A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Snjór

| 29. mars 2021

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þetta eru skrýtnir tímar og hafa svo sem verið það lengi.  Við erum ekki laus við Covid-19, þvert á móti fjölgar afbrigðum og óvissa um samfélagssmit nagar.  Fólk fer í þúsundum að skoða eldgos, það eru páskar framundan sem verða þó litaðir af hertum takmörkunum, það er kominn snjór aftur og svona mætti lengi telja.

Um daginn gerði hér skot og ófært var á tímabili innanbæjar meðan autt var á vegum utar í firðinum.  Tekin var sú ákvörðun að aflýsa kennslu og voru ekki allir sáttir við þá ákvörðun.  Það er skiljanlegt þar sem ákvörðunin var tekin með skömmum fyrirvara. 

Ákvörðun um að aflýsa skólahaldi er ekki tekin nema eftir samráð skólastjóra, sveitarstjóra og þeirra sem koma að snjómokstri og skólaakstri.  Venjan er sú að kanna fyrst hvernig ástandið sé í dreifbýlinu og í þetta skiptið var það bara allt í lagi.  Skólabíllinn var á tíma og ekkert því til fyrirstöðu að sækja krakka í sveitina.  Vandinn var hins vegar hér innanbæjar og það kom í ljós um morguninn.  Skyggnið var ekkert og ljóst að snjómokstur innanbæjar var ekki mögulegur við þær aðstæður.  Fólk komst ekki leiðar sinnar, bílar voru fastir og það var því ekki um annað að ræða en að aflýsa skólahaldi, þó talsvert væri liðið á morguninn.  Við gengum svo úr skugga um að þeir starfsmenn sem komust til vinnu, væri komnir heim aftur.  Allt fór því vel, en auðvitað var þetta óþægilegt.

Nú er aftur kominn snjór og því rétt að benda á þær reglur sem gilda um snjómokstur í dreifbýli og þéttbýli í Strandabyggð.  Þær reglur má sjá hér.

Það er stefna sveitarstjórnar að draga úr snjómokstri í sparnaðarskyni og því er viðbúið að einhverjum þyki ekki mokað eins oft og áður.  Reglurnar gera t.d. ekki ráð fyrir snjómokstri um helgar, nema ef brýn nauðsyn krefur.  Við vonum að íbúar sýni þessu skilningi í ljósi stöðunnar.

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

sveitarstjóri Strandabyggðar

Fjölmennt á Húmorþingi með hjálp internetsins

| 29. mars 2021
Jón Jónsson fer með lygasögu
Jón Jónsson fer með lygasögu
Húmorsþing fór fram á Hólmavík um nýliðna helgi. Vegna samfkomutakmarkanna var beðið með hluta kvöldskemmtunnar þar til síðar og eigum við þá von á afar góðu.

Þingið sjálft var þó haldið með breyttum hætti, undir tíu manns fengu að sitja í sal en við hin fegum að njóta í gegn um netið og var mæting og þátttaka góð. Erindin voru virkilega fróðleg, fjölbreytt og skemmtileg og hægt er að horfa á upptökuna á vefsvæði Húmorsþingsins á Facebook

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Þjóðfræði og Arnkatla stóðu fyrir þinginu með styrk frá Sterkum Ströndum.



Húmor, sjósport, ljós og meira stuð

| 24. mars 2021
Það er sannarlega nóg um að vera í Strandabyggð þessa dagana. Varðskipið Þór er í höfninni og hefur boðið börnum um borð, hver veit nema það sé í tilefni af því að í dag, miðvikudaginn 24. mars, verður stofnfundur Sjóíþróttafélags Steingrímsfjarðar á Kaffi Galdri kl 17:00. Þangað erum við öll velkomin og verður gaman að fylgjast með vexti fjölbreyttra útivistarmöguleika í og á sjó í okkar lygna firði.

Í kvöld og á morgun býður Leikfélag Hólmavíkur jafnframt upp á gjaldfrjálst ljósanámskeið í Félagsheimilinu á Hólmavík fyrir alla þá sem hafa áhuga á að nýta nýjan og glæsilegan tæknibúnað sem Leikfélagið hefur fjárfest í með stuðningi Sterkra Stranda.
Á morgun, fimmtudag, er auk ljósanámskeiðs aðalfundur Foreldrafélags Grunnskólans á Hólmavík. Sérstök páskaopnun verður svo í Ozon um kvöldið fyrir alla krakka í 5.-10. bekk með páskakahoot og verðlaunum frá Krambúðinni.

Á föstudag fer árshátíð Grunnskólans svo fram með nýstárlegum hætti í félagsheimilinu en það þjóna kennarar og starfsfólk börnum til borð í glæsilegri 80s veislu sem börnin hafa undirbúið. Um kvöldið heldur miðstigið svo bekkjarkvöld í félagsmiðstöðinni Ozon.

Komandi helgi verður jafnframt haldið Húmorsþing á Hólmavík að frumkvæði Rannsóknarseturs HÍ í þjóðfræði og Arnkötlu. Vegna sóttvarnarreglna er nauðsynlegt að skrá sig en við erum öll velkomin meðan fjöldatakmarkanir leyfa. Nánari upplýginar um Húmorsþingið er að finna á Facebook.

Tónlistarmyndband Tónskólans

| 19. mars 2021
Skjáskot úr nýja myndbandinu
Skjáskot úr nýja myndbandinu
Uppskeruhátíð tónlistarskólanna, sem er yfirleitt haldin á hverju ári, heitir Nótan og yfirleitt eru nokkur tónlistaratriði valin á landsvísu til að koma fram sem skemmtiatriði á hátíðinni. Árið 2020 var afmælisár hátíðarinnar og þá stóð til að allir tónlistarskólar landsins sendu inn atriði. Því miður þurfti að fella þá hátíð niður af ástæðum sem við þekkjum og nú var ákveðið að árið 2021 yrði "net-Nótan" haldin og hver tónlistarskóli myndi senda inn myndband með efnistökum sem eru nokkuð frjáls.

Tónskólinn á Hólmavík hefur tekið upp lag og tónlistarmyndband þar sem nemendur Tónskólans sjá um allan hljóðfæraleik og söng. Bragi Þór Valsson og Vera Ósk Steinsen útsettu lagið og Bragi sá einnig um hljóðupptökur, hljóðblöndun, upptöku og klippingu myndbands. 

Hluti myndbandsins verður sýndur í sérstökum Net-Nótuþáttum á sjónvarpsstöðinni N4 með vorinu og eins verður myndbandið aðgengilegt á vefsíðum Samtaka Tónlistarskólastjóra og Kennarasambands Íslands og einnig í N4-hlutanum hjá safni Sjónvarps Símans.

Myndbandið í heild sinni má finna á Youtube með því að smella hér.

Kjörbúðin hefur opnað fyrir umsóknir um samfélagsstyrki

| 17. mars 2021

Kjörbúðin hefur nú opnað fyrir umsóknir um samfélagsstyrki fyrir árið 2021. Opið verður fyrir umsóknir til 10. apríl næstkomandi og hægt er að nálgast umsóknarformið á vefsíðu verslunarinnar.

„Samfélags ábyrgð er mikilvægur þáttur í allri starfsemi Samkaupa og er samþætt með öllum verslunum fyrirtækisins. Einn af þeim þáttum sem okkur þykir hvað mikilvægastir í þeim efnum er að gefa til baka til samfélagsins og vænlegast þykir okkur að styrkja hin ýmsu samfélagsverkefni,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdarstjóri verslunarsviðs Samkaupa.


Megin áhersla Kjörbúðarinnar í styrktarmálum er að styðja við verkefni í nærsamfélögum verslunarinnar, en Kjörbúðin rekur 15 verslanir víðsvegar um landið.

...
Meira
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón