| 12. október 2018
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Það er kominn nýr mánuður og það sem átti að gerast í september, flyst nú yfir í október. Tíminn leið hratt, því starfið er skemmtilegt og það er endalaust eitthvað nýtt sem kemur upp. Þetta er lærdómsferli, langt en áhugavert. Ég komst þó ekki eins oft út úr húsi eins og ég ætlaði.
Landsþing Sambands sveitarfélaga var haldið í september. Þar var mikið rætt um sameiningar sveitarfélaga og þá staðreynd að sveitarfélögum hefur fækkað mikið á undanförnum árum. Þau eru nú 72, en voru mest 229 að ég held. Þar kom einnig fram að 60% sveitarstjórnarmanna halda ekki áfram eftir eitt kjörtímabil. Sex af hverjum tíu hætta eftir eitt kjörtímabil og snúa sér að einhverju öðru. Þar horfum við ekki bara á eftir góðu fólki úr sveitarstjórnum, heldur líka fer þarna talsverð þekking á innviðum sveitarfélagsins. Hvoru tveggja getur verið slæmt, sérstaklega fyrir lítil sveitarfélög.
Einnig er slæmt að horfa á eftir fagþekkingu og við höfum því miður gert það á liðnum árum. Okkur sárvantar núna rafvirkja, pípulagningarmann og kennara (bæði skólastig) svo dæmi séu tekin. Ef þið vitið um einhverja; hvetjið þá til að koma hingað! Hér er gott að vera og eitt er það t.d. sem ég held að við gleymum oft að nefna þegar rætt er um lífsgæðin hér, en það er heilbrigðisþjónustan og aðgengi hérna að læknum og hjúkrunarfólki. Það er ómetanlegt að hafa þessa þjónustu hér og jafn sterka og raun ber vitni. Segjum hiklaust frá þessu. Verum stolt af okkar sveitarfélagi og því sem það hefur upp á að bjóða.
Af hitaveitumálum er það að segja, að við höfum hafið formlegar viðræður við landeigendur í Hveravík um hugsanlegan samning varðandi nýtingu heita vatnsins sem þar er. Málefni atvinnulífsins hafa líka verið áberandi á mínum borði í september.
Eitt af því sem ég er að átta mig á núna er hversu stórt sveitarfélagið okkar er landfræðilega, eða 1.906 ferkílómetrar, sem ná yfir í Djúp, að Reykhólum og inn í Bitru. Þetta er okkar sveitarfélag og við eigum að hafa hag þess ávallt í huga. Ég hvet okkur öll til að líta í kring um okkur þegar við erum á ferðinni í Strandabyggð, njóta náttúru og fallegs landslags, en nýta tímann líka til að svipast um eftir einhverju sem betur mætti fara. Taka áberandi rusl, láta vita ef eitthvað er að o.s.frv.
Verum stolt af sveitarfélaginu okkar Strandabyggð.
Haustkveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri