A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Opnað verður fyrir Uppbyggingarsjóð Vestfjarða þann 15. október

| 15. október 2018


Opnað verður fyrir Uppbyggingarsjóð Vestfjarða þann 15. október. Umsóknir eiga að berast fyrir 12. nóvember. Sótt er um á vefsíðu sjóðsins. Það sem nú er lagt áhersla á er að stuðla að búsetu ungs fólks á Vestfjörðum annars vegar og hins vegar samvinna milli íbúa mismunandi svæða. Hvers konar verkefni sem efla atvinnu, menningu nýsköpun og þá einkum með samvinnu milli mismunandi byggðalaga eiga besta möguleika. Það skiptir verulegu máli að vanda til umsókna, fylgja leiðbeiningum og setja fram raunhæfa tíma- og fjárhagsáætlun. Sjóðurinn styrkir ekki byggingar eða viðgerðir á  húsum en alls kyns undirbúning og vinnu fólks. Sjóðurinn getur lagt fram allt að 50% af áætluðum kostnaði. Nánar má lesa um sjóðinn og úthlutanir hérna : http://vestfirdir.is/uppbyggingarsjodur/styrkumsoknir/ en umsóknargáttin opnar á mánudaginn.

 

Starfsfólk Vestfjarðastofu, Skúli Gautason og María Maack geta astoðað fólk á Ströndum, Kaldrananesi og í Árneshreppi og Reykhólasveit.

Um málefni Hólmadrangs

| 12. október 2018

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Hólmadrangur hefur verið og er enn, einn af máttarstólpum atvinnulífs i Strandabyggð og það er afrek í sjálfu sér að fyrirtækið hafi hingað til, staðið af sér sveiflur og óáran í rækjuiðnaðinum hér á landi.  Gleymum því ekki að það hafa mörg fyrirtæki látið undan í þeim rekstri, enda rækjuveiðar og vinnsla í dag ekki lík því sem var. Og það er ekki af ástæðulausu að Hólmadrangur hefur staðið þetta af sér.  Hólmadrangur er meðal fullkomnustu rækjuverksmiðja í heimi og hefur byggt upp mikla reynslu og þekkingu í rækjuvinnslu í gegnum árin, í því góða starfsfólki sem þar starfar nú.  Það er þessi styrkur sem nú verður grunnurinn að lausn þess vanda sem Hólmadrangur stendur frammi fyrir. 


Það liggur nú fyrir að Hólmadrangur ehf hefur fengið greiðslustöðvun.  Stjórn félagsins hefur leitað aðstoðar utanaðkomandi aðila, lagt kalt mat á stöðuna og komist að skynsamlegri og rökréttri ákvörðun.  Með samstilltu átaki og öflugu teymi sérfræðinga, bindum við vonir við að Hólmadrangur vinni sig út úr þessari erfiðu stöðu.

Sveitarfélagið hefur eðlilega komið að málinu enda áhrifin af starfsemi Hólmadrangs víðtæk í okkar samfélagi.  Við munum áfram styðja við stjórn, starfsmenn og alla þá sem koma að lausn málsins.  Framundan er einfaldlega uppbygging og efling Hólmadrangs, sem er nauðsynleg við núverandi aðstæður, en er um leið mjög spennandi og krefjandi verkefni til lengri tíma litið.  

Við ætlum að sameinast um að byggja upp sterkara félag sem verður áfram einn af máttarstólpum atvinnulífsins og tryggja þannig Stolt og Stöðugleika í Strandabyggð.

Fyrir hönd sveitarstjórnar

Þorgeir Pálsson

Sveitarstjóri

Kveðja frá sveitarstjóra

| 12. október 2018
 

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Það er kominn nýr mánuður og það sem átti að gerast í september, flyst nú yfir í október. Tíminn leið hratt, því starfið er skemmtilegt og það er endalaust eitthvað nýtt sem kemur upp.  Þetta er lærdómsferli, langt en áhugavert.  Ég komst þó ekki eins oft út úr húsi eins og ég ætlaði.

 

Landsþing Sambands sveitarfélaga var haldið í september.  Þar var mikið rætt um sameiningar sveitarfélaga og þá staðreynd að sveitarfélögum hefur fækkað mikið á undanförnum árum.  Þau eru nú 72, en voru mest 229 að ég held.  Þar kom einnig fram að 60% sveitarstjórnarmanna halda ekki áfram eftir eitt kjörtímabil.  Sex af hverjum tíu hætta eftir eitt kjörtímabil og snúa sér að einhverju öðru.  Þar horfum við ekki bara á eftir góðu fólki úr sveitarstjórnum, heldur líka fer þarna talsverð þekking á innviðum sveitarfélagsins.  Hvoru tveggja getur verið slæmt,  sérstaklega fyrir lítil sveitarfélög.

 

Einnig er slæmt að horfa á eftir fagþekkingu og við höfum því miður gert það á liðnum árum.  Okkur sárvantar núna rafvirkja, pípulagningarmann og kennara (bæði skólastig) svo dæmi séu tekin. Ef þið vitið um einhverja; hvetjið þá til að koma hingað!  Hér er gott að vera og eitt er það t.d. sem ég held að við gleymum oft að nefna þegar rætt er um lífsgæðin hér, en það er heilbrigðisþjónustan og aðgengi hérna að læknum og hjúkrunarfólki. Það er ómetanlegt að hafa þessa þjónustu hér og jafn sterka og raun ber vitni.  Segjum hiklaust frá þessu.  Verum stolt af okkar sveitarfélagi og því sem það hefur upp á að bjóða.

 

Af hitaveitumálum er það að segja, að við höfum hafið formlegar viðræður við landeigendur í Hveravík um hugsanlegan samning varðandi nýtingu heita vatnsins sem þar er.  Málefni atvinnulífsins hafa líka verið áberandi á mínum borði í september.

 

Eitt af því sem ég er að átta mig á núna er hversu stórt sveitarfélagið okkar er landfræðilega, eða 1.906 ferkílómetrar, sem ná yfir í Djúp, að Reykhólum og inn í Bitru.  Þetta er okkar sveitarfélag og við eigum að hafa hag þess ávallt í huga.  Ég hvet okkur öll til að líta í kring um okkur þegar við erum á ferðinni í Strandabyggð, njóta náttúru og fallegs landslags, en nýta tímann líka til að svipast um eftir einhverju sem betur mætti fara.  Taka áberandi rusl, láta vita ef eitthvað er að o.s.frv.

 

Verum stolt af sveitarfélaginu okkar Strandabyggð.

 

Haustkveðja

Þorgeir Pálsson

Sveitarstjóri

Auglýsing um skipulagsmál í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 10. október 2018

 

Auglýsing um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Strandabyggðar 2010 - 2022

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti á fundi sínum 11. september  2018 tillögu að óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Strandabyggðar 2010 – 2022  samkvæmt 2. mgr.  36.  gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Um er að ræða óverulega breytingu á aðalskipulagi sem felur ekki í sér stórvægilegar breytingar á landnotkun.  Breytingin felst í því að hluta verslunarreitar V2 er breytt í athafnasvæði, þar sem fyrirhuguð er þjónusta fyrir bifreiðar og báta.

Breytingin hefur verið send Skipulagsstofnun til staðfestingar.  Uppdráttur er sýnir breytinguna er til sýnis á skrifstofu Strandabyggðar, Höfðagötu 3 á Hólmavík og  hér á heimasíðu Strandabyggðar,  www.strandabyggd.is

 

Hólmavík 14. september 2018.

 

Gísli Gunnlaugsson

skipulags- og byggingarfulltrúi

 

 

Þeir sem óska nánari upplýsinga eða skýringa á samþykktri breytingu á Aðalskipulagi Strandabyggðar geta snúið sér til skipulags- og byggingarfulltrúa í síma 456-3902, gsm síma 892-3952 eða á netfangið gisli@tvest.is  til 31. október n.k.

Sveitarstjórn Strandabyggðar 1281 - 09.10. 2018

Salbjörg Engilbertsdóttir | 06. október 2018

Sveitarstjórnarfundur 1281 í Strandabyggð

Fundur nr. 1281 í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 9. október Kl 16:00 í Hnyðju.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Kaup á eftirlitsmyndavélum í íþróttamiðstöð og á hafnarsvæði
  2. Staða íþróttamiðstöðvarinnar
  3. Erindi v. tónlistarnáms  fjarri heimabyggð frá Hrafnhildi Skúladóttur 4.10.2018
  4. Skipun nýrra fulltrúa í fræðslunefnd
  5. Fundargerð Fræðslunefndar frá 4.10.2018
  6. Fundargerð Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar, 4.10.2018
  7. Fundargerð Umhverfis-,og skipulagsnefndar 08.10.2018
  8. Staðfestingu á breytingum prókúruhafa

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:

Aðalbjörg Sigurvaldadóttir

Eiríkur Valdimarsson

Guðfinna Lára Hávarðardóttir

Ingibjörg Benediktsdóttir

Jón Gísli Jónsson

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón