A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Starfsmannastefna Strandabyggðar frá 2020

| 04. janúar 2021
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Starfsmannasefna Strandabyggðar, sem sveitarstjórn samþytkkti í desember sl. er nú komin á heimasíðu Strandabyggðar og er aðgengileg hér.

Starfsmannastefnan er hugsuð sem leiðarvísir starfsmanna hvað varðar það hlutverk þeirra að starfa fyrir Strandabyggð, eða eins og segir í Starfsmannastefnunni:

„Starfsmannastefnan nær til allra þeirra sem ráðnir eru til lengri eða skemmri tíma til starfa hjá sveitarfélaginu, stofnunum þess og fyrirtækjum í eigu þess. Það er sameiginlegt verkefni starfsmanna og stjórnenda sveitarfélagsins að veita metnaðarfulla og framsækna þjónustu“.

Þar segir einnig: "Með starfsmannastefnunni er sett það grundvallarmarkmið sveitarstjórnar að öllum sem starfa fyrir Strandabyggð beri að vinna fyrst og fremst í þágu allra íbúa sveitarfélagsins. Markmiðið leggur þær skyldur á herðar starfsmönnum Strandabyggðar að setja ávallt almannahagsmuni ofar sérhagsmunum hvort heldur er sínum eigin eða einstakra hópa. Starfsmannastefnan markar einskonar ramma um framlag starfsmanna og þjónustuvitund annars vegar og góð vinnuskilyrði hins vegar þannig að sveitarfélagið hafi ávallt á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem geta veitt góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum íbúana og rekstrarumhverfis sveitarfélagsins".

Starfsmannastefnan nær til starfsmanna og kjörinna fulltrúa, tekur á ráðningum (starfslýsingum), móttöku nýliða, starfslokum.  Þar er einnig rætt um siðfræði og siðareglur, trúnað og meðferð trúnaðarupplýsinga, starfsþróun, fræðslu, samskipti á vinnustað, viðmót starfsmanna innávið og útávið, vinnuumhverfi, öryggi, fjölskyldumál og tengingu við störf starfsmanna, jafnrétti, launastefnu og reglur um fjarvistir og starfsendurhæfingu.

Starfsmenn Strandabyggðar eru allir hluti þeirrar keðju sem bindur starfsemi sveitarfélagsins saman og vinna þeir þannig saman að því að þjónusta ávallt íbúa sína á skilvirkan og samviskusamlegan hátt, með velferð þeirra í fyrirrúmi.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar



Tilnefnið íþróttamanneskju ársins

| 30. desember 2020
Íþróttamanneskja ársins 2019 og dygg stuðningskona hennar
Íþróttamanneskja ársins 2019 og dygg stuðningskona hennar
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju arsins 2020 í Strandabyggð. Útnefning er fyrst og fremst hugsuð sem viðurkenning fyrir íþróttaafrek, framlag til íþróttastarfs og hvatning til frekari afreka. 

Senda skal tilnefningar ásamt rökstuðningi á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is, eigi síðar en á hádegi 7. janúar 2021. Allir mega senda inn tilnefningu og frjálst er að nefna fleiri en einn aðila, en íþróttafólkið þarf að hafa haft lögheimili í Strandabyggð á síðastliðnu ári. Vissulega hefur farið minna fyrir keppnum á árinu en gegnur og gerist en það þarf ekki að þýða að afrekin og eljan hafi verið minni, þvert á móti má ætla að veglegan aukaskammt af metnaði og þrautseigju hafi þurft til að halda sér við efnið á árinu....
Meira

2021 - ár sóknar!

| 30. desember 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar.

Skrýtið ár að baki.  Sjálfsagt byrja margir áramótapistlar á þessum orðum þetta árið, enda hverju orði sannara.  Árið 2020 var skrýtið, erfitt ár og ófyrirsjáanlegt.  Sumir fagna þess vegna nú þegar árið er að kveðja. 


Engu að síður þurfum við að skoða vel það sem gerðist á árinu og draga lærdóm af því.  Það er ekki þannig að við byrjum með autt blað þann 1 janúar, heldur tökum við með okkur veganesti frá fyrra ári, bæði gott og vont veganesti. Í mínum huga er ýmislegt jákvætt sem hægt er að benda á frá þessu ári sem nú er að líða. 


Samstaða
.  Samstaða íbúa gagnvart Covid-19 er t.d. jákvætt veganesti að mínu mati.  Hér náðist samstaða um að virða sóttvarnir og sætta sig við stöðuna eins og hún var.  Það var ekki sjálfgefið, sérstaklega ekki þegar leið á. 


Skilningur
.  Ég held og vona, að sá mikli niðurskurður sem varð á framlögum Jöfnunarsjóðs til Strandabyggðar á árinu og þær aðgerðir sem sveitarstjórn ákvað að fara í til að mæta þeim niðurskurði, hafi aukið skilning okkar íbúa á því hversu viðkvæmur rekstur sveitarfélagsins í raun er.  Svigrúmið er nánast ekkert.  Við búum við vissa samfélagsmynd og þjónustustig sem við viljum halda í.  En það kostar sitt.  Og meðan við erum jafn háð þeim tekjustofnum sem við höfum, má ekkert út af bregða.

Sókn.  Ég lít svo á að næsta ár verið ár sóknar.  Við þurfum að sækja okkur lausnir, sækja okkur auknar tekjur og ný tækifæri. Horfa út fyrir rammann, eins og sagt er.  Strandabyggð á þrátt fyrir allt, mikla möguleika á að styrkja stöðu sína sem þjónustukjarni þessa svæðis.  Það er t.d. ekki sjálfgefið að það atvinnulíf sem í dag einkennir okkur sé það sem verði eftir 5, 10 eða 20 ár.  Það eru mörg dæmi um sveitarfélög sem hafa snúið við blaðinu með því að sækja í nýjar atvinnugreinar og eða einblínt á að efla og útvíkka þá starfsemi sem fyrir er.  Það er allt hægt, en það kallar á skýra stefnu og samstöðu um þá stefnu.

Ég óska íbúum Strandabyggðar gleðilegs árs og þakka góð samskipti á þessu ári.  Tökum nýju ári fagnandi, því þar eru ónýtt tækifæri.

Sterkar Strandir!

Kær kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Gleðilega Hátíð!

| 23. desember 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Ég geri ráð fyrir að nú sé kominn skötuilmur í hús, enda Jólin að bresta á.  Það er einhvern veginn þannig finnst mér, að þrátt fyrir að jólalög hafi nú ómað í vel á annan mánuð og jólaljósum hafi fjölgað daglega á húsum, bátum, í görðum og gluggum að undanförnu, þá rennur það fyrst upp fyrir manni á Þorláksmessu, að jólin séu að bresta á.  Skatan, skötulyktin, kartöflur og hamsatólg.  Þarna byrja jólin.  Þannig er það að minsta kosti hjá mér, enda alinn upp við vel kæsta skötu.

En jólin snúast samt um annað og meira an skötulykt.  Hvert og eitt okkar tengir jólin við sína sögu, á sinn hátt.  Flest okkar finna þó sennilega fyrir kærleik, samkennd og þörfinni fyrir samveru í tengslum við jólin.  Þessar tilfinningar eru sjálfsagt ennþá sterkari nú um þessu jól en oftast áður, sökum Covid -19, sem hefur takmarkað svo mjög allar samverustundir. 

Um leið og við óskum íbúum Strandabyggðar og landsmönnum öllum Gleðilegra jóla, hvetjum við alla til að fara varlega og hugsa fyrst og fremst um sinn innsta hring.  Leyfum okkur bara að hlakka áfram til fjölskylduboðanna og stærri hátíðarhalda.  Þau koma á endanum. 

Gleðilega Hátíð!

Kær kveðja
Sveitarstjórn og starfsmenn Strandabyggðar.

Helgistund á jólum í Hólmavíkurkirkju

Salbjörg Engilbertsdóttir | 23. desember 2020


Vegna samkomutakmarkana sem nú gilda verða ekki sungnar messur í kirkjum á Ströndum um þessi jól. Þess í stað verður jólahelgistund streymt frá Hólmavíkurkirkju ef allt gengur upp. Stundin mun birtast á aðfangadagskvöld kl. 18:00  á nýstofnaðri facebooksíðu kirkjunnar og verður aðgengileg áfram og hér er slóðin á síðuna og gott að "líka" við síðuna til að engin tilkynning eða viðburður á vegum kirkjunnar fari fram hjá ykkur. 

Á aðfangadag verða einnig sýndar messur á RÚV kl. 18:00 og 23:30.


Í desember færði Starfsmannafélag Kaupfélags Steingrímsfjarðar Hólmavíkurkirkju höfðinglega gjöf. Um er er ræða búnað, myndavél og tölvu til að streyma viðburðum sem tengjast  kirkjustarfi og tónleikahaldi í Breiðafjarðar- og Strandaprestakalli.

Kirkjan færir starfmannafélaginu hjartans þakkir fyrir hlýhug og velvild  og væntir þess að búnaðurinn muni nýtast vel í kirkju- og menningarstarfi á svæðinu.

Með bestu óskir um gleðileg jól, Sigríður Óladóttir sóknarprestur

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón