A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Covid-19 - Herðum róðurinn - þetta er ekki búið

| 17. apríl 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Undanfarnar vikur höfum við íbúar framfylgt samviskusamlega fyrirmælum yfirvalda um hreinlæti, sprittun, fjarlægð milli manna og almenna ábyrgð í samskiptum, í því skyni að draga úr smithættu.  Við höfum sömuleiðis gerbreytt allri vinnutilhögun hjá sveitarfélaginu og það hafa fyrirtækin í sveitarfélaginu einnig gert.  Allir hafa lagt sitt að mörkum og sýnt þannig ábyrgð og samtakamátt og ég vil hér með hrósa og þakka ykkur íbúum fyrir ykkar framlag. 

Í dag eru engin smit í Strandabyggð né nágrannasveitarfélögum, svo vitað sé, nema í einstaka tilvikum þar sem einstaklingar með lögheimili á svæðinu en búsettir annars staðar, hafa smitast.  Það er auðvitað gleðilegt að hér séu engin smit og ég efast ekki um að öll þessi vinna og ákveðni íbúa í að standa rétt að málum, hefur skilað sér.

En það má ekki slaka á.  Þvert á móti verðum við að halda athyglinni á enn frekari smitvörnum og gildir þar einu þótt stjórnvöld slaki á aðgerðum sínum.  Það er auðvitað gott ef faraldurinn er í rénum, en við getum ekki leyft okkur að slaka á, þó það sé vor í lofti (loksins).  Þetta er ekki búið.

Herðum róðurinn kæru íbúar, höldum áfram þessari góðu vinnu, samheldni og ákveðni sem við höfum sýnt undanfarnar vikur.  Það skilar sér.

Kær kveðja

Þorgeir Pálsson

Sveitarstjóri Strandabyggðar

Menningardvöl á Hólmavík

| 15. apríl 2020

Sveitarfélagið Strandabyggð óskar eftir umsóknum um menningardvöl í húsnæði sveitarfélagsins sumarið 2020. Strandabyggð vill auka lista- og menningarlíf sveitarfélagsins og óskar eftir umsóknum frá listamönnum/listhópum, fræðafólki eða öðrum sem vinna að menningarmálum. Húsnæðið býðst gjaldfrjálst en í staðinn leggja dvalargestir fram einhversskonar viðburð eða kynningu í sveitarfélaginu.

Hægt er að sækja um dvöl frá 1. júní – 15. ágúst í styttri eða lengri tíma. Húsnæðið sem þjónar hlutverki dreifnáms á veturnar, samanstendur af fullbúnu eldhúsi, 2 salernum, 2 herbergjum og stofu sem hægt væri að nýta sem vinnustofu að hluta eða heild. Því miður er ekki aðgengi fyrir fatlaða þar sem íbúðin er á 2. hæð.

Umsóknarfrestur er frá 15.apríl– 10. maí og skal sækja um á þar til gerðu umsóknareyðublaði sem má finna hér. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar fer yfir umsóknir og verður úthlutun tilkynnt umsækjendum eigi síðar en 15. maí.

 

Frekari upplýsingar gefur tómstundafulltrúi:

 

Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir

tomstundafulltrui@strandabyggd.is

  

Cultural stay in Holmavik

 

The municipality of Strandabyggd is inviting applications for a cultural residency in the council´s facilities for the summer of 2020. Strandabyggd seeks to promote the municipality´s arts and culture and wishes for applications from artists/art groups, scholars, or others who are active in cultural activities.

The facilities are offered free of charge, in return the guests will contribute some sort of event or promotion in the municipality.

The residency can be applied for from june 1. - august 15. for a shorter or longer period. The facilities, which serve as  a center for distributed learning during the winter, consist of a fully equipped kitchen, two toilets, two bedrooms and a living room that could be utilized as a workshop wholly or in part.

The application period is from april 15. – may 10. and the applications must be lodged using this form. The applicants will be notified no later than may 15.

 

For further information contact:

 

Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir
tomstundafulltrui@strandabyggd.is

Sveitarstjórnarfundur 1302 í Strandabyggð, 14.04.20

| 10. apríl 2020

Sveitarstjórnarfundur 1302 í Strandabyggð

Fundur nr. 1302, í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 14. apríl 2020 kl 16:00 í Hnyðju.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Ákvörðun um notkun fjarfunda á sveitarstjórnar- og nefndarfundum
  2. Breytingar í sveitarstjórn og nefndum
  3. Aðgerðaráætlun Strandabyggðar vegna Covid-19
  4. Bréf frá forstöðumanni íþróttamiðstöðvar
  5. Niðurfelling leikskólagjalda og matarkostnaðar, staðfesting á fyrri ákvörðun
  6. Forstöðumannaskýrslur
  7. Nefndarfundir
    1. Velferðarnefnd, 02.04.2020
    2. Fræðslunefnd, 07.04.20
    3. Umhverfis- og skipulagsnefnd, 08.04.20
    4. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, 08.04.20
  8. Brothættar byggðir
  9. Samstarfssamningur við Strandagaldur – endurgerð drög
  10. Samningur við Hvatastöðina – endurgerð drög
  11. Samband íslenskra sveitarfélaga; fundargerð 880 frá 27.03.20
  12. Samband Íslenskra sveitarfélaga; Aðgerðaráætlun sveitarfélaga, Covid-19
  13. Vestfjarðastofa, fundargerð nr. 24 frá 17.03.20
  14. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, ársreikningur 2019
  15. Hafnarsamband Íslands, fundargerð 421 frá 20.03.20
  16. Siglingaráð, fundargerð nr. 22 frá 06.02.20
  17. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna; tengiliðafundur sveitarfélaga.

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

Jón Gísli Jónsson

Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir

Ásta Þórisdóttir

Eiríkur Valdimarsson

Guðfinna Lára Hávarðardóttir

 

Kveðja frá sveitarstjóra

| 08. apríl 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Mars mánuður fer ekki í bækurnar sem hefðbundinn mánuður í neinum skilningi. Við vitum öll að þetta eru óvanalegir tímar þar sem ný og óþekkt vandamál og viðfangsefni fylla verkefnalistana.  Covid-19 umræðan hefur nánast einokað þennan mánuð, þó svo auðvitað verði fastir liðir í rekstri sveitarfélags að fá sína athygli.


Sameining leik-, grunn- og tónskóla

Vinna við sameininguna er í fullum gangi þó svo fyrirkomulag funda sé gerbreytt.  Unnið er að því m.a. á vegum verkefnastjórnar að skilgreina starfslýsingar og útbúa nýtt skipurit fyrir sameinaðan skóla.  Þá er nafnsamakeppni í gangi ofl. 

Hitaveita í Hveravík

Það er marga farið að lengja eftir niðurstöðu í þetta mál og er það skiljanlegt.  Það er þó hægt að segja að málsaðilar þokast sífellt nær endanlegum samningi og vonir standa til að hægt verði að hefja álagsprófun innan skamms.  Hitt er svo annað, sem kannski er erfitt að útskýra á þessu stigi, að uppbygging hitaveitu er viðamikið og kostnaðarsamt verkefni og þó svo bætt lífsgæði af hitaveitu séu augljós, þarf að skoða allar hliðar og sjá framúr fjármögnun og rekstrarlegu hæfi hitaveitunnar. 

Tenging ljósleiðara

Í mars var unnið að því að tengja ljósleiðara innanhúss í Þróunarsetrinu og var það langþráð lausn á erfiðu netsambandi sem hefur verið þar lengi.  Framundan eru síðan frekari tengingar í stofnanir sveitarfélagsins.

Önnur mál

Unnið var í svokallaðri Stjórnsýsluskoðun sem endurskoðendur sveitarfélagsins, KPMG setja okkur fyrir, en þar er farið yfir ferla og hvernig við stöndum okkur í almennum rekstri sveitarfélagsins, haldið var námskeið í skjalavistunarkerfinu One System, sem ætti að auðvelda okkur utanumhald verkefna og samskipta tengdum þeim, fundarhöld í Brunavörnum Dala, Reykhóla og Stranda, fundur í svæðisráði vegna Strandsvæðaskipulags Vestfjarða, samráðsfundur með sveitarstjórum Dalabyggðar og Reykhólahrepps (fjarfundur), fjarfundir í málefnum BS Vest (Byggðasamlags um málefni fatlaðra á Vestfjörðum) og margt fleira.

Covid-19

Eins og áður segir, snérist þessi mánuður samt fyrst og fremst um mótun aðgerða vegna Covid-19.  Mikið magn upplýsinga kemur á hverjum degi og í hverri viku frá Almannavörnum, Landlækni, Sóttvarnarlækni, Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga, Lögreglunni á Vestfjörðum ofl.  og er mikilvægt að miðla þessum upplýsingum strax til réttra aðila.  Ég hef einnig unnið að því að safna upplýsingum um stöðu atvinnulífsins hér á svæðinu, farið yfir tilmæli stjórnvalda um hugsanlegar aðgerðir sveitarfélaga til að draga úr neikvæðum áhrifum Covid-19 á atvinnulíf og einstaklinga og upplýst sveitarstjórn um stöðu mála.  Unnið hefur verið að því að móta viðbragðsáætlun fyrir félagsþjónustuna og var m.a. auglýst eftir Bakvarðasveit Strandabyggðar í því skyni. Þá var auglýst eftir sjálfboðaliðum til að taka að sér ýmis erindi og verkefni fyrir íbúa sem eiga erfitt um vik sjálfir og komu strax góð viðbrögð við þessum tilmælum og þökkum við öllum hlutaðeigandi kærlega fyrir.  Mörg önnur verkefni hafa verið unnin innan sveitarfélagsins í mánuðinum til að mæta þeim kröfum og tilmælum sem Covid-19 hefur kallað yfir okkur.  Starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið vel úr þeirri stöðu sem við erum í og ber að hrósa öllum fyrir vel unnin störf. 

Íbúar Strandabyggðar hafa brugðist vel við þeim breytingum á okkar daglega lífi sem Covid-19 hefur framkallað.  Allir eru meðvitaðir um þessa ógn og þó svo við sem samfélag höfum „sloppið“ hingað til, held ég að við gerum okkur grein fyrir því að hér munu greinast smit.  Það er bara tímaspursmál hvenær það gerist.  Við gerum því allt til að seinka því og draga úr smithættu.  Ógnin er raunveruleg og minnstu frávik í vörnum geta laskað lítið samfélag eins og okkar verulega.  Við verðum að geta sagt við okkur sjálf þegar þetta er afstaðið; „við reyndum allt“.  Meira er ekki hægt að gera. 


Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegra páska, hvet ég alla til að halda áfram stífum reglum um hreinlæti, handþvott og sprittnotkun í hvívetna,  halda fjarlægð frá næsta manni, sérstaklega þeim sem hafa verið annars staðar á landinu og virða allar reglur um sóttkví og vera heima! Þetta er tímabil sem gengur yfir.  Stöndum saman, verum ábyrg og gerum þetta rétt!

 

Höldum gleðilega páska heima!


Kveðja

Þorgeir Pálsson

Sveitarstjóri Strandabyggðar

 

Áhugahópur um rekstur á byggingavöruverslun á Hólmavík

Salbjörg Engilbertsdóttir | 07. apríl 2020
Áhugahópur vill kanna möguleika á stofnun og fjármögnun á nýju félagi um rekstur verslunar sem tæki við af Pakkhúsi KSH á Hólmavík. Áhugasamir hafi samband við neðangreinda aðila sem allra fyrst og gefi upp nafn, kennitölu, heimilisfang og símanúmer. Ásamt þeirri upphæð sem þeir vilja leggja inn í félagið, sem er að lágmarki 100.000 kr.
Jóhann Lárus Jónsson: joigili@simnet.is, sími: 899-2457
Rósmundur Númason: rosmundurn@gmail.com, sími: 892-1948
Sigurbjörn Úlfarsson: sigurbjorn@holm.is, sími: 840-6835
Unnsteinn Árnason: irisbjorg@simnet.is, sími: 898-8210
Jón Gísli Jónsson: jongisli@strandabyggd.is, sími: 661-7061
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón