| 06. september 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Gott sumar
Þá er sumarið brátt á enda og við tekur fallegur tími, haustið. Það leit ekki vel út með neitt hér í upphafi sumars, enda áhrif Covid-19 alls ráðandi í umræðunni. Ferðaþjónustufyrirtæki höfðu gert ráðstafanir og fækkað fólki. Sum þeirra höfðu reyndar ekki fengið til sín fólk vegna ferðatakmarkanna og fóru því inn í sumarið með færra starfsfólk en vanalega. Sumarið varð síðan eitt besta ferðasumar í langan tíma, því íslenskir ferðamenn fóru víða. Tjaldsvæðið okkar var fullt meira og minna frá byrjun júní og veitingastaðir, hótel og gistiheimili sömuleiðis. Bráðabrigðatölur frá íþróttamiðstöðinni sýna um um 9.000 manns gistu á tjaldsvæðinu í sumar og veltan var mun meiri í júlí í ár en í fyrra. Þetta fór því vel, en var mikil törn og það er rétt að hrósa öllu því fólki í Strandabyggð sem stóð vaktina, oft undirmönnuð. Vel gert!
Nú taka við nýjar áskoranir og ný verkefni sem við skorumst ekki undan. Næsti viðburðir eru leitir og réttir og þar spilar Covid-19 nokkuð hlutverk. Tilmæli stjórnvalda breytast reyndar nokkuð ört þessa dagana og því er ekki útilokað að réttir verði opnar almenningi líkt og vanalega. Annars er hægt að lesa nánar um þessar takmarkanir í annari frétt hér á heimasíðunni.
Niðurskurður á framlögum Jöfnunarsjóðs
Sú áskorun sem nú er þó stærst og erfiðust þessa dagana, er skerðing á framlögum Jöfnunarsjóðs til okkar sem og annarra sveitarfélaga. Í okkar tilviki er skerðingin um 71 milljón og það sér hver maður að slík sveifla gengur ekki upp í þeirri samfélagsmynd sem við búum við. Fyrr á árinu var fjárhagsáætlun ársins endurmetin í ljósi varnaðarorða Jöfnunarsjóðs um tekjuskerðingu ríkissjóðs vegna Covid-19. Þar skárum við niður fjárfestingar um helming, úr 60 milljónum sem lagt var upp með í um 30. Eins var í þeirri endurmetnu áætlun gert ráð fyrir 5-10% niðurskurði í deildum og almenn hagræðing aukin. Þarna vorum við að glíma við um 40 milljón króna lækkun tekna í áætlun. Síðan kom enduráætlun Jöfnunarsjóðs í sumar og þar bættust við rúmar 30 milljónir í skerðingu.
Það er ekki auðvelt að útskýra þessa skerðingu á framlögum til okkar, því reikniforsendur Jöfnunarsjóðs eru langt frá auðskiljanlegar. Það er þó þannig, að af þessum 71 milljón eru um 10 tengdar samdrætti í tekjum ríkisins vegna Covid-19, tæpar 10 vegna fasteignaskatta en 43 milljónir eru tengdar mannfjöldabreytingum í Strandabyggð. Okkur hefur fjölgað milli ára og við það skerðist svokallað fækkunarframlag. Eins og nafnið gefur til kynna, fá sveitarfélögin framlag frá Jöfnunarsjóði ef íbúum fækkar. Þannig hefur það verið undanfarin ár, en á síðasta ári snérist þessi þróun við og þetta framlag hverfur í enduráætluninni sem kom í sumar.
Samfélagsmyndin
Það er ljóst að Strandabyggð er ekki í stakk búin til að mæta þetta miklum tekjusveiflum. Sú samfélagsmynd sem við höfum byggt upp og það þjónustustig sem við viljum hafa hér í samfélaginu, kosta einfaldlega meira. Við lifum við þann mikla ókost að framlög Jöfnunarsjóðs eru um 45% af okkar tekjum. Síðan koma skatttekjur með um 50%. Það eru ekki aðrir stórir tekjupóstar, líkt og víða er og má þar nefna sem dæmi fiskeldi eða stórtæk og öflug ferðaþjónusta, umfram gisti- og veitingastaði. Láki hélt ekki úti hvalaskoðun í ár, skemmtiferðaskipin komu ekki, þó svo Frú Harry Potter hafi skotist i land einn daginn. Okkur vantar meiri afþreyingu í ferðaþjónustugeirann, fleiri valkosti sem skapa tekjur fyrir sveitarfélagið. Meiri uppbyggingu nýrra atvinnugreina eða iðnaðar. Það hefur t.d. lengi verið rætt um að laða hingað að fleiri einstaklinga sem geta starfað utan vinnustaða; störf án staðsetningar. Og forsendur til þess eru að vissu leyti góðar, því nú er komin ljósleiðaratenging inn í þorpið og þá styttist í að hún verði aðgengileg öllum. En á móti kemur að hér er mikill húsnæðisskortur, bæði atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Þess vegna er nú unnið að skipulagningu 4ra íbúða húsi sem byggt yrði í Miðtúni. Næsta skref í því verkefni er hönnun húsnæðisins og er ákvörðun um það nú á borði sveitarstjórnar.
Við erum þátttakendur í verkefni Byggðastofnunar; Brothættar byggðir, og þaðan kemur vissulega fjármagn til áhugaverðra verkefna. Verkefnið er m.a. hugsað til að virkja almenning og skapa nýjum hugmyndum farveg. Ég vil því hvetja íbúa Strandabyggðar til að kynna sér þá styrki sem í boði eru og láta hugsanlegt reynsluleysi ekki trufla sig. Það eru allir hæfir til að sækja um og verkefnastjóri Brothættra byggða er að auki afar hjálplegur við að leiðbeina fólki. Við þurfum nýjar hugmyndir!
Viðspyrna
Það er vissulega mótbyr, en við gefumst ekki upp. Þegar eru hafnar viðræður við stjórnvöld; Jöfnunarsjóð og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og ráðherra um viðbrögð við þessari stöðu. Framundan er fjárhagsleg úttekt á stöðu Strandabyggar, sem unnin verður af utanaðkomandi ráðgjafa og kostuð af Jöfnunarsjóði. Sú úttekt mun hjálpa okkur að greina framtíðartækifæri sveitarfélagsins.
Það er mikilvægt við þessar aðstæður að sýna þolinmæði og skilning. Þetta er sannarlega mótbyr og viðbúið að næsta ár verið einnig erfitt. En, við munum komast í gegnum þetta á endanum!
Sterkar Strandir – Áfram Strandabyggð!
Kveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar