A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vestfjarðastofa - opinn fundur, menntastefna Vestfjarða

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir | 04. október 2022
Opinn fundur um Menntastefnu Vestfjarða í Félagsheimilinu á Hólmavík 4. október, klukkan 14:00.

Í Sóknaráætlun Vestfjarða er mikil áhersla lögð á hækkun menntunarstigs Vestfjarða og meðal áherslumála er gerð menntastefnu fyrir Vestfirði. Markmið verkefnisins er að greina stöðu, strauma og stefnur til að móta sameiginlega framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um hvernig megi efla skólastarf frá leikskóla til háskóla.
Samfélagsbreytingar eru að verða á Vestfjörðum vegna bættra samgangna og breytinga í atvinnulífi. Takast þarf á við áskoranir vegna breytinga í samsetningu íbúa, fjölgunar íbúa af erlendum uppruna, vegna loftslagsbreytinga og breytinga sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni. Skoða þarf strauma og stefnur í samhengi við sviðsmyndir um mögulega þróun atvinnulífs og mannlífs.
Verkefnið er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu, Menntaskólans á Ísafirði, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólaseturs Vestfjarða.
Öll þau sem hafa áhuga á menntamálum eru velkomin og hvött til að taka þátt.

Tilkynning frá Sorpsamlagi Strandasýslu

Salbjörg Engilbertsdóttir | 28. september 2022


Sorpsamlag Strandasýslu hefur glímt við rekstrarerfiðleika í nokkurn tíma. Ljóst er að ýmsar ástæðar liggja þar að baki. Ný stjórn hefur tekið við og hana skipa Þorgeir Pálsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Finnur Ólafsson. Stjórn Sorpsamlagsins mun leita allra leiða til að snúa rekstri Sorpsamlagsins við og um leið að aðlaga reksturinn að þeim kröfum og lagalegu forsendum sem að sorphirðu lýtur í dag. Í því felst að breytingar verða gerðar á gjaldskrá Sorpsamlagsins og öllu rekstrarformi. Framkvæmdarstjóri Sorpsamlagsins er Sigurður Marinó Þorvaldsson. 


Sorpsamlag Strandasýslu var viss brautryðjandi á Vestfjarðavísu hvað varðar aðgengi að flokkunarstöð og var og er þjónustustig hvað þetta varðar mjög hátt. Áfram verður reynt að halda háu þjónustustigi, en þó er ljóst að aðgengi og opnunartími Sorpsamlagsins eru til skoðunar. Það eru fáir söfnunarstaðir á landinu opnir allan sólarhringinn, allan ársins hring. Það má búast við breytingu á því fyrirkomulagi á næstunni.


Nánari upplýsingar um útfærslu og framkvæmd þessara breytinga verða gefnar á næstunni. Gert er ráð fyrir að ný gjaldskrá taki gildi frá og með 1. október n.k.  Nánari upplýsingar um starfsemi Sorpsamlags Strandasýslu má finna hér.


Með kveðju
Stjórnin

Staðardalsrétt

Þorgeir Pálsson | 18. september 2022
« 1 af 4 »

Kæru íbúar Strandabyggðar og aðrir hlutaðeigandi,

Í dag, sunnudaginn 18. september, var réttað í nýrri rétt í Staðardal. Þessi nýja rétt leysir af hólmi gömlu Staðarrétt sem er komin vel til ára sinna og orðin lúin, enda búin að þjóna vel í gegnum tíðina.  Þessi nýja rétt er önnur af tveimur nýjum réttum sem reistar hafa verið í haust og eru báðar gott merki um þá verkþekkingu og framsýni sem býr í bændum í Strandabyggð.

Þessi nýja rétt, sem er í landi Hrófbergs, er um margt nýstárleg og óhefðbundin.  Enda var haft á orði í dag, að nú gætu krakkarnir ekki lengur dregið í dilka líkt og áður.  Þessi rétt er með svokölluðum flokkunargangi, sem bændur hafa notað víða í fjárhúsum, en er ekki algengt form hvað réttirnar sjálfar varðar.  Hin nýja rétt er ein örfárra slíkra á landinu.  Þetta verklag tryggir betra flæði og minna álag á féð.

Heiðurinn að þessari uppbyggingu réttarinnar eiga þau hjón Magnús og Marta á Stað, sem að öðrum ólöstuðum hafa sýnt einstakan áhuga og eljusemi í þessu verkefni.  Hugmyndavinnan á sér langan aðdraganda sem í dag skilaði sér sérlega vel.  Þeim hjónum og börnum og tengdabörnum þeirra, sem einnig komu hingað til að vinna við réttarsmíðina, er þakkað einstakt framlag og framsýni.

Sömuleiðis fær Haraldur Jónsson smiður og bóndi góðar þakkir, en hann miðlaði af sinni miklu fagþekkingu og tók að sér hlutverk yfirsmiðs. 

Margir aðrir komu einnig að verkefninu og má þar nefna, Birki Þór Stefánsson í Tröllatungu, Þorvald Garðar Helgason, krakkana á efsta stigi í Grunnskólanum á Hólmavík og listakennarann þeirra, Diddu Hjartardóttur Leaman sem gerðu skiltið og marga fleiri.  Kærar þakkir til allra sem komu að gerð réttarinnar með einum eða öðrum hætti.

Síðast en ekki síst ber að nefna landeigandann, Einar Gottskálksson og fjölskyldu hans, sem frá upphafi hafa sýnt verkefninu mikinn skilning og stuðning.  Þeim þökum við sömuleiðis kærlega fyrir.  Það má með sanni segja að þess nýja rétt rísi með sterkt bakland, stuðning og áhuga margra.

Um leið og við þökkum gömlu Staðarrétt fyrir dygga þjónustu, tökum við í notkun Staðardalsrétt í landi Hrófbergs í Staðardal og það er einlæg ósk okkar allra að hún muni þjóna notendum sínum vel og lengi.

Til hamingju Strandabyggð!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti.

Réttað í nýrri rétt i Staðardal, sunnudaginn 18. september

Þorgeir Pálsson | 17. september 2022
Kæru íbúar Strandabyggðar og aðrir hlutaðeigandi,

Réttað verður í nýrri rétt í Staðardal, sunnudaginn 18.september.  Miðað er við að réttarstörf hefjist um kl 14.  Réttarstjóri er Magnús Steingrímsson.  Það verður stutt athöfn áður en réttarstörf hefjast og við hvetjum ykkur til að mæta og samgleðjast okkur með þessa glæsilegu rétt, sem er í landi Hrófbergs, fljótlega eftir að ekið er inn í Staðardal.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti


Útsending frá sveitarstjórnarfundi 1336

Þorgeir Pálsson | 13. september 2022
Hér má finna tengil á beina útsendingu á Youtube síðu Strandabyggðar frá sveitarstjórnarfundi 1336, í dag kl 16.  Upptakan ætti svo að verða aðgengileg á síðunni fljótlega.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón