Þorgeir Pálsson | 04. mars 2024
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Nokkrar línur um stöðu ýmissa verkefna sem eru í gangi hjá okkur.
Grunnskólinn
Í grunnskólanum er nú allt á fullu. Þar eru rafverktakar að skipta um lagnir og undirbúa uppsetningu ljósa o.s.frv. Felliveggirnir sem afmarka kennslustofurnar eru komnir upp og unnið er að því núna að setja einangrun í loftið. Þá hefur vinna verið í gangi við að flísaleggja salerni og undirbúa uppsetningu innréttinga í eldhúsið. Í næstu viku er gert ráð fyrir að málun skólans hefjist. Einnig styttist í að gler verði sett í milliveggi, hurðir settar upp ofl ofl. Ný húsgöng eru komin og hafa verið tekin í notkun.
Tekin voru myglusýni í eldri hlutanum sem og þeim yngri og verða þau nú metin af EFLU. Einhverjir foreldrar sem komið hafa á skrifstofurnar í gamla hlutanum, hafa kvartað undan einkennum í öndunarfærum. Á sínum tíma samþykkti EFLA notkun á þessum skrifstofum, þannig að þetta vekur upp spurningar. Því hér með beint til þeirra foreldra sem þarna eiga í hlut, að þeir leiti til læknis og fái staðfest hvers kyns þessi einkenni eru og hafi síðan samband við okkur sem fyrst, ef þörf kerfur.
Lillaróló og raðhús í Víkurtúni
Sveitarstjórn hélt vinnufund nýlega og ræddi þar nokkur mál sem eru á okkar borði. Allar ákvarðanir á vinnufundum sem þessum, eru teknar með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnar á formlegum sveitarstjórnarfundi. Á fundinum var ákveðið, að Lillaróló verður settur upp við ærslabelginn þegar leysir. Einnig var samþykkt að koma upp leiktækjum á Galdratúninu. Verður unnið að þessu eins hratt og kostur er. Nýr verktaki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem mun reisa fjögurra íbúða raðhús við Víkurtún, þar sem Lillaróló er, mun hefjast handa um leið og leysir.
Sértækur byggðakvóti
Nokkur umræða er nú í samfélaginu um þann sértækna byggðakvóta Byggðastofnunar sem, Strandabyggð stendur til boða, náist samningar milli aðila. Um er að ræða allt að 500 þorskígildistonn, sem eru bundin því að þau fari til vinnslu í sveitarfélaginu. Í umnræðunni er að áhugasamir aðilar geti hugsað sér að koma hingað og setja upp fiskvinnslu og einnig að leggja fram verulegt mótframlag. Þetta er því mikið tækifæri fyrir okkur í Strandabyggð og í raun samfélagsmál sem við verðum að vinna saman. Það er mikið í húfi og komi til þessa er ljóst að hér skapast fjölmörg störf og veruleg verðmæti. Byggðastofnun mun skila sinni greinargerð til sveitarstjórnar á næstu dögum/vikum.
Leikskólalóðin
Eins og greint hefur veirð frá áður, samþykkti meirihluti sveitarstjórnar sl haust, að ganga til samninga við Litla Klett um framkvæmdir á leikskólalóðinni. Undanfarið hefur verið nokkur umræða í samfélaginu og innan nefnda sveitarfélagsins, hvort skynsamlegt væri að sameina leikskólann grunnskólanum, með flutningi í eldri hluta grunnskólans, reynist hann í lagi. Þetta hefur verið góð umræða og mikilvægt að öll sjónarmið séu rædd. Það er hins vegar niðurstaða meirihlutans að leikskólinn verði áfram þar sem hann er og að framkvæmdir við lóðina hefjist í vor/sumar. Það fylgir því of mikil óvissa að flytja og sameina þessar einingar og eins væri þar með verið að bjóða börnunum upp á lélega leikskólalóð enn eitt árið. Leikskólinn Lækjarbrekka verður því á sínum stað og vonandi getum við hannað eldri hluta grunnskólans í samræmi við þarfir hans.
Ýmis mál
Mörg önnur mál eru í gangi og má þar nefna Strandanefndina, sem ætlað er að greina stöðuna hjá sveitarfélögunum á Ströndum og leggja fram áætlanir um uppbyggingu. Þrýst er á að leit að heitu vatni á Gálmaströnd verið haldið áfram sem fyrst. Þar er margt í húsi og má þar m.a. nefna áform um landeldi á regnbogasilungi, sem er einn valkosturinn sem verið er að skoða. Framundan eru auglýsingar um sumarvinnu í Íþróttamiðstöð, sundlaug og á tjaldsvæði. Eins verður auglýst eftir starfsmönnum í unglingavinnuna og skipulag sumarnámskeiða er í vinnslu.
Það er því allt á fullu og mikið að gerast í Strandabyggð þessa dagana.
Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti