A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Það sem koma skal!

Þorgeir Pálsson | 05. ágúst 2022

Kæru íbúar Strandabyggðar, 

Eins og sumir tóku eftir, fengum við góða heimsókn í dag. Skemmtiferðaskipið Greg Mortimer, frá fyrirtækinu Aurora Expeditions, lagðist við akkeri rétt fyrir utan höfnina.  Gúmíbátar ferjuðu talsverðan fjölda gesta í land, sem gengu um götur Hólmavíkur, fóru á Galdrasafnið ofl.  Skipið, sem er nýlegt, smíðað 2019, er í sinni fyrstu ferð til Íslands.  Héðan fer það inn á Eyjafjörð og heimsækir Akureyri.  Skip af þessari stærðargráðu getur hæglega heimsótt Hólmavík og lagst að bryggju og nú vinnum við saman að því að svona heimsóknir verði mun algengari á næstu árum.  Tækifærið er til staðar.

Framundan er mjög efnismikill sveitarstjórnarfundur þann 9.8. n.k., þar sem m.a. verður tekið fyrir erindi um hugsanlega hótelbyggingu á Hólmavík.  Það er mjög jákvætt og ánægjulegt að þetta erindi sé komið inn á borð sveitarstjórnar, því hótelbygging hér myndi breyta mjög miklu hvað varðar stöðu Strandabyggðar í ferðaþjónustu, ráðstefnuhaldi og viðburðastjórnun.  Slíkri byggingu fylgja að auki margvísleg hliðaráhrif og má þar kannski fyrst nefna eftirspurn eftir húsnæði, þjónusta iðnaðarmanna ofl. 

Strandabyggð vinnur nú að endurskoðun á aðalskipulagi þar sem við þurfum að horfa fram í tímann, hugsa stórt og reyna að sjá fyrir okkur Strandabyggð eftir tugi ára.  Í endurnýjuðu aðalskipulagi þarf að gera ráð fyrir aukinni íbúðabyggð, stærra iðnaðarsvæði og hugsanlegu hóteli, þannig að tímasetning þessa erindis er sérlega góð og felur í sér mikið og margþætt tækifæri.

Verum jákvæð og leyfum okkur að hugsa fram í tímann.  Það er ávísun á framþróun.

Góða helgi!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Leikskólastarf að loknu sumarleyfi

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir | 05. ágúst 2022

Leikskólinn Lækjarbrekka verður opnaður klukkan 11, mánudaginn 8. ágúst að loknu sumarleyfi. Vel hefur gengið að manna stöður í skólanum og starfsfólk hlakkar til að hitta börnin og hefja starfið.
Tölvupóstur með nánari upplýsingum hefur verið sendur til foreldra sem eru beðnir að láta vita ef börnin verða áfram í fríi eða  einhverja daga.  
Leikskóladagatalið 2022-2023 má finna hér.

Sveitarstjórnarfundur 1335 í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 05. ágúst 2022

Fundur nr. 1335 í sveitarstjórn Strandabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 9. ágúst kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Prókúra fyrir Strandabyggð og áreiðanleikakönnun sveitarstjórnarmanna
2. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga bréf v. ársreiknings 2021
3. Ráðningarsamningur sveitarstjóra m.undirritun og verkefnaskýrsla
4. Skipun í nefndir á vegum Strandabyggðar
     a. Fulltrúar í undirbúningsnefnd vegna aðalskipulags
     b. Varamaður í Svæðisskipulag Dalabyggðar, Strandabyggðar- og Reykhóla
     c. Fulltrúi og varamaður í fulltrúaráð umhverfisvottunar Vestfjarða
     d. Varamenn í kjörstjórn Strandabyggðar
     e. Fulltrúi og varamaður í Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda
     f. Fulltrúi og varamaður í stjórn Fiskmarkaðs Hólmavíkur
     g. Fulltrúi og varamaður í stjórn Hornsteina
5. Samfélagssáttmáli um styrkveitingar
6. Réttarsmíði í Staðardal, í landi Hrófbergs, samningur við landeigendur
7. Fjallskilaseðill 2022
8. Erindi frá Galdur brugghús ehf. varðandi tímabundinn stuðning við nýja starfsemi
9. Umsókn um vilyrði fyrir lóð undir hótelstarfsemi, erindi Friðjóns Sigurðarsonar frá 1. júlí 2022
10. Skipulagsstofnun, beiðni um umsögn Strandabyggðar v. strandsvæðisskipulags Vestfjarða
11. Minjastofnun stefnuskjal um verndun og rannsóknir á fornleifum ásamt minnisblaði um bátaarfinn
12. Samþykkt vegna stöðu sauðfjárræktar
13. Erindi frá Náttúrustofu Vestfjarða vegna endurútreiknings v. 2021
14. Tillaga að aðalskipulagi Reykhólahrepps, 2022-2034, til umsagnar
15. Tillaga að aðalskipulagi Dalabyggðar, 2020-2032, til umsagnar
16. Breyting á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030, til umsagnar
17. Fundargerð Brunavarna Dala, Reykhóla- og Stranda frá 20. júní 2022
18. Ársfundur Starfsendurhæfingar Vestfjarða 1. júní 2022 ásamt ársreikningi
19. Ársreikningur BS vest 2021 ásamt tillögu að breytingu á samþykktum
20. Vestfjarðastofa, fundargerðir 45 og 46, frá 27.apríl 2022 og 1.júní 2022
21. Vestfjarðastofa, framhaldsársfundur 27. apríl 2022
22. Vestfjarðastofa, fundargerð ársfundar 14. júní 2022
23. Fulltrúaráð Vestfjarðarstofu fundargerð 14. júní 2022
24. Bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja um um stöðu heilsugæslustöðva á landsbyggðinni, til kynningar
25. Samband íslenskra sveitarfélaga, stjórnarfundir 910 frá 20. maí 2022 og 911 frá 23. júní, til kynningar
26. Landsþing Sambands sveitarfélaga 28.-30. september 2022
27. Hafnarsamband Íslands stjórnarfundur nr. 444 frá 14. júní 2022
28. Hafnarsamband Íslands boðun á hafnasambandsþing í Ólafsvík 27.-28. október 2022

 

Gert er ráð fyrir að eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sitji fundinn:
Þorgeir Pálsson
Jón Sigmundsson
Grettir Örn Ásmundsson
Matthías Sævar Lýðsson
Hlíf Hrólfsdóttir


Stefnt er á að streyma fundinum á eftirfarandi slóð (verður birt hér fyrir fundinn)

Strandabyggð 5. Ágúst 2022
Þorgeir Pálsson, Oddviti.

 

Strandabyggð - þjónustukjarni á Ströndum

Þorgeir Pálsson | 29. júlí 2022

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Við tölum gjarnan um það að Hólmavík sé öflug þjónustumiðstöð fyrir íbúa, ferðamenn og aðra sem eiga leið hjá og það hefur svo sannarlega sýnt sig í sumar.  Satt best að segja hefur verið fábær aðsókn á tjaldsvæðið í sumar og hefur tjaldsvæðið við flugstöðina t.d.  verið opnað tvisvar s.l. viku fyrir lausatraffík, vegna mikils álags.  Föstudaginn 22. júlí s.l. voru til að mynda 112 húsbílar, hjólhýsi eða tjöld á tjaldsvæðunum, sem er með því allra mesta sem sést hefur, miðað við engar skipulagðar hátíðir.  Þessi umsvif skapa sveitarfélaginu talsverðar tekjur og sem dæmi má nefna að í júlí 2021 var innkoma á tjaldsvæðið tæpar 5 milljónir og stefnir svipaða tölu í ár. Að auki eru vítæk margföldunaráhrif sem þessu tengist, hjá veitingastöðum, þjónustuaðilum í afþreyingu o.s.frv.  Allt styrkir þetta okkur og eflir.  Við höfum lagt áherslu á það undanfarin ár, að markaðssetja Hólmavík og Strandabyggð sem þjónustukjarna og það er því sérstaklega gleðilegt þegar við finnum og sjáum að sú vinna skilar sér.  Í sumar hefur t.d. mikill fjöldi ferðamana á tjaldsvæðinu framlengt dvölina og það er einmitt það sem við viljum.

 

Fyrr á þessu ári þurfti að fara í talsverðar endurbætur og viðgerðir á búningsklefum íþróttamiðstöðvar, sem er þjónustuaðili tjaldsvæðisins, í kjölfar þess að alvarlegar mygluskemmdir komu fram.  Þegar umfang þessara skemmda varð ljóst, þ.e. að ekki var einungis raki í strurtuveggjum, heldur í öllum gólffleti sturtu- og búningsklefa, varð ljóst að rífa þurfti og fjarlægja allt innan af veggjum og gólfi og pússa niður í steypu til að losna við allan myglusvepp.  Að því loknu, var epoxy endurnýjað í sturtum, en settar flísar á búningsklefa til að einfalda þrif og verja innanstokksmuni þar sem vantsþrifum á því svæði með spúlslöngu hefur verið hætt.  Nú er einungis moppað, skúrað og sótthreinsað í klefum. Endurbótum er ekki lokið, en þær eru langt komnar.  Vinna hefur dregist, m.a. vegna tafa við efnisöflun.  Það tekur t.d. 16 vikur að fá nýjar innihurðir á salerni.

 

Almenn ánægja virðist vera með þessar breytingar og því er sérstaklega mikilvægt að halda þessu nú í horfinu.  En það er ekki nóg að hafa góða umgörð, heldur þurfa innviðirnir að virka. Enn liggur fyrir að endurnýja þarf talsvert af tækjum og búnaði svo allt virki sem skyldi og er t.d. átt við tæki sem sjá um að stýra hita og klórmagni í pottum og laug.  Sú vinna er nauðsynleg til að styðja við og viðhalda stöðu okkar sem þjónustukjarna.

Sveitarfélagið tók yfir umsjón með þvottaplaninu í sumar og það sýndi sig að vera rétt ákvörðun, því notkun á planinu hefur verið mjög mikil frá því það var opnað aftur.  Nú erum við að vinna að lausn varðandi loftdælu.  Hvoru tveggja er þjónusta sem verður að vera til staðar fyrir alla.  Fjölgun ferðamanna og aukið mikilvægi Strandabyggðar sem þjónustukjarna almennt, kallar einnig á samstarf við þjónustuaðila um frekari uppbyggingu, t.d. hvað varðar hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla ofl.


Þetta voru bara nokkrar línur um stöðu okkar sem þjónustukjarna.   Það er mikið framundan og fullt af tækifærum  Það er bara okkar að sækja þau og gera úr þeim verðmæti.

Njótið sumarsins og góða Verslunarmannahelgi!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

Grunnskólinn á Hólmavík, Skólabraut 20 - almennt útboð vegna viðbyggingar

Þorgeir Pálsson | 25. júlí 2022
« 1 af 2 »

 

EFLA verkfræðistofa hf., fyrir hönd Strandabyggðar óskar eftir tilboðum í smíði viðbyggingar á norðvesturhlið grunnskólans á Hólmavík.

 

Verkkaupi: Strandabyggð, kt: 570806-0410

 

Verkefnalýsing:

 

Um er að ræða niðurrif á gömlum inngangi og smíði nýs inngangs, ásamt nýjum palli og rampi fyrir hjólastóla aðgengi.

 

Lauslegt yfirlit yfir verkefnið:

Verktaki skal reisa 36 fermetra viðbyggingu við norðvesturhlið eldri hluta skólahússins við Skólabraut 20, Hólmavík. Núverandi skólahús var byggt í tveimur áföngum árin 1947 og 1982. Undirstöður, gólfplata, stigi og útitröppur viðbyggingarinnar verða úr steinsteypu, líkt og núverandi skólahús en veggir og þak úr timbri. Timburútveggi skal einangra og klæða að utan með sléttri harðplastklæðningu, þak skal klæða með bárujárni. Gluggar og hurðir verða úr timbri. Verktaki skal einnig sjá um fullnaðarfrágang viðbyggingarinnar að innan og opna milli hennar og skólahússins. Gera þarf breytingar á drenlögn við húsið, setja niður gólfniðurföll og leggja gólfhitalagnir í steypta gólfplötu og tengja þær við hitakerfi hússins. Fjarlægja skal núverandi viðbyggingu, sem byggð er úr timbri en múrhúðuð að utan, ásamt steyptum stiga innanhúss og steyptum útitröppum. Einnig þarf að fjarlægja bárujárnsklæðningu af hluta þaks skólahússins vegna tengingar á viðbyggingunni við það.

 

Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. janúar 2023

 

Framkvæmdir geta hafist strax eftir að verksamningur hefur verið undirritaður.

 

Útboðsgögn verða afhent hjá Strandabyggð, Hafnarbraut 25, frá og með 26.júlí.

 

Tilboðin verða opnuð á skrifstofu Strandabyggðar, fimmtudaginn 11.ágúst n.k.  kl: 11:00 að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri, Þorgeir Pálsson, sími 899-0020 eða thorgeir@strandabyggd.is 

 

 

 

 

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón