Covid 19 - Förum varlega og höldum ró okkar
Greinst hefur Covid-smit á Hólmavík og sóttkví og smitgát eru staðreynd hjá nokkrum íbúum sveitarfélagsins. Strandabyggð vill hvetja fólk til að fara að öllu með gát og sinna persónulegum sóttvörnum. Jafnframt er mikilvægt að við höldum ró okkar og ræðum við yngri kynslóðina og úrskýrum málin. Enn er ekki ljóst hvort smit sé útbreitt, en sýnatökur eru í gangi í dag. Unnið er í samráði við sóttvarnayfirvöld á landsvísu og rakningateymið er að störfum.
Helstu ráðin til íbúa eru að muna eftir handþvotti, sprittnotkun og að halda fjarlægð við aðra. Notum grímu þar sem ekki er hægt að virða nándarmörk. Pössum að þrífa algenga snertifleti og ef við þurfum að hósta, gerum það í olnbogabót eða einnota klút/pappír.
Ef fólk finnur fyrir einkennum eða hefur grun um smit, er mjög mikilvægt að hringja eða hafa samband, en ekki mæta á heilsugæslustöðina. Hægt er að hafa samband við heilsugæsluna á Hólmavík (sími: 432-1400), Læknavaktina (sími: 1700) eða á netspjalli Heilsuveru, jafnvel þó viðkomandi sé bólusettur.
Einkenni geta verið: Hósti, hiti, hálssærindi, kvefeinkenni, andþyngsli, bein- og vöðvaverkir, þreyta, kviðverkir, niðurgangur, uppköst, skyndilegt tap á lyktar- og bragðskyni, höfuðverkur.
Ítrekað er að það má alls ekki fara í eigin persónu á heilsugæslustöð eða inn á aðrar heilbrigðisstofnanir ef þú ert með einkenni, fyrst á að hringja og fá ráð.
Ef þig grunar að einhver í þínu nærumhverfi hafi smitast: Gættu þess að eiga ekki í nánu samneyti við viðkomandi og ráðlegðu viðkomandi að hafa samband við heilsugæslu, fara í sýnatöku og einangra sig þar til neikvæð niðurstaða fæst.
Upplýsingasíða Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er á slóðinni: www.covid.is Þar má m.a. finna gagnlegar upplýsingar um sýnatöku, sóttkví, smitgát, einangrun, einkenni og almenna líðan.
Dýralæknir verður á Hólmavík 18. nóvember
Daníel Haraldsson sinnir hreinsun á hundum og köttum fimmtudaginn 18. nóvember n.k. í Áhaldahúsinu milli kl. 16:00 og 18:00.
Gott væri ef hundaeigendur gætu komið á milli 16:00 og 17:00 kattaeigendur á milli 17:00 og 18:00. Hundar þurfa að vera í taumi og kettir í búri en einnig er í boði að sækja lyfin fyrir kettina á auglýstum tíma til Daníels.
Kattaeigendur eru einnig minntir á að hreinsun katta er ekki innfalin í leyfisgjaldinu, skammurinn kostar 1.700 kr og verður innheimt með leyfisgjaldinu í lok nóvember.
Hunda og kattaeigendur í Strandabyggð, bæði þéttbýli og dreifbýli eru hvattir til að mæta og nýta sér þjónustuna.
Allir hundar og kettir innan þéttbýlis skulu skráðir og bera merkingar skv. reglugerð um hunda og kattahald sem finna má á vef Strandabyggðar. Skylt er að færa hunda og ketti til hreinsunar árlega.
Þeir sem óska eftir annari dýralæknisþjónustu eða upplýsingum er velkomið að hafa samband við Daníel í síma 434-1122 á milli 9 og 11 alla virka daga eða á netfangið dannidyralaeknir@gmail.com
Sveitarstjórnarfundur 1325 í Strandabyggð 9.nóvember 2021
Fundur nr. 1325, í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 9. nóvember 2021 kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
- Fjárhagsáætlun ársins 2022 og 3ja ára áætlun 2023-2025, fyrri umræða
- Útsvarsprósenta ársins 2022
- Fasteignagjaldaálagning 2022 og reglur um afslætti eldri borgara
- Gjaldskrár Strandabyggðar 2022
Meira
Félagsmálaráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir á íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem koma frá tekjulágum heimilum
Félagsmálaráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir á íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem koma frá tekjulágum heimilum
Til að sækja um styrkinn þarf að hafa samband við Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla:
a) með því að senda tölvupóst á felagsmalastjori@strandabyggd.is
b) hafa samband við félagsmálastjóra í síma 842 2511.
c) koma í afgreiðslu félagsþjónustunnar að Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík og fylla þar út umsókn um styrkinn.
Með styrkumsókn þarf að fylgja útprentuð staðfesting frá island.is (má einnig vista og senda rafrænt í tölvupósti með umsókninni) um að viðkomandi eigi rétt á styrknum og einnig þarf að fylgja staðfesting á útlögðum kostnaði vegna íþrótta- og tómstundastarfs barns/barna í fjölskyldunni. Með tekjulágum heimilum er átt við heimili þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 787.200 kr. á mánuði á tímabilinu mars til júní 2021
Ef vafi leikur á hvort ákveðið íþrótta- og tómstundastarf sé styrkhæft er hægt að fá leiðbeiningar sbr. leiðirnar hér að ofan.
Einungis er hægt að sækja um styrk vegna þátttöku í íþrótta- eða tómstundastarfi, ekki til kaupa á íþróttavörum, búnaði eða öðru þess háttar. Einungis er styrkt vegna barna á aldrinum 6-16 ára, fædd á árunum 2006 til 2015, þ.e. á grunnskólaaldri, allt að 25.000 kr. fyrir hvert barn.
Félagsmálastjóri Stranda og Reykhóla afgreiðir umsóknir sem berast og svarar umsækjendum að því loknu eða innan mánaðar frá því að öll gögn liggja fyrir. Ef viðkomandi fær synjun á umsókn sína frá félagsmálastjóra eða er ósáttur við niðurstöðu málsins getur hann skotið málinu til Velferðarnefndar Stranda og Reykhóla sem fjallar þá um málið. Erindi þess eðlis skal sent skriflega ásamt rökstuðningi umsækjanda til: Velferðarnefnd Stranda og Reykhóla, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík.
Frestur til að sækja um styrkinn er til 31.12.2021