A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Hugleiðingar um kostnað

Þorgeir Pálsson | 10. mars 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú liggur kostnaðarmat EFLU fyrir varðandi viðgerðarkostnað við grunnskólann.  Þetta eru upplýsingar sem við höfum beðið spennt eftir.  Tilkynningu um kostnaðarmatið má finna á heimsíðu Strandabyggðar. 

Mörgum spurningum er eftir sem áður ósvarað og er það verkefni sveitarstjórnar nú, að skoða allar leiðir sem sýnilegar eru í stöðunni.  EFLA bendir á tvær leiðir.  Í umræðunni manna á meðal heyrist rætt um nýbyggingu og það er sannarlega ein leið.  Eins er rætt um að rífa gamla hluta skólans og byggja nýjan hluta þar og gera svo við nýrri hluta gömlu byggingarinnar.  Það er enn ein leið.   Eins og staðan er, vitum við hver kostnaður við fyrstu tvær leiðirnar er áætlaður (leiðir 1 og 2 í skýrslu EFLU).  Við vitum ekki hvað aðrar leiðir munu kosta, en þær upplýsingar munum við útvega.  Og það mun kosta eitthvað að afla slíkra upplýsinga, því bara það að fá kostnaðarmat er kostnaður upp amk 500.000.-   Það þarf engu að síður að gerast.  Sveitarstjórn hefur alltaf sagt; það er ekki hægt að taka ákvörðun fyrr en nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir. Á sveitarstjórnarfundi n.k. þriðjudag, verður kostnaðarmatið tekið fyrir og í framhaldi af þeim fundi, mun margt skýrast.

En það er ekki nóg að vita hvað hlutirnir kosta, við verðum að vita hvernig á að fjármagna þá.  Staða Strandabyggðar er fjárhagslega veik og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir hvað grunnskólann varðar, mun hafa gífurleg áhrif, hvaða leið sem verður farin.  Það er mikilvægt að við áttum okkur á samhenginu.  Skuldahlutfall sveitarfélagsins er mjög hátt og það þarf ekki miklar lántökur til að við rekumst í þakið hvað skuldaviðmið varðar.  

Sveitarstjórn vinnur eins vel og hún getur að því að ýta þessum málum áfram.  Eitt af því sem komið er á dagskrá næsta sveitarstjórnarfundar eru kaup á færanlegum skólastofum.  Það mál hefur verið í skoðun frá upphafi, en sveitarstjórn hefur alltaf sagt, að það er ekkert hægt að ákveða um hugsanleg kaup á færanlegum skólastofum, fyrr en kostnaðarmatið liggur fyrir.  Nú er það komið og þá tökum við næsta skref.  Svona vinnst þetta.  Við megum ekki fara á undan okkur á nokkurn hátt. 


Kæru íbúar Strandabyggðar.  Öll viljum við nemendum og starfsmönnum grunnskólans vel og það er enginn sáttur við stöðuna.  En, stundum standa menn einfaldlega frammi fyrir stöðu sem þessari.  Og horfum á jákvæðu hliðarnar; við erum þó amk með aðstöðu á þremur stöðum og kennsla gengur bara nokkuð vel. Lausnin er samt sem áður til skamms tíma og við munum taka ákvörðun um langtíma lausn, um leið og forsendur til þess liggja fyrir.

Um helgina er mikil hátíð í Strandabyggð; Strandagangan. Við óskum öllum sem koma að þessum viðburði og þeim sem taka þátt góðs gengis, en umfram allt góðrar skemmtunar.

Njótum helgarinnar og alls þess jákvæða og góða sem Strandabyggð hefur fram að færa!

Kveðja og góða helgi,

Þorgeir Pálsson

Oddviti

Sveitarstjórnarfundur 1343 í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 10. mars 2023

Fundardagskrá er svohljóðandi:



  1. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 22. febrúar 2023, samþykktir frá þeim fundi til formlegrar staðfestingar

  2. Vinnufundur sveitarstjórnar frá 6. mars 2023, samþykktir frá þeim fundi til formlegrar staðfestingar

  3. Efla, kostnaðarmat v. endurbóta grunnskólans – til afgreiðslu


  1. Kaup á færanlegum skólastofum – til afgreiðslu

  2. Samningur slökkviliðs Strandabyggðar við Vegagerð ríkisins um hreinsun á vettvangi – til afgreiðslu

  3. Orkubú Vestfjarða beiðni um umsögn v. rannsókna á Gálmaströnd frá 6. desember 2022 – til afgreiðslu

  4. Kvíslatunguvirkjun, fundur með Orkubúi Vestfjarða 9. mars 2023 – til kynningar

  5. Orkubú Vestfjarða, erindi vegna Kvíslatunguvirkjunar frá 10. mars 2023 - til afgreiðslu

  6. Greinargerð vegna bréfs Hafdísar Sturlaugsdóttur til innviðaráðuneytis 22. febrúar 2023 – til kynningar

  7. Minnisblað sveitarstjóra, staðarval vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar – til afgreiðslu

...
Meira

Kostnaðarmat vegna grunnskólans

Þorgeir Pálsson | 06. mars 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú liggur kostnaðarmat EFLU fyrir hvað varðar viðgerðir á grunnskólanum.  EFLA leggur fram tvær leiðir, A og B, sem eru eftirfarandi:

Leið A:
Allsherjar endurnýjun á ytra og innra byrði beggja húsa, full einangra húsin að utan og koma fyrir vatnsvarnarlagi í formi gufuopins dúks sem þéttur er við glugga. Bæði hús verða klædd með nýrri álklæðningu og allir gluggar sem ekki er búið að endurnýja verða endunýjaðir. Múr og einangrun verða hreinsuð innan af burðarveggjum og þeir sótthreinsaðir. Öll gólfefni fjarlægð og botnplötur brotnar upp að hluta til restin slípuð. Gengið frá dren- og frárennsliskerfi og loftræsing sett upp í bæði hús. Lagnir innandyra endurnýjaðar að hluta ásamt öllum rafmagnsbúnaði

Kostnaðaráætlun: kr. 255.995.000.- með vsk.  Ofan á þessa upphæð leggst allt að 25% óvissuþáttur (EFLA gerir reyndar ráð fyrir +/- 15%, en sveitarstjórn telur rétt að hafa þetta hlutfall hærra).

Leið B:
Múr og einangrun verður hreinsað af burðarveggjum eldra húss, lokið yrði við að klæða bæði húsin að utan með áli og einangra líkt og búið er að gera við hluta hússins. Gólfefni verður fjarlægt og ílögn slípuð upp, botnplata brotin upp að hluta til og endursteypt. Skipt væri um glugga á bókasafni og í verklegu kennslustofum. Hinir yrðu lagfærðir. Útveggir eldra húss einangraðir og múraðir skv. kröfum. Gengið yrði frá dren- og frárennsliskerfi ofan við húsin og loftræsing sett upp í bæði hús.

Kostnaðaráætlun: kr. 196.955.000.- með vsk.  Ofan á þessa upphæð leggst allt að 25% óvissuþáttur. 

EFLA leggur til að leið A verði farin.  Sú leið mun kosta amk. 320 milljónir, samkvæmt þessu, sé reiknað með 25% óvissu.

Í umræðunni hefur sú spurning komið fram, hvað það myndi kosta að byggja nýjan skóla, frá grunni.  Erfitt er að slá slíku föstu án frumathugunar og þarfagreiningar, en þó hafa tölur eins og 800 milljónir og jafnvel einn milljarður verið nefndar.  

Sveitarstjórn mun nú skoða þessa kosti ítarlega og leita til fagaðila hvað mat á þeim varðar. Nánari upplýsingar verða gefnar eins fljótt og hægt er.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti 

Sumarstörf og umsóknir í vinnuskóla í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 06. mars 2023

Strandabyggð auglýsir eftir umsækjendum fyrir afleysingar- og sumarstörf og störf við vinnuskóla, athugið að sum störfin gætu hafist fljótlega


Íþróttamiðstöð, tjaldsvæði, vinnuskóli og sumarnámskeið
-Umsjónaraðili með Íþróttamiðstöð- og tjaldsvæði, afleysing fyrir íþrótta- og tómstundafulltrúa v. sumarleyfis
-Íþróttamiðstöð og tjaldsvæði. Sumarstarfsmenn í sundlaug og tjaldsvæði. Starfsmenn þurfa að ná kröfum sundlaugarvarða og hafa náð 18 ára aldri. Nánari upplýsingar um starfið hér
-Sumarnámskeið – Umsjón með 2-3ja vikna námskeiði í júní, nánari lýsing hér
-Vinnuskóli og umhverfisfegrun – Umsjón með vinnuskóla, stærsti hluti starfs í júní, nánari upplýsingar hér


Eignasvið, áhaldahús og Sorpsamlag
-Áhaldahús. Um er að ræða almenn verkamannastörf í Áhaldahúsi við slátt og viðhald eigna. Nánari upplýsingar hér
-Höfn. hafnarvigtun og skráningu afla og fl. vigtarréttinda krafist, almenn verkamannastörf
-Sorpsamlag. Um er að ræða vinnu á sorpbíl og gámabíl meiraprófs krafist ásamt lyftararéttindum (vinnuvélaréttindi)


 
...
Meira

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka til að sjá um slátt og umhirðu gróðursvæða í landi sveitarfélagsins

Þorgeir Pálsson | 06. mars 2023

Um er að ræða slátt og umhirðu á gróðursvæðum í eigu sveitarfélagsins, auk sérverkefna sem upp kunna að koma á hverjum tíma.  Umrædd svæði eru skilgreind af sveitarfélaginu og allar frekari upplýsingar og yfirlitsdrættir eru fyrirliggjandi á skrifstofu Áhaldahúss Strandabyggðar.

Ræktuð svæði þarf að slá með vélum og óræktuð svæði með bensin-orfi.  Verktaki skal raka saman allt gras eftir slátt og farga.  Verktaki skal einnig sjá um að dreifa áburði á grassvæði.   Á sumum svæðunum þarf að dreifa áburði með höndum.  Strandabyggð leggur til allan áburð. 


Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér forsendur og umfang og hafa samband við Sigurður Marinó Þorvaldsson verkstjóra Áhaldahúss Strandabyggðar, sem veitir allar nánari upplýsingar í síma 894-4806, eða á ahaldahus@strandabyggd.is

Verksamningur verður gerður við verktaka og gildir hann í þrjú ár, fyrir árin 2023, 2024 og 2025.


Tilboðum skal skilað í umslagi merktu „Sláttur 2023“ á skrifstofu Strandabyggðar, eða í tölvupósti á strandabyggd@strandabyggd.is 


Frestur til að leita gagna og skila inn tilboði er til 1. apríl 2023.


Þorgeir Pálsson
Oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón