A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Skeljavíkurrétt

Salbjörg Engilbertsdóttir | 06. september 2018

Nú nýverið lauk byggingu á nýrri og glæsilegri Skeljavíkurrétt en Trésmiðjan Höfði sá um framkvæmdina. Aðeins eru tvö ár síðan ný rétt við Kirkjuból var vígð og má segja að þessar framkvæmdir séu til mikilla bóta fyrir samfélagið. Á morgun föstudaginn 7. september verður réttað í fyrsta sinn í nýju réttinni og af því tilefni mun Þorgeir Pálsson nýr sveitarstjóri Strandabyggðar segja nokkur orð við upphaf réttarstarfa um kl. 16.00.

Frá sveitarstjóra

Salbjörg Engilbertsdóttir | 04. september 2018


Kæru íbúar Strandabyggðar,

Ég hef nú tekið við spennandi og krefjandi starfi sveitarstjóra.  Fyrstu dagarnir og vikurnar hafa farið í að ná yfirsýn yfir stöðu verkefna, hitta íbúa Strandabyggðar, heimsækja fyrirtæki og ræða við forstöðumenn og starfsmenn sveitarfélagsins.  Ég þakka öllum góðar og jákvæðar móttökur.

Þegar mér bauðst þetta starf var ég  fastráðinn við Háskólann í Reykjavík og sá þar um kennslu í tveimur námsgreinum, markaðsfræði og alþjóða viðskiptum.  Þessum skuldbindingum verð ég að sinna og því er óhjákvæmilegt annað en að fara suður til að kenna.  Ég verð því talsvert á flakki fram að áramótum, en mun reyna að halda þeim ferðum í algeru lágmarki og reyna alltaf að nýta þær um leið fyrir Strandabyggð.  Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram og sé öllum ljóst.

Í lokin langar mig til að minna okkur öll á eftirfarandi:  Nú er skólastarfið komið af stað og þá hefst nýr og spennandi kafli í lífi margra.  Það er okkar sameiginlega skylda sem íbúa Strandabyggðar, að halda vel utan um skólastarfið, krakkana og starfsfólk skólans; sýna þeim virðingu og veita þeim stuðning. Það er mjög mikilvægt að hér sé góður skóli og virkt skóla-, íþrótta-, tómstunda- og tónlistarstarf, bæði svo okkur líði áfram vel hér, en einnig til að laða að nýtt fólk til Strandabyggðar.

 

kveðja

Þorgeir

 

Söfnun fyrir ærslabelg

Salbjörg Engilbertsdóttir | 04. september 2018

Á Hamingjudögum í sumar hófst söfnun fyrir ærslabelg því eins og allir vita mun slíkur hoppbelgur veita mörgum ómælda hamingju.  Tekið var við frjálsum framlögum á ýmsum stöðum t.d söfnuðust kr. 52.761 kr. í vöfflukaffi Hólmadrangs og einnig söfnuðust kr. 53.086 í bauka og með áheitum í rjómatertukasti.  Einnig hefur borist frjálst framlag kr. 3000.  Heildar upphæð söfnunar er nú kr. 108.847. Söfnunin heldur áfram og viljum við hvetja fyrirtæki og stofnanir til að leggja sitt af mörkum.

Tekið verður við frjálsum framlögum á reikning í Sparisjóði Strandamanna 1161-15-202018 kt. 570806-0410. 

Tilkynning til íbúa í Strandabyggð

| 30. ágúst 2018

Að gefnu tilefni viljum við benda fólki á að læsa húsum sínum þegar enginn er heima. Sést hefur til ferða grunsamlegra manna sem reyna að komast inn í hús eða biðja um að komast í sturtu. Vitað er um að fjármunir og skartgripir hafa horfið á heimilum fólks á svæðinu. Ef fólk verður vart við ferðir þessara manna eða hefur grun um að einhver hafi farið inn á heimili þá hafið samband strax við 112.

Vestfirðir 2035-spurningakönnun

Salbjörg Engilbertsdóttir | 29. ágúst 2018

Hvernig telur þú að atvinnu- og mannlíf á Vestfjörðum þróist til ársins 2035?  Taktu þátt í meðfylgjandi skoðanakönnun og segðu þína skoðun.

 

Könnunin er hluti af sviðsmyndavinnu fyrir Vestfirði sem unnin er fyrir Vestfjarðastofu. Markmið sviðsmynda er að efla skilning á hugsanlegri framtíðarþróun og helstu óvissuþáttum sem geta breytt umhverfi okkar. 

 

Fyrirsjáanlegar eru breytingar á samgöngum, tækni, fjarskiptum og  atvinnulífi sem hafa munu mikil áhrif á þróun byggðar á Vestfjörðum.  Sviðsmyndagreining skoðar hvaða drifkraftar í umhverfinu skipta mestu máli, hverjir eru háðir mestri óvissu og hvað gæti hugsanlega gerst ef þessir kraftar þróast í mismunandi áttir.

 

Sviðsmyndir nýtast til að búa svæðið undir framtíðina, hjálpa við mótun stefnu, skipulags og við markaðssetningu svæðisins, hvort sem er til búsetu eða ferðalaga.

 

Vinna við gerð sviðsmynda hentar vel til að stilla saman skoðunum ólíkra hópa og leggja grunn að sameiginlegri stefnumótun. Með því að skoða umhverfi dagsins í dag með gleraugum framtíðarinnar eigum við auðveldara með að koma auga á nýja möguleika og fá heildstæðari sýn til ákvarðanatöku.

 

Könnunin verður opin til mánudagsins 10. september.

 

Smelltu hér til að taka þátt

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón