A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Aðkoma Strandabyggðar að áframhaldandi rekstri matvöruverslunar á Hólmavík

| 25. febrúar 2020

Þann 27. janúar síðastliðinn var haldinn aukafundur í sveitarstjórn Strandabyggðar (fundur 1299). Það sem þar fór fram var trúnaðarmál og umræðuefnið fært í trúnaðarmálabók, eins og gert er í slíkum málum. Nú er orðið tímabært að greina frá innihaldi þessa fundar, en hann snérist um þann vanda sem þá steðjaði að Kaupfélagi Steingrímsfjarðar. Erfið fjárhagsstaða ógnaði rekstinum og í húfi voru störf heimamanna og sú hætta sem var á að á Hólmavík yrði ekki lengur rekin matvöruverslun.

 

Í dag, 25. febrúar 2020, var greint frá samkomulagi Kaupfélags Steingrímsfjarðar og Samkaupa um rekstur matvöruverslunar á Hólmavík. Þannig hefur tekist að tryggja áframhaldandi störf og rekstur matvöruverslunar á staðnum.

 

Sveitarfélagið lagði sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi og samfelldan verslunarrekstur. Aðkoma sveitarfélagsins var með þeim hætti, að Strandabyggð keypti 19,2% hlut Sparisjóðs Strandamanna í fyrirtækinu Hornsteinum fasteignafélagi. Að auki keypti Strandabyggð 13% af eignarhlut Kaupfélagsins í Hornsteinum og lagði að auki inn 3 milljónir í nýtt hlutafé. Strandabyggð á nú samtals 44,16% hlut í Hornsteinum. Fasteignafélagið keypti síðan húseignir KSH að Höfðatúni 4 og nú hefur verið gerður langtíma leigusamningur við Samkaup um leigu á húsnæði fyrir matvöruverslun. Vínbúðin leigir einnig áfram aðstöðu í húsinu.

 

Til þess að fjármagna þessi kaup, seldi sveitarfélagið Sparisjóði Strandamanna húseignina Hafnarbraut 19, efri hæð, þar sem í dag er aðstaða dreifnámsins sem rekið er í samvinnu við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Jafnframt var gerður leigusamningur við Sparisjóðinn til að tryggja áfram húsnæði fyrir dreifnámið næstu misseri.

 

Það er ekki sjálfgefið að sveitarfélag taki á sig skuldbindingar sem þessar eða stígi með þessum hætti inn í rekstur fyrirtækja. Sveitarstjórn mat það svo í þessu tilviki að svo mikið væri í húfi fyrir starfsfólk KSH og íbúa á Ströndum að það réttlætti þessar aðgerðir.

Karlahlaup 1.mars

| 24. febrúar 2020

Karlahlaup verður haldið á Hólmavík 1.mars kl.11 og er hlaupið frá Íþróttamiðstöðinni, hlaupnir verða 5 km. Þetta er í fyrsta sinn sem efnt er til karlahlaups á vegum Krabbameinsfélagsins. ATHUGIÐ að klíkur af öllum stærðum og gerðum, gengi, vinahópar, félagsmenn og aðrir hópar eru hvattir til að mæta í hlaupið undir eigin „flaggi og fána“ til að setja svip sinn á hlaupið. Allur ágóði í þátttökugjaldi og kaupum á sokkapörum rennur óskiptur til félagsins, undir átakinu Mottumars.
Sjá nánar á www.krabb.is  Upp með sokkana.

HANS KLAUFI - Leikhópurinn Lotta

| 24. febrúar 2020


Leikhópurinn Lotta er að koma í heimsókn til okkar á Hólmavík og ætla að sýna Hans Klaufa í félagsheimilinu föstudaginn 28. febrúar kl 17:30. Góðir styrktaraðilar í kring um okkur hafa greitt niður miðaverðið! Vanalegt verð er 3.100 krónur en eingöngu 1.700 krónur á Hólmavík! Miðar eru því eingöngu seldir á staðnum hér. Það er því um að gera að taka alla fjölskylduna með á hágæða fjölskyldusöngleik hlaðinn húmor og gleði fyrir allann aldur.

Öskudagsball

| 20. febrúar 2020

Öskudagsball verður haldið í félagsheimilinu á Hólmavík miðvikudaginn 26. febrúar kl. 17:00.

Fundur um menntamál í Strandabyggð!

| 18. febrúar 2020
Við minnum á fundinn á morgun, miðvikudag  í Hnyðju, kl 17-19, sem Grunnskólinn á Hólmavík, Trappa og Strandabyggð standa fyrir.

Kristrún Lind Birgisdóttir frá Tröppu, mun fara yfir áherslur í starfi leik- og grunnskóla og hvernig unnið er eftir aðalnámskrá hvað þessi skólastig varðar.  Fundarstjóri er Þorgeir Pálsson.

Hér er kjörið tækifæri til að fræðast um þær áherslur og þau viðmið sem skólastarf á Hólmavík styðst við og ræða hvernig við getum eflt og stutt við skólastarf í Strandabyggð.

Við hvetjum foreldra, aðstandendur og aðra áhugasama um menntamál, til að mæta.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón