A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Auka álag á útsvar, án áhrifa fyrir íbúa

Þorgeir Pálsson | 30. desember 2022
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Á aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær, 29.12.22 var samþykkt að leggja 0,22% álag á útsvarsprósentuna, sem var fyrir 14,95%.  Útsvarsprósentan er þetta há, þar sem sveitarfélagið hefur glímt við fjárhagsvanda undanfarin ár og hefur fengið heimild innviðaráðherra til að hafa þetta háa prósentu árið 2023, til að auka tekjur sveitarfélagsins.

Ástæða þess að 0,22% eru lögð á útsvarið, er sú staða sem ríkir á landinu varðandi þjónustu við fatlað fólk, en þar skortir verulega á að fjármagn sé tryggt til að inna af hendi nauðsynlega þjónustu.  Á landsvísu skortir á annan tug milljarða til að endar nái saman í þessum málaflokki.  Nú hefur náðst samkomulag milli þriggja ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að mæta þessum vanda að einhverju leyti og er það gert með því að sveitarfélögin leggja 0,22% á útsvarið, sem fyrr segir, og renna þær tekjur til Jöfnunarsjóðs, sem síðan úthlutar framlögum til sveitarfélaga á landinu.  Ríkið mun samhliða þessu lækka tekjuskatt um samsvarandi hlutfall í báðum skattþrepum.  Þessi ákvörðun felur því ekki í sér auknar álögur á íbúa.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti

Hugmyndasamkeppni varðandi nýtingu vatnstanksins

Þorgeir Pálsson | 28. desember 2022

Vatnstankurinn fyrir ofan kirkjuna á Hólmavík, er sterkt kennileiti, en einnig minnisvarði liðinna tíma.  Tankurinn var vantsforðabúr Hólmavíkur og miðlaði vatni út í húsin.

Af og til í gegnum tíðina hafa komið upp hugmyndir um nýtingu tanksins og hefur þá gjarnan verið horft til þess að gera þar útsýnispall eða kaffihús.  Einnig hafa komið fram hugmyndir um að nýta tankinn að innan undir safn.

Sveitarstjórn Strandabyggðar vill nú fanga þessar hugmyndir sem og aðrar og kallar því eftir hugmyndum um nýtingu tanksins. 

Í hugmyndinni skal koma skýrt fram;

  • Hver nýting tanksins yrði
  • Umfang uppbyggingar
  • Gróft kostnaðarmat
  • Áætlaður tímarammi framkvæmda. 

Einnig skal þar koma fram hvaða kvaðir og/eða framkvæmdir sveitarfélagið þyrfti að legga í, svo hugmyndin myndi ná fram að ganga.  Hér er átt við innviði eins og aðgang að vatni, frárennsli, rafmagni o.s.frv.


Af hálfu sveitarfélagsins eru eftirfarandi kröfur gerðar og forsendur settar:

  1. Tímarammi. Verkefnishafi, skal ljúka verkinu innan 3ja ára frá undirskrift samnings.  Standist tímaáætlun ekki, hefur sveitarfélagið rétt til að innheimta dagsektir
  2. Nærumhverfi. Verkefnið nær til tanksins og nærumhverfis hans, sem skal skilgreint í verksamningi.  Á því svæði má gera ráð fyrir göngustígum, bekkjum, sætum en ekki mannvirkjum, söluskálum eða þess háttar
  3. Umhverfisspjöll.  Verkefnishafi skal tryggja frágang á umhverfi að framkvæmdum loknum.
  4. Mengun. Starfsemin skal ekki skapa mengun af neinu tagi
  5. Sagan. Saga Tanksins og staða hans í mannlífi á Hólmavík skal virt í hvívetna.

Formlegum og vel útfærðum hugmyndum skal skilað á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 25 eða á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is merkt „Tankurinn – hugmyndasamkeppni“ fyrir 1. febrúar 2023.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að taka eða hafna hvaða tillögu sem er.

Náist samkomulag við verktaka eða hugmyndasmið um nýtingu á Tankinum, skal gerður verksamningur þar um sem tekur ítarlegar á öllum forsendum sem hér eru tilgreindar, t.d. umhverfi, innviði, starfsemi og afleidd áhrif.

Allar nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri, Þorgeir Pálsson, í síma 899-0020 eða á netfangið thorgeir@strandabyggd.is

Auka-sveitarstjórnarfundur nr. 1340, 29. desember 2022

Þorgeir Pálsson | 28. desember 2022
Auka-sveitarstjórnarfundur nr. 1340 í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn að Hafnarbraut 25, kl 13-13.30

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Viðbótarálagning á útsvar vegna fjármögnunar á framlagi í málaflokk málefna fatlaðs fólks
  2. Staðfesting á samningi um umdæmisráð landsbyggða.

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:
Þorgeir Pálsson
Jón Sigmundsson
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir
Matthías Sævar Lýðsson
Hlíf Hrólfsdóttir


Fundinum verður ekki streymt, en fundargerð sett inn á vef Strandabyggðar að fundi loknum.

Strandabyggð 28. desember,
Þorgeir Pálsson oddviti

 
 

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka til að sjá um slátt og umhirðu gróðursvæða í landi sveitarfélagsins

Þorgeir Pálsson | 27. desember 2022

Um er að ræða slátt og umhirðu á gróðursvæðum í eigu sveitarfélagsins, auk sérverkefna sem upp kunna að koma á hverjum tíma.  Umrædd svæði eru skilgreind af sveitarfélaginu og allar frekari upplýsingar og yfirlitsdrættir eru fyrirliggjandi á skrifstofu Áhaldahúss Strandabyggðar.

Ræktuð svæði þarf að slá með vélum og óræktuð svæði með bensin-orfi.  Verktaki skal raka saman allt gras eftir slátt og farga.  Verktaki skal einnig sjá um að dreifa áburði á grassvæði.   Á sumum svæðunum þarf að dreifa áburði með höndum.  Strandabyggð leggur til allan áburð. 


Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér forsendur og umfang og hafa samband við Sigurður Marinó Þorvaldsson verkstjóra Áhaldahúss Strandabyggðar, sem veitir allar nánari upplýsingar í síma 894-4806, eða á ahaldahus@strandabyggd.is

Verksamningur verður gerður við verktaka og gildir hann í þrjú ár, fyrir árin 2023, 2024 og 2025.


Tilboðum skal skilað í umslagi merktu „Sláttur 2023“ á skrifstofu Strandabyggðar, eða í tölvupósti á strandabyggd@strandabyggd.is 


Frestur til að leita gagna og skila inn tilboði er til 1. febrúar 2023.


Þorgeir Pálsson
Oddviti


Gleðileg Jól!

Þorgeir Pálsson | 24. desember 2022
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Á þessu fallega Þorláksmessukvöldi, sendi ég ykkur Jókveðju sveitarstjórnar Strandabyggðar.  Vonandi hafa allir fengið skötu við sitt hæfi, með kartöflum, hnoðmör og/eða hamsatólg, rúgbrauði og dágóðum skammti af smjöri.  Nú eða bara eitthvað annað, ef skatan er ekki efst á óskalistanum.

Það er virkilega gaman að sjá hversu duglegir íbúar hafa verið að skreyta fyrir þessi jól, með jólaljósum á húsum, trjám, bílum og víðar.  Það er virkilega jólalegt að keyra um þorpið.  Vel gert!

Sveitarstjórn Strandabyggðar óskar ykkur öllum og fjölskyldum ykkar nær og fjær, Gleðilegrar Hátíðar!

Kær kveðja. 
Þorgeir Pálsson
Oddviti
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón