A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sumarstörf og umsóknir í vinnuskóla í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 06. mars 2023

Strandabyggð auglýsir eftir umsækjendum fyrir afleysingar- og sumarstörf og störf við vinnuskóla, athugið að sum störfin gætu hafist fljótlega


Íþróttamiðstöð, tjaldsvæði, vinnuskóli og sumarnámskeið
-Umsjónaraðili með Íþróttamiðstöð- og tjaldsvæði, afleysing fyrir íþrótta- og tómstundafulltrúa v. sumarleyfis
-Íþróttamiðstöð og tjaldsvæði. Sumarstarfsmenn í sundlaug og tjaldsvæði. Starfsmenn þurfa að ná kröfum sundlaugarvarða og hafa náð 18 ára aldri. Nánari upplýsingar um starfið hér
-Sumarnámskeið – Umsjón með 2-3ja vikna námskeiði í júní, nánari lýsing hér
-Vinnuskóli og umhverfisfegrun – Umsjón með vinnuskóla, stærsti hluti starfs í júní, nánari upplýsingar hér


Eignasvið, áhaldahús og Sorpsamlag
-Áhaldahús. Um er að ræða almenn verkamannastörf í Áhaldahúsi við slátt og viðhald eigna. Nánari upplýsingar hér
-Höfn. hafnarvigtun og skráningu afla og fl. vigtarréttinda krafist, almenn verkamannastörf
-Sorpsamlag. Um er að ræða vinnu á sorpbíl og gámabíl meiraprófs krafist ásamt lyftararéttindum (vinnuvélaréttindi)


 
...
Meira

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka til að sjá um slátt og umhirðu gróðursvæða í landi sveitarfélagsins

Þorgeir Pálsson | 06. mars 2023

Um er að ræða slátt og umhirðu á gróðursvæðum í eigu sveitarfélagsins, auk sérverkefna sem upp kunna að koma á hverjum tíma.  Umrædd svæði eru skilgreind af sveitarfélaginu og allar frekari upplýsingar og yfirlitsdrættir eru fyrirliggjandi á skrifstofu Áhaldahúss Strandabyggðar.

Ræktuð svæði þarf að slá með vélum og óræktuð svæði með bensin-orfi.  Verktaki skal raka saman allt gras eftir slátt og farga.  Verktaki skal einnig sjá um að dreifa áburði á grassvæði.   Á sumum svæðunum þarf að dreifa áburði með höndum.  Strandabyggð leggur til allan áburð. 


Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér forsendur og umfang og hafa samband við Sigurður Marinó Þorvaldsson verkstjóra Áhaldahúss Strandabyggðar, sem veitir allar nánari upplýsingar í síma 894-4806, eða á ahaldahus@strandabyggd.is

Verksamningur verður gerður við verktaka og gildir hann í þrjú ár, fyrir árin 2023, 2024 og 2025.


Tilboðum skal skilað í umslagi merktu „Sláttur 2023“ á skrifstofu Strandabyggðar, eða í tölvupósti á strandabyggd@strandabyggd.is 


Frestur til að leita gagna og skila inn tilboði er til 1. apríl 2023.


Þorgeir Pálsson
Oddviti

Af hverju er gott að búa í Strandabyggð?

Þorgeir Pálsson | 24. febrúar 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það eru án efa fjölmörg svör við þessari spurningu.  Kannski finnst sumum spurningin skrýtin og ganga þá út frá því að auðvitað sé og eigi alltaf að vera gott að búa í sinni heimabyggð.  Og án efa eru margir sem spyrja sig aldrei þessarar spurningar.  Ég held hins vegar að hún sé góð og að það sé hollt að reyna að svara henni.

Sumir myndu án efa benda á náttúruna, fjörðinn, lognið á firðinum, fuglakvakið, selina, hvalina, öldunið þegar gárar ofl.ofl.  Sitt sýnist hverjum og víst er að hér er mikil og falleg náttúra.  Borgirnar eru ekki bara einn göngustígur, heldur æðakerfi gönguleiða.  Fjörðurinn er aldrei eins, alltaf eitthvað nýtt; nýtt líf.  Það er eins og með eldinn; maður getur horft linnulaust á eld loga, líkt og það er nærandi að horfa á sjóinn.

Ég hlustaði nýlega á stórgott viðtal á Rúv 1 við Pétur Gunnarsson rithöfund, en hann skrifaði í sinni fyrstu bók setningu, sem ég legg til að við hugleiðum.  Hann skrifaði:  „Af Jarðarinnar hálfu byrja allir dagar fallega“.  Þessi setning er ekki löng, en ótrúlega sterk; gefur fyrirheit og góðan grunn.  Þann grunn getur síðan hvert og eitt okkar byggt á og mótað sinn dag til enda.  Það er það val sem við höfum.

Það er val að vera jákvæð(ur).  Það er val að einblína á jákvæðar hliðar frekar en neikvæðar.  Það er val að hrósa eða hallmæla, eða segja ekkert.  Við veljum þá útgáfu af okkur og deginum sem við bjóðum svo öðrum upp á.

Eitt er það hér á Hólmavík sem mér hefur alltaf þótt notalegt, en það er að fólk vinkar og heilsar hvort öðru þegar það mætist í bíl, eða á gangi.  Jafnvel oft á dag.  Það er hlýlegt merki.  Höldum því á lofti.

Náttúran er og verður.  Samfélagið er hins vegar breytilegt.  Fólk kemur og fer.  Við sem hér búum á hverjum tíma, og höldum uppi þeim lífsskilyrðum sem við öll njótum, verðum að passa upp samfélagslega hluta ánægjunnar við að búa hér.  Við höfum það val.  Notum það rétt.

Kveðja og góða helgi,
Þorgeir Pálsson
Oddviti

 

 

 

Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð

Þorgeir Pálsson | 24. febrúar 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Innviðaráðuneytið hefur staðfest endurbættar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð.  Þær eru nú aðgengilegar á heimasíðu Strandabyggðar og má nálgast hér.

Helstu breytingarnar eru þær, að inn eru komnar breyttar áherslur er varða annars vegar almenn samskipti og orðræðu, t.d. á samfélagsmiðlum og hins vegar er varðar hegðun, siðferði og framkomu og er þar m.a. tiltekið áreiti hvers konar.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti

Íþróttaverðlaun Strandabyggðar 2022

Salbjörg Engilbertsdóttir | 16. febrúar 2023
Erling Þórarinn og Hekla Karítas tóku við verðlaunum f.hönd Jóhönnu Rannveigar og Árný Helga
Erling Þórarinn og Hekla Karítas tóku við verðlaunum f.hönd Jóhönnu Rannveigar og Árný Helga

Í gær voru afhent íþróttaverðlaun Strandabyggðar fyrir árið 2022 en þau eru valin af Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd eftir innsendum tillögum og mati nefndarinnar.

Hvatningarverðlaun Strandabyggðar fyrir árið 2022, sem veitt eru fyrir aldurshópinn 12 til 15 ára, hlaut Árný Helga Birkisdóttir fyrir góða ástundun, framfarir og árangur í skíðagöngu. Sem og þátttöku sína í frjálsum íþróttum.
Tilnefning barst nefndinni og var hún einhuga um að Árný Helga væri vel að þessum verðlaunum komin.

Árný tók miklum framförum í skíðagöngu á síðasta ári, fór ásamt 2 öðrum iðkendum frá SFS í æfingabúðir Skíðasambands Íslands í Beitostolen í Noregi í um áramótin 2021-2022 og fór aftur nú um síðustu áramót.
Árný tók þátt í öllum 3 bikarmótum SKÍ á síðasta ári og uppskar þar 1 gull, 5 silfur og 1 brons, hún tók einnig þátt í skíðamóti Íslands á Ólafsfirði og varð þar Unglingameistari í skíðagöngu með hefðbundinni aðferð og í 3. sæti í göngu með frjálsri aðferð, í liðakeppni í sprettgöngu var hún í liði með Stefáni bróður sínum og voru þau í 4. sæti.
Á Andrésarandarleikunum á Akureyri sigraði Árný í göngu með hefðbundinni aðferð og var í 2. sæti í skicrossi með frjálsri aðferð. Þá tók Árný einnig þátt í Íslandsgöngum, var í 3. sæti í 12 km í Hermannsgöngunni á Akureyri, í 2. sæti í 10 km í Strandagöngunni og í 2. sæti í 12.5 km í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði.

Unnar Vilhjálmsson frjálsíþróttaþjálfari hjá UFA, Ungmennafélagi Akureyrar lýsir Árnýju Helgu svona:
Árný hefur frá fyrstu æfingu verið mjög dugleg og áhugasöm. Hún er alltaf jákvæð og hefur mjög góð áhrif á liðsandann. Hún er alltaf til í að aðstoða aðra og til í nýjar áskoranir. Árný er því sannarlega vel að þessum hvatningarverðlaunum komin.


Íþróttamaður Strandabyggðar árið 2022 er Jóhanna Rannveig Jánsdóttir fyrir knattspyrnuiðkun.

Nefndarmaður TÍM nefndar lagði til tilnefningu Jóhönnu Rannveigar og var nefndin einnig einhuga um að hún væri vel að þessum verðlaunum komin.

Jóhanna Rannveig byrjaði að æfa knattspyrnu eftir að hún flutti til Hólmavíkur 7 ára gömul. Hún hafði þá stundað fimleika frá 4 ára aldri hjá Fjölni í Grafarvogi og hefði sennilega haldið því áfram ef hún hefði ekki flutt til Hólmavíkur.
Jóhanna Rannveig keppti með Kormáki á Hvammstanga og Vestra á Ísafirði á sumarmótum framan af, því Geislinn nær ekki í heilt lið. 10 ára flutti hún í Garðabæ og hóf að æfa knattspyrnu þar með Stjörnunni þar sem hún er ennþá iðkandi. Þrátt fyrir að hafa flutt til baka til Hólmavíkur 2018, þá 12 ára, hélt hún áfram að æfa og keppa með Stjörnunni þegar nokkur möguleiki var á, hélt sínum stað í liðinu og hefur undanfarið bæði keppt með A og B liði Stjörnunnar á Faxaflóamótum, Íslandsmótum og tvö sumur á Gothia Cup í Svíþjóð.
Síðastliðið ár hefur henni gengið afar vel, skorað fjölda marka, átt margar stoðsendingar sem hafa orðið að mörkum og stundum verið lykilleikmaður í sigri. Hún skoraði meðal annars fyrsta mark sem skorað var í keppnisleik í Miðgarði, nýju knattspyrnuhúsi Garðbæinga, strax eftir að það var tekið í notkun. RÚV vildi fá hana af velli í viðtal fyrir sjónvarpsfréttirnar af því tilefni en hún sá enga ástæðu til að yfirgefa leikinn og liðið sitt fyrir sjónvarpið.


Þjálfarinn hennar, Axel Örn Sæmundsson lýsir henni svona.
Jóhanna Rannveig er iðkandi hjá knattspyrnudeild Stjörnunnar. Jóhanna er ofboðslega metnaðarfull og viljug til að bæta sig í öllum þáttum greinarinnar. Jóhanna er gríðarlega fjölhæfur leikmaður sem getur spilað nánast allar stöður á vellinum og leysir það eins og að drekka vatn. Hún er félagslega sterk og steig upp þegar á reyndi til að hvetja sína liðsfélaga áfram í blíðu og stríðu og gerði hún það alltaf á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Þrátt fyrir að eiga heima á Hólmavík og komast takmarkað á æfingar yfir vetrartímann hjá Stjörnunni þá var Jóhanna alltaf að biðja um aukaæfingar og sýndi það mér nákvæmlega hvaða persónuleika hún bjó yfir og hvað hún var tilbúin til að leggja mikið á sig til að ná árangri í sinni íþróttagrein. Jóhanna er að mínu mati vel að þessari tilnefningu komin og var það mín ánægja að fá að þjálfa svona metnaðarfullan leikmann.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón