A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Gæludýrahald í Strandabyggð

Salbjörg Engilbertsdóttir | 21. nóvember 2022
Hunda- og kattahreinsun 2022

Daníel Haraldsson sinnir hreinsun á hundum og köttum mánudaginn 28. nóvember n.k. í Áhaldahúsinu milli kl. 16:00 og 18:00.


 


Gott væri ef hundaeigendur gætu komið á milli 16:00 og 17:00 kattaeigendur á milli 17:00 og 18:00. Hundar þurfa að vera í taumi og kettir í búri en einnig er í boði að sækja lyfin fyrir kettina á auglýstum tíma til Daníels.


 


Hunda og kattaeigendur í Strandabyggð, bæði þéttbýli og dreifbýli eru hvattir til að mæta og nýta sér þjónustuna.


 


Allir hundar og kettir innan þéttbýlis skulu skráðir og bera merkingar skv. reglugerð um hunda- og kattahald sem finna má hér neðar. Skylt er að færa hunda og ketti til hreinsunar árlega.


 


Þeir sem óska eftir annari dýralæknisþjónustu eða upplýsingum er velkomið að hafa samband við Daníel í síma 434-1122 á milli 9 og 11 alla virka daga eða á netfangið dannidyralaeknir@gmail.com



Ný reglugerð um gæludýrahald í Strandabyggð


Í maí sl. var samþykkt ný reglugerð um gæludýrahald í Strandabyggð, en þörf var á nýrri reglugerð m.a. vegna breytinga á lögum og til að samræma betur reglur varðandi hundahald, kattahald og annað gæludýrahald.  Reglugerðina má lesa hér....
Meira

Eitt raðhús, takk!

Þorgeir Pálsson | 21. nóvember 2022

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Þessa dagaga vinnur sveitarstjórn með skrifstofustjóra að því að móta fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og raunar næstu þrjú ár þar á eftir.  Megin áherslan er þó á næsta ár, 2023.  Og það eru langir listar verkefna sem þarf að fara í, þ.e. við ætluðum okkur að gera allt sem þarf. Það vitum við öll.  Svokölluð „innviðaskuld“, sem er það ástand sam skapast þegar sveitarfélagi tekst ekki að viðhalda innviðum sínum, blasir við okkur alls staðar.  Með innviðum er átt við: eignir sveitarfélagsins, stofnanir og búnaður þeim tengdum, götur, gangstéttir, mannvirki, farartæki o.s.frv.  Og fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður eins og: tekjur sveitarfélags duga ekki, kostnaður of hár, viðhaldskostnaður of hár, röng forgangsröðun, rangar ákvarðanir í fjárfestingum og viðhaldi, ytri aðstæður, fólksflótti (minni tekjur), fábrotið atvinnulíf (minni tekjur), efnahagsaðstæður í landinu eins og verðbólga, fjármagnskostnaður o.s.frv.  Ofan á þetta koma síðan sívaxandi kröfur ríkisins um aukna þjónustu sveitarfélaga í ýmsum málaflokkum, án þess að viðunandi fjármögnum þeirrar þjónustu fylgi.  Það er því ekki létt verk að ákveða í hvað peningarnir eiga að fara hjá sveitarfélögum á Íslandi í dag.  Strandabyggð er þar engin undantekning.

En, það er engu að síður verkefni okkar í sveitarstjórn að taka þessar ákvarðanir, forgangsraða og ákveða ráðstöfun skattpeninga íbúa.  Eðlilega eru margar skoðanir á þeirri ákvörðunartöku, og þá er oft gott að horfa til þess lögbundna hlutverks sem kjörnir fulltrúar gangast undir í sínu starfi í sveitarstjórn. Þar gildir að horfa til heildarhagsmuna, ekki sérhagsmuna. Þar gildir að muna hvað er lögbundin þjónusta og lögbundið hlutverk sveitarfélaga.

Það er að komast mynd á hugsanlegan heildar framkvæmdakostnað á næsta ári og hefur sveitarstjórn aflað sér ganga víða.  Haldnir hafa verið vinnufundir, stofnanir heimsóttar, forstöðumenn komið á fundi og langt fram þarfalista viðkomandi stofnanna, rætt hefur verið við starfsmenn grunnskóla og leikskóla ofl.  Allt er þetta gert til að ná sem bestri yfirsýn yfir það heildarfjármagn sem gæti farið í framkvæmdir í Strandabyggð á næsta ári.  Og nú virðist sem sú upphæð gæti verið amk kr. 170.000.000.-  Eitthundrað og sjötíu milljónir.  Það er talsvert fjámagn. Í þessari framkvæmdaáætlun er þó aðeins horft til þeirra verkefna sem forstöðumenn hafa tiltekið sem brýnustu mál næsta árs. Höfum í huga að heildar tekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar um kr. 800 milljónir á næsta ári.

En hvað eru 170 milljónir í raun?  Það er raðhúsaverð í Garðabæ!  Allt sem við teljum okkur verða að  framkvæma á næsta ári í Strandabyggð, kostar það sama og eitt raðhús í Garðabæ.  Ef upphæðin fer í 200 milljónir, ja þá væri kannski hægt að kaupa einbýlishús.  Þetta er nú samhengi hlutanna.  Þetta er sú staðreynd sem blasir við mörgum sveitarfélögum á landinu. Og þetta er ansi öfugsnúin staðreynd finnst okkur.

Framundan eru samt spennandi tímar.  Það er góður gangur í undirbúningi hugsanlegrar hótelbyggingar,  sveitarfélagið er í viðræðum við Húsnæðis og mannvirkjastofnun um byggingu fjögurra íbúða, mikil tækifæri eru í ferðaþjónustu og þá um leið að efla Strandabyggð sem þjónustukjarna og svo er rætt um hugsanlegt landeldi, aukna matvælaframleiðslu í landbúnaði ofl. 

Það dugir ekkert annað en að horfa fram á við.  Lausnin liggur í því að efla tekjur sveitarfélagsins.  Það gerist með eflingu atvinnulífs, fólksfjölgun og samfélagslegum uppgangi.  Það er okkar að raungera þessi tækifæri.

Áfram Strandabyggð!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

 

 

Jólalag Barnakórs Strandabyggðar árið 2022

| 18. nóvember 2022
Jólalag Barnakórs Strandabyggðar árið 2022 er komið á allar streymisveitur og myndband við lagið er komið á Youtube. Hlekkir koma hér neðst í fréttinni.

Að þessu sinni var gengið til samstarfs við sjálfan Eyjólf Kristjánsson, Eyfa. Hann endurtók hlutverk sitt sem aðalsöngvarinn í laginu "Gleðileg jól (allir saman)" sem kom fyrst út á plötu fyrir nokkrum áratugum en er nú komið í nýja útgáfu þar sem barnakórinn er í stóru hlutverki. Lagið hét upphaflega "Merry Christmas Everybody" og var í flutningi hljómsveitarinnar Slade.

Hljóðfæraleikur og söngur barnakórsins var tekinn upp á Hólmavík af Braga Þór Valssyni (sem sá einnig um útsetningar, hljóðfæraleik og kórstjórn) og söngur Eyfa og hljóðblöndun fór fram Í Stúdíó Neptúnus í Hafnarfirði. Upptökumaður þar á bæ var Halldór Á. Björnsson. Hann sá einnig um hljóðblöndun lagsins. Mastering var í höndum Pete Maher, en hann hefur tekið upp, hljóðblandað og masterað ekki minni stjörnur en U2, Sheryl Crow, Coldplay, The Rolling Stones... og nú Barnakór Strandabyggðar.

Christina van Deventer hannaði "plötuumslag" lagsins sem sjá má bæði á streymisveitunum og í myndbandinu.

Við þökkum eftirtöldum styrktaraðilum sérstaklega fyrir aðstoðina: Gistihúsi Hólmavíkur, Café Riis og Sparisjóði Strandamanna.

Myndbandið við lagið: https://youtu.be/DrdCsSTrHPs

Lagið á Spotify: https://open.spotify.com/track/5TWeUJ0YvITdjhFUgyeh5p?si=d7fe451134ee4445


Jólatónleikar Tónskólans 1. desember

| 10. nóvember 2022
Jólatónleikar Tónskólans fara fram kl. 17:00 fimmtudaginn 1. desember í ár, í stað 12. desember eins og kemur fram í skóladagatali sameinaðs skóla. Tónleikarnir fara fram í Hólmavíkurkirkju. Hljóðfæra- og söngnemendur Tónskólans koma fram ásamt öllum nemendum í "Tónlistarstund" (öll börn í elsta árgangi Leikskólans og öll börn úr 1. - 3. bekk Grunnskólans). Einnig mun Barnakór Strandabyggðar flytja tvö lög og Rokkbandið eitt lag.

Forráðafólk nemenda fær sendan tölvupóst með nánari upplýsingum þegar nær dregur.

Slóð á Youtube síðu Strandabyggðar vegna sveitarstjórnarfundar

Þorgeir Pálsson | 08. nóvember 2022
Hér er slóð á Youtube síðu Strandabyggðar, en þar verður sveitarstjórnarfundi 1338 streymt kl 16:00 í dag.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

https://www.youtube.com/channel/UCeIjqjE2w2-V0IMQ9ZxplvA

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón