nú er til kynningar.
    3. Breyting á aðalskipulagi Strandabyggðar og nýtt deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar.
    4. Fyrirhugaðar rannsóknir sumarið 2023.
Fjölmennum og kynnum okkur málið.  NB:  Allir velkomnir, íbúar jafnt sem aðrir.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Varðandi Hamingjudaga og hátíðarhöld

| 12. júní 2023

Í ljósi þess hve lítill hluti heimamanna virðist hafa áhuga á hátíðarhöldum um Hamingjudaga var ákveðið, eftir skoðanakönnun fyrr í vetur sem TÍM nefnd stóð fyrir, að hafa ekki hefðbundin hátíðarhöld í ár.  Einnig liggur í því töluverður sparnaður því undanfarin ár hafa hátíðarhöldin kostað um tvær milljónir króna. Því fjármagni er ekki vel varið ef heimamenn sýna þessum uppákomum lítinn áhuga og njóta þeirra ekki með þátttöku. 

Örfáir sýndu áhuga á að standa að hátíðarhöldum og því augljóslega ekki almennur vilji til að halda þessari hátíð úti. 

En ef það hefur breyst og íbúa langar að koma saman dagskrá þá er sjálfsagt að aðstoða einstaklinga og eða félagasamtök, sem hafa eitthvað fram að færa öðrum til skemmtunar.  

Hægt væri að fá húsnæði og aðstoð við auglýsingar ofl. 

 

Bæjarhátíðir eru almenningshátíðir, þar sem íbúar og félagasamtök á svæðinu taka sig saman og gera sér glaðan dag en ef sú forsenda er ekki fyrir hendi þá hefur sveitafélgið því miður ekki fjárhagslega burði eða mannafla til að halda slíku úti eitt og sér.

 

Virðingarfyllst

 

Fyrir hönd Tómstunda- Íþrótta og Menningarnefndar 

 

Sigríður Jónsdóttir 

 

Húsbygging í Víkurtúni

Þorgeir Pálsson | 12. júní 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Í ljósi umræðu á samfélagsmiðlum um húsbyggingu í Víkurtúni, á lóðinni þar sem Lillaróló er núna, er rétt að undirstrika eftirfarandi:  Fyrirhuguð er bygging á 4ra íbúða raðhúsi sem er hugsað sem leiguhúsnæði fyrir tekju- og eignalága einstaklinga.  Það er Brák hses, sem er á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem stendur að húsbyggingunni.  Fyrirtækið Landsbyggðarhús ehf (https://www.landsbyggdarhus.is/) mun reisa bygginguna.  Sveitarstjórn hefur staðfest stofnframlag vegna þessarar byggingar og leggur til lóðina, en mun að öðru leyti ekki koma að byggingunni með beinum hætti.  Hins vegar er sveitarfélagið með þessari aðkomu að standa við hlutverk sitt að tryggja framboð á íbúðum í sveitarfélaginu.  Svo má bæta við að í vinnslu er nú skipulag íbúðasvæðis í Brandskjólum, og er sú vinna hluti af endurgerð aðalskipulags Strandabyggðar.

 

Hvað Lillaróló varðar, munum við finna honum annan stað og nýta þau leiktæki sem eru í lagi.  Lillaróló hverfur því ekkert úr samfélaginu, þó hann færi sig á annan stað.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

 

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón