Nýr byggingafulltrúi í Strandabyggð
Það er mér ánægja að tilkynna að Grettir Örn Ásmundsson hefur verið ráðinn byggingarfulltrúi í Strandabyggð. Grettir Örn er fæddur og uppalinn á Hólmavík en býr nú í Danmörku.
Grettir Örn kláraði byggingafræði í UCN, University College Nord Jylland á norður Jótlandi í Danmörku árið 2017. Hann vann á Íslandi hjá Zeppelin arkitektum í tvö ár en er nú starfandi hjá Stender í Kolding, þar sem starfi hans fellst í því að hanna svæði fyrir íbúðahverfi, veitingastaði, verslanir og bensínstöðvar. Hann er að auki smiður og hefur talsverða reynslu sem slíkur.
Grettir Örn er fjölskyldumaður, giftur Jónu Björgu Guðmundsdóttur og eiga þau hjón 3 börn; Mikael 5 ára, Kristbjörgu 10 ára og Natalíu 14 ára. Jóna Björg er við nám í félagsráðgjöf í Danmörku.
Grettir Örn hefur störf 1. júlí og við bjóðum hann velkominn til starfa.